„Það er heilbrigt líf að verða aldrei veikur og heilbrigður dauði að deyja í hárri elli“

Ég hef mjög mikinn áhuga á heilsu og heilbrigðum lífsháttum. Ég les reglulega bækur og greinar um þessi málefni og á síðastliðnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á lífsstílstengda sjúkdóma og hvernig við getum spornað við þeim. Lífsstílstengdir sjúkdómar eru algengustu sjúkdómarnir í heiminum í dag. Til þeirra teljast til dæmis hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, offita og sykursýki. Þessir sjúkdómar eru ekki alltaf lífsstílstengdir, en oft eru þeir það. Það þýðir að fólk ávinnur sér þessa sjúkdóma með lífsstíl sínum, til dæmis með slæmu mataræði, hreyfingarleysi, reykingum og óhóflegri áfengisneyslu. Streituvaldandi þættir eins og álag í starfi og einkalífi geta einnig haft mikil heilsuspillandi áhrif. Þessir lifnaðarhættir mannsins eru að gera út af við hann. Aldrei áður í sögunni hafa jafn mikið af sjúkdómum, sem maðurinn hefur skapað sér sjálfur í gegnum lífsstíl, herjað á hann. Kröfur nútímasamfélags eru miklar og fólk leyfir sér oft ekki að hvíla sig. Eintóm vinna og streita út í hið óendanlega getur hrundið af stað veikindum á sál og líkama og að lokum getur heilsan gefið sig.

Í stað þess að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl er algengt að maðurinn haldi lifnaðarháttum sínum áfram í óbreyttri mynd, en leiti þess í stað í skammtímalausnir í þeirri von um að sporna við veikindum sínum. Oft duga slík ráð þó skammt. Vegna læknavísindanna hafa margir jákvæðir hlutir gerst í sambandi við heilbrigði manna, en misnotkun á þeim verkfærum sem læknavísindin sköpuðu hefur haft slæm áhrif. Margir halda að lyf séu jafnvel eina lausnin á heilsufarsvandamálum. Lyf og skurðaðgerðir geta stundum verið af hinu góða og nauðsynleg, en það má ekki nálgast þessa hluti sem eina allsherjarlausn. Það eru til svo margar leiðir til þess að vera heilbrigður eða jafna sig á heilsufarsvandamálum. Náttúrulegar leiðir eins og breytt mataræði og meiri hreyfing eru yfirleitt mjög áhrifaríkar og auk þess án allra slæmra aukaverkana. Það getur margborgað sig að leita að orsök vandamálsins og tækla það á jákvæðan hátt, heldur en að eyða orku, tíma og peningum í að halda einkennum niðri, sem ávallt koma upp á yfirborðið að lokum.

Samkvæmt fjölda rannsókna getur fólk ekki einungis komið í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma með heilbrigðum lífsstíl, heldur getur fólk einnig snúið við slíkum sjúkdómum með því að grípa inn í ferlið og byrja að lifa á heilbrigðan hátt. Það að snúa við sjúkdóm var talið ómögulegt fyrir nokkrum árum. Dr. Dean Ornish, virtur bandarískur læknir og rithöfundur, hefur gert fjölmargar rannsóknir á heilbrigði og heldur því fram að alhliða lífsstílsbreyting til hins betra geti ekki aðeins komið í veg fyrir veikindi heldur snúið við alvarlegum veikindum. Dr. Ornish hefur í mörg ár sýnt fram á heilbrigðan lífsstíl sem meðferð gegn sjúkdómum, en ekki aðeins sem vörn gegn sjúkdómum. Hann hefur skrifað margar bækur (t.d. The Spectrum, Reversing Hearth Disease og Eat More, Weigh Less) og haldið marga fyrirlestra sem vert er að skoða. Vefsíður á vegum Dr. Dean Ornish eru http://www.ornishspectrum.com/ og síða Preventive Medicine Research Institute http://www.pmri.org/. Ég mæli með því að kíkja á þær.

Jónas Kristjánsson læknir og einn af brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á Íslandi og uppbyggingu Heilsustofnunar NLFÍ og Dr. Dean Ornish eiga margt sameiginlegt í skoðunum sínum á mikilvægi heilbrigðs lífsstíls. Á heimasíðu NLFÍ er að finna fyrirlestur Jónasar um lifnaðarhætti og heilsufar (https://nlfi.is/fyrirlestur-jonasar-laeknis-kristjanssonar-um-lifnadarhaetti-og-heilsufar-fyrri-hluti). Í fyrirlestrinum kemur ýmislegt áhugavert fram, en hann var fluttur í mars árið 1923, og þrátt fyrir að það sé langt síðan á efni hans vel við enn þann dag í dag. Jónas læknir og Dr. Dean Ornish eru að tala um sömu hlutina er varða heilbrigði þrátt fyrir að um 90 ár skilji á milli. Jónas segir að augljóst sé að eftir því sem að þekking mannkynsins vex, því óhraustara verði mannkynið, að engu líkara sé en að „upp komi tveir nýjir kvillar fyrir hvern einn sem viðnám er veitt“. Hann veitir því eftirtekt að læknum, sjúkrahúsum og heilsuhælum  fjölgi og þau stækki, en að sífellt sé þó skortur á þeim. Krabbamein sé að aukast og nýjir sjúkdómar að bætast við sem vart þekktust áður eins og sykursýki og meltingarkvillar. Á þessum tímum var það berklaveiki sem hrjáði mannkynið, en berklaveiki orsakaðist af smitun með berklagerlum. Jónas segir þó að fleira komi til greina en það. „Heilbrigður og hraustur líkami getur varið sig berklaveikinni, en ef líkaminn veiklast af einhverjum ástæðum, t.d. því að ólag kemst á efnaskifti líkamans og meltingu, hin eðlilega samsetning blóðsins fer úr skorðum sökum skorts á svefni og hvíld, eða að skortur er á bætiefnum (vitaminum), söltun og járni í fæðunni, eða að maður eitrar líkama sinn með alkoholi eða tób-aki, þá getur líkami manna auðveldlega orðið herfang berklaveikinnar. Til þess að vinna sigur á berklaveikinni, hvítadauðanum, sem ógnar mannkyninu með tortímingu, verður jafnframt því að forðast smitun að kappkosta, að hver einstaklingur reyni að halda líkama sínum hraustum og auka mótstöðuafl hans sem mest, með rjettu mataræði, útivist og útivinnu, jafnframt því að forðast allt sem veiklar líkamann og minnkar mótstöðuafl hans. Lifnaðarhættir manna eru sjaldnast teknir nægilega til greina þegar rætt er um orsakir til sjúkdóma, eins og það sýnist þó liggja beint við“. Jónas setti það skýrt fram, fyrir um 90 árum, að heilbrigðir lífshættir væru það sem skiptir meginmáli til þess að halda heilsu. Jónas segir í fyrirlestrinum að leiða verði fólk á rétta braut heilbrigðis og hvernig það eigi að lifa til þess að verða farsælt, til þess að lifa og deyja heilbrigt, „en það er heilbrigt líf að verða aldrei veikur og heilbrigður dauði að deyja í hárri elli“

Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði mætast kenningar læknisfræði og náttúrulækninga, en oft má sjá hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar vinna vel saman. Hópur fólks sem leitar náttúrulegra leiða til þess að viðhalda heilbrigði sínu stækkar sífellt og fagfólki í „óhefðbundnum“ lækningum fjölgar stöðugt. Það er mikið ánægjuefni að fólk sé að opna augun fyrir því að það verði sjálft að taka ábyrgð á sinni heilsu. Sjúkdómar og einkenni þeirra eru í raun viðbrögð líkamans við áreiti og álagi og merki um viðleitni líkamans til að ná aftur jafnvægi og heilsu. Líkaminn er fær um að lækna sig sjálfur í mörgum tilfellum en hann þarf réttu tækin til þess. Þessi tæki eru að finna í heilbrigðum lífsstíl. Heilbrigður lífsstíll hefur ekki aðeins þau áhrif að fólk sé með gott ónæmiskerfi, getur viðhaldið heilsu sinni og líður betur, heldur hefur fólk meiri möguleika á að jafna sig á veikindum sínum ef það hugsar um heilsuna.

Í öll þau þrjátíu ár sem Dr. Ornish hefur stundað lækningar hefur hann velt því fyrir sér hvað það er sem fær fólk til þess að breyta lífi sínu. Hvað fær fólk til þess að vilja lifa á heilbrigðan hátt? Hvað fær fólk til þess að breyta af venjum sínum og viðhalda breytingunni? Hann heldur því fram að hræðsla við veikindi eða dauða sé ekki það sem hafi mest áhrif á val fólks. Það sem sé áhrifamest í þessu öllu sé gleðin við að lifa, frelsi, ánægja og vellíðan. Það þurfa ekki að líða nema nokkrar vikur eða mánuðir og viðkomandi finnur mikinn mun á sjálfum sér. Það er auðsjáanlegt að fólk getur alveg breytt lífsstíl sínum, það eru til dæmis miklar lífsstílsbreytingar sem felast í því að eignast barn í fyrsta skipti. Fólk er ekki hrætt við að breyta, ef það trúir því að það sé þess virði. Það er staðreynd að fólk vill helst ekki hætta einhverju sem því líkar, nema það fái eitthvað fljótt í staðinn sem er betra. Maður er líklegri til að velja einhvern ákveðinn valkost ef það mun gera lífið skemmtilegra og þess virði að lifa því. Einfalt val um heilbrigðan lífsstíl á hverjum degi er það sem skiptir mestu máli.

Lífsstílssjúkdómar verða sífellt meira áberandi. Þær meðferðir sem hægt er að fá á Heilsustofnun stuðla að líkamlegu og andlegu jafnvægi. Fólki gefst tækifæri til að komast burt úr sínu daglega unhverfi, sem oft er yfirfullt af streitu, til að vinna að bættri heilsu, en fólki er einnig kennt að lifa á heilbrigðan hátt svo að jafnvægi líkamans haldist eftir meðferð. Ef fer sem á horfir mun þörfin fyrir heilsustofnanir aukast á næstu árum. Heilsustofnun NFLÍ er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga og mun halda áfram að vera það um ókomin ár.

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur

Related posts

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup