Læknisfræðin í nútíð og framtíð

Fyrir mannsaldri síðan voru flestir sjúkdómar, sem á oss sækja sem harðast, annað hvort ekki til eða afar fágætir. Mér er vel ljóst, að fólki hefur verið kennt, að þessir sjúkdómar hafi alltaf verið til, en ekki þekkzt sem slíkir. En þetta er ekki rétt, heldur vanþekkingar viðbára. Tannveiki heyrði ég ekki getið á mínum uppvaxtarárum. Nú taka börnin tannveiki jafnvel áður en mjólkurtennurnar hverfa. Og ekki aðeins tannveiki heldur sækir á þau heill her af öðrum sjúkdómum, t.d. bólgnir kokeitlar og bólga og þroti í öllum líffærum, svo sem botnlangabólga, magasár, kirtilþroti og fleira. Þetta hefur kennt læknum að skera burt hin sjúku líffæri. Þeim hefur sést yfir, að þetta eru sjúkdómar í öllum líkamanum, og koma fram í nýrri mynd annars staðar í líkamanum. Þannig er það um botnlangabólgu, magasár og flesta aðra kvilla. Læknum var ókunnugt um, að þessir sjúkdómar komu af orsökum, sem ekki hurfu, þótt líffærið hyrfi. Alþýða manna taldi þessi líffæri illa gerð frá fyrstu. Ég heyri oft fólk segja „Ekki veit ég til hvers Guð hefur gefið okkur þessar tennur„. Það veit ekki, að tannveiki kemur innan að og stafar af ónáttúrlegri og dauðri fæðu, og skemmdin byrjar innan frá. Þar byrjar uppleysing á beini og tannglerungurinn brotnar og fellur inn á svipaðan hátt og þegar raftur brotnar í húsi með torfþaki og þekjan fellur inn. Svipað þessu er með flesta sjúkdóma í mannslíkamanum, jafnvel krabbamein. Þeir stafa af orsökum en orsakirnar eru vanþekking á því lögmáli, sem allt líf er háð og heilbrigði þess. Þannig er það um alla kvilla. Orsakir þeirra lýsa vanþekkingu á því lífs- og heilbrigðislögmáli, sem ríkir í alheimi. Flestir skilja ekki orsakasambandið frekar en ungbarnið, sem þekkir ekki eldinn fyrr en það brennir sig í gómana. En fullorðna fólkið lærir ekki sem skyldi af reynslunni.

Síðast á nítjándu öldinni steyptist heil hersing yfir oss af áður óþekktum sjúkdómum, en orsakir þeirra voru nokkuð, sem við höfðum efnt til, með öðrum orðum ræktað, með ónáttúrlegum lífsvenjum, sér í lagi með röngu, óheppilegu fæði. Sumir hyggja, að þetta hafi stafað af því, að við höfum ekki borðað nógu mikið af kjöti, soðnu eða steiktu. En þetta er fjarri öllum sanni, heldur af því, að við höfum borðað hvítan og dauðan hveitisalla, eiturbleiktan með kjötinu. Vér höfum látið byrla oss þær lífslygar að þetta sé léttmeltanleg og góð fæða. Sannleikurinn er sá, að þetta er eitruð fæða og stórhættuleg. Þegar menn borða þessa fæðu, er efnt til allra mögulegra sjúkdóma, útvortis sem innvortis. Jafnvel háskólalærðir menn gera sér þetta ekki ljóst. En þarna skilur á milli háskólalæknisfræðinnar og náttúrulækningastefnunnar; munurinn er sá, að hin algenga læknisfræði hyggst að lækna afleiðingar ákveðinna sjúkdóma og ræðst að þeim og sker hin sýnilegu sjúkdómseinkenni í burtu, eins og t.d. krabbamein, en sést yfir orsakirnar. Hin stefnan, náttúrulækningar, ræðst að orsökunum, leitar uppi og kemur í veg fyrir þær, en lækningastarfið sjálft vinnur líkaminn, ef hann er rétt nærður. Þess vegna vilja þeir láta hið eitraða hvíta hveiti hverfa, og ennfremur hinn eiturbleikta sykur, hefluð hrísgrjón, formalað hveitimjöl eða rúgmjöl og allar hinar mörgu gervivörur. Vörur, sem hafa verið gerðar að verksmiðjuiðnaði alveg án tillits til hollustusemi og eru dauðar vörur. Þótt þessar matvörur væru látnar hverfa, mundu ekki fjöllin hrynja, en margir sjúkdómar mundu hverfa.

Ég hef gert tilraunir til þess með uppástungu við leiðandi menn að láta hvíta hveitið hverfa og hvíta sykurinn að nokkru leyti, en þeir hafa talið það ófært. Mér finnst, að þeir hafi litið á þetta sem nokkurs konar Guðs afneitun. Skilningurinn á réttu manneldi er ekki lengra á veg kominn. Hve lengi eigum vér að kenna þá heilsufræði, sem ræktar sjúkdóma? Eða eigum vér að leitast við að útrýma orsökunum? Hér er aðeins um tvær leiðir að ræða. Hvora eigum vér að fara?

Hvað er gert til að bjarga æskunni frá neyzlu óhollrar sælgætisvöru? Ég geng oft fram hjá unglingaskóla, þegar stundahlé er. Ég sé, að unglingar hlaupa tugum saman til að drekka coca cola og borða sælgæti í næstu búð. Hver maður ætti að vera svo vel að sér, að hann vissi, að þetta er heilsuspillandi. Þetta er uppeldisskóli í framleiðslu magasára, krabbameina, gigtarsjúkdóma, hjartabilunar og ýmissa annarra kvilla. Hvað er gert til þess að afstýra þessu ófarnaðarástandi?

Náttúrulækningafélagið hefur haldið uppi hressingarheimili í nágrenni Reykjavíkur undanfarin fjögur ár um þriggja mánaða skeið hvert sinn. Síðastliðið sumar heimsótti á fjórða hundrað manna þetta heimili. Heimilið var hvorttveggja í senn heilsuræktarskóli og hressingarheimili. Nú er tilætlunin að koma tilvonandi hæli upp fyrir næsta sumar og hafa þar svipaðan skóla eins og tíðkast í erlendum heilsuhælum. Reynt var að gera fólki það skiljanlegt, að við verðum að lifa á lifandi fæðu, því að rétt valin fæða er undirstaða góðrar heilsu. Dagleg fæða er það efni, sem líkaminn er gerður úr; það hlýtur að vera auðskilið hverjum manni, að til fæðunnar þarf að vanda.

Fólk veit ekki, að menn eru ekki alla sína ævi sömu menn. Allir vefir líkamans endurnýjast á 7 ára fresti. Líkaminn verður allur annar. Fæðan ræður mestu um það, hvort hann endurnýjast til betri heilsu eða hnignar. Hann getur endurnýjast til betri heilsu, orðið hraustari og hæfari, eða hrörnað og nálgazt dauðann. Það fer allt eftir því, hvernig fæðuvalið tekst. En það er lítið gert til þess að glæða þessa þekkingu.
Meginhluti fæðu flestra manna er dauð fæða, hún endurnýjar manninn ekki til hins betra, heldur í gagnstæða átt. Menn vita ekki, að maðurinn, karl og kona, eru frá upphafi vega jurta- og ávaxtaætur, en ekki kjötætur. Það er ríkjandi trú margra manna, að kjöt sé lífsnauðsyn til heilsu og þroska og til vinnuafkasta. En þetta er alröng hugmynd. Maðurinn er upphaflega jurta- og ávaxtaæta eins og segir í sköpunarsögu mannsins, en samt sem áður getur hann neytt nokkurs kjöts án þess að það saki, ef hægðir eru í lagi. En maðurinn hefur langa þarma eins og kindin, kýrin og hesturinn, þessvegna er hætt við því, að kjötleifarnar rotni í þörmunum og eiturefni geti borizt inn í blóðið. Tregar hægðir hafa verið kallaðar sjúkdómur sjúkdómanna, vegna þess að þær framleiða svo marga sjúkdóma. Það, sem skeður við tregar hægðir er, að eiturefnin frá þörmunum berast inn í blóðið, og að lifrin, sem er voldugt hreinsunartæki líkamans, getur ekki hreinsað blóðið svo vel sé. Afleiðing þess er að sýklaeitur berst inn í aðalblóðveginn og framkallar sjálfseitrun eða autointoxicati. En þarmar fullir af eitruðum saur verka einnig skaðlega á nærliggjandi líffæri, svo sem eggjastokka kvenna og orsaka þar æxlismyndanir.

Sjúkdómar nútímamanna innvortis sem útvortis eru engin tilviljun, heldur bein afleiðing þess, að með ónáttúrlegri fæðu er það lögmál, sem lífið er háð, brotið á grófan hátt. Þetta verður á engan hátt lagað nema með því eina móti, að hverfa til náttúrlegs og lifandi mataræðis, sem útrýmir kyrrstöðu og rotnun. Það er hreinasti misskilningur að ætla sér að lækna rotnun í þörmum með bakteríudrepandi lyfjum. Til þess að varðveita heilsu og lífshreysti þarf fæða manna að vera hlaðin sólarorku og því samræmi, sem heilbrigt líf útheimtir. Jurtirnar eru milliliður milli jarðarinnar og lifandi dýra. Ásigkomulag mannsins eins og það getur bezt verið er það, sem Grikkir kölluðu „kalos agaþos, þ.e. fagur, hraustur, vitur og góður maður.

Það er þýðingarmikið að skilja það, að maðurinn er upphaflega skapaður jurta- og ávaxtaæta. Hann er sízt af öllu rándýr, ekki grasæta, heldur jurta- og ávaxtaæta eins og aparnir, sem eru nákvæmlega eins byggðir að meltingarfærum til. Hann hefur tennur, sem merja fæðuna. Hann hefur ekki vígtennur og sagtennur eins og ljónið.

Það er öldungis rétt, að maðurinn getur lifað á dýrafæði, en þá verður hann að borða það hrátt og ekki aðeins kjötið, heldur líka lifrina, netjuna, lungun og nýrun og heilann, og hann verður að borða mikið af beinum. Þess vegna lét Vilhjálmur Stefánsson mala niður beinin handa sér. En um fram allt þurfti hann að fá Š af fitu á móti kjötinu. Það lá við, að það kostaði hann lífið, að hann lenti einu sinni í fituskorti. Hinn kunni danski læknir, Hindhede, gerði tilraun með að lifa einvörðungu á kjöti, og var þá orðinn veikur á þriðja degi, en að ná aftur fullri heilsu tók hann þrjár vikur. Annað skipti reyndi hann ásamt Madsen, tilraunamanni sínum, að lifa á hvítu hveiti. Læknirinn gafst upp á áttunda degi, en Madsen hélt út í tólf daga, og var þá orðinn fárveikur.

Eskimóar hafa öldum saman lifað á kjöti og fiski, en þeir þurfa að hafa Š hluta fæðunnar fitu. Þeir eru orðnir gamlir og slitnir menn, þegar þeir hafa náð 35 ára aldri. Aldurstakmarkið er lágt. Yfirleitt verða þeir ekki eldri en 55 ára.

Hinn danski læknir Hindhede hitti eitt sinn Vilhjálm Stefánsson. Það fyrsta sem hann sagði við hann var „Þér getið ekki lifað á kjöti einvörðungu„. Vilhjálmur kvað það rétt, því að hann þyrfti að borða Š af fitu á móti kjötinu.

Þrátt fyrir allar vísindalegar framfarir læknisfræðinnar, þá fjölgar stöðugt sjúkdómum, jafnframt því, sem þeim fjölgar, sem sjúkir verða. Gripið hefur verið til þeirra ráða að byggja nýja og meiri spítala og nota meira af lyfjum, en þrátt fyrir allt fjölgar þeim, sem sjúkir verða og engan bata fá sinna meina. Doktor Bircher-Benner tókst að lækna marga, sem aðrir læknar höfðu gengið frá. Það tókst með náttúrlegum ráðum, lifandi jurtafæðu og ávöxtum.

Að lokum skal þess getið, að jurta- og ávaxtaætur geta náð háum aldri og verið upp á sitt bezta 85 ára gamlir. Sem dæmi mætti nefna Hunsa-þjóðflokkinn í Himalajafjöllum.

Hvenær tekst hinni almennu læknisfræði að stöðva hinn öra vöxt hrörnunar og úrkynjunarsjúkdóma, sem vaxa nú, sem nemur 400% á hálfri öld og ekkert lát er á ennþá. Það eitt er auðsætt, að vér rísum ekki til lengdar undir þeirri sjúkrabyrði, sem bætist á okkur svo að segja árlega. Hér verður að grípa til annarra ráða. Það verður að snúa inn á aðrar hugarstefnur og ganga inn á braut náttúrulækninganna, sem taka fyrir orsakirnar í staðinn fyrir að glíma við afleiðingarnar. Náttúrulækningastefnan ein er þess umkomin að stöðva hinn vaxandi straum sjúkdómanna og leiða menn inn á nýja braut heilbrigði og friðar.

Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1955.

Related posts

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Grasaferð hjá Heilsustofnun