Orðið skepna hefir margar merkingar. Það er dregið af sögninni að skapa og þýðir upprunalega “vera, það sem skapað er, allir hlutir, bæði lifandi og dauðir” (Orðabók Árna Böðvarssonar). Ennfremur getur það þýtt “lauslát kona, almennt skammaryrði, illa innrætt manneskja”. Og skepnuskapur þýðir samkvæmt sömu heimild “kvikindisháttur, ótuktarskapur”. Síðar í þessari grein verður nánar vikið að þessum afleiddu merkingum orðsins.
Eðlishvatir
Flestum athöfnum dýranna, annarra en manna, stjórna meðfæddar eðlishvatir, “blindar” eðlishvatir, eins og oft er sagt. Þær hafa orðið til á þróunarferli dýrsins, sem nær yfir milljónir alda. Sitt af hverju læra þó dýrin, ýmist af foreldrum sínum eða af reynslunni, svo sem að varast ýmsar hættur, jafnvel að velja sér fæðu. Og það er kunnara en frá þurfi að segja, að hægt er að kenna dýrum, æðri sem lægri, margvíslegar listir og verknað, eins og m.a. má sjá í fjölleikahúsum. Ekki er þó slíku til að dreifa um hið stórfurðulega hátterni smádýra eins og maura og býflugna, þar sem um er að ræða svo vel skipulagða samvinnu stórra dýrahópa, að ætla mætti, að skyni gædd vera sæti þar við stjórnvölinn. Ratvísi dýra, m.a. farfugla, tímaskyn þeirra og bygging hreiðra eru enn nokkur dæmi um meðfæddar eðlishvatir.
Hitt orkar svo ekki tvímælis, að dýrin, sum þeirra að minnsta kosti, kunna að hugsa og álykta. Þekkja flestir dæmi þess, af eigin reynd eða frásögnum annarra, bæði um villt og tamin dýr, svo sem refi, hunda, hesta, ketti og jafnvel blessaða sauðkindina, sem annars er ekki talin allra skepna gáfuðust, ef ráða má af því heiti, sem við sæmum stundum lítt gefna meðbræður okkar.
Fæðuval
Í náttúrlegu umhverfi velja dýrin sér fæðu af öruggri eðlishvöt. Sumt læra þau ef til vill af foreldrum sínum. En dýr geta þó orðið sólgin í matvæli, sem þeim eru skaðleg, svo sem sætindi, salt, einnig í áfengi. En þá er jafnan um að ræða tamin eða hálftamin dýr, sem lifa við ónáttúrleg skilyrði. Og náttúran hefir ekki búið dýrin viðvörunarskyni gagnvart skaðlegum matvælum eða öðrum hættum, sem sjaldan eða aldrei verða á vegi þeirra í náttúrlegum heimkynnum þeirra.
Dýrin eru mörg ákaflega lykt- og bragðnæm. Margskonar tilraunir hafa verið gerðar á dýrum, svo sem rottum og svínum, til að prófa næmleika þeirra á fæðutegundir. Þau eru látin velja úr mörgum tegundum matar og drykkja. Jafnvel alisvínið, sem vanizt hefir allskonar ónáttúrlegu fóðri, sem ætlað er að fita það, velur sér þann mat, sem náttúran hefir ætlað því, ef það á þess kost. Þessvegna sagði danski manneldisfræðingurinn Hindhede: “Hið heimska svín hefir meira vit á næringarfræði en lærðustu næringarfræðingar”.
Þetta hafa sumir fært sér í nyt til að gera upp á milli næringarkosta matvæla, sem ræktuð eru með mismunandi hætti en reynast jöfn að gæðum samkvæmt efnagreiningum. Þannig finna t.d. rottur og svín mun á korni eða grænmeti, eftir því hvort það er ræktað með lífrænum áburði eða tilbúnum áburði og velja það fyrrnefnda. Svipuð er reynsla margra bænda, að sauðfé og kýr éta betur töðu af túni, sem fengið hefir búfjáráburð en ef tilbúinn áburður hefir verið notaður.
Eðlishvatir mannsins
Eins og önnur dýr er maðurinn að sjálfsögðu gæddur eðlishvötum. En þær fá ekki notið sín, vegna þess að börnin alast upp í umhverfi, gjörólíku því, sem forfeður þeirra um þúsundir ára áttu við að búa á þróunarskeiði mannsins. Þær sljóvgast meira og minna þegar á fyrstu dögum og vikum ævinnar. Af því leiðir m.a., að maðurinn er ekki fær um að velja sér fæðu á sama hátt og dýrin. Fæðuvalið verður tilviljunum háð. Og að svo miklu leyti sem það stjórnast af þekkingu á næringarverðmætum, er sú þekking mjög í molum.
Þó hafa tilraunir sýnt, að ungbörn, þ.e. börn á fyrsta ári, kunna að velja sér fæðu. Fyrir allmörgum árum var gerð tilraun með þetta í Ameríku. Fyrir börnin voru sett matarílát með ýmiskonar matvælum, hráum og soðnum. Hver matartegund var borin fram út af fyrir sig, engu blandað saman. Börnin bentu fyrst af handahófi á matvælin, og starfsstúlka skammtaði þeim á disk þeirra, enda voru börnin mörg ekki nema nokkurra mánaða gömul, þannig að þau rétt gátu setið við borð. Eftir fáa daga voru börnin farin að þekkja matvælin og völdu þá eftir smekk. Niðurstaðan varð sú, að börnin þrifust og döfnuðu hið bezta, a.m.k. ekki síður en önnur börn.
Því miður fer fljótt svo, að sætindi og annar óeðlilegur matur sljóvgar bragðskyn barnsins og eyðileggur þennan leiðarstein þess.
Eru dýrin grimm?
Þeirri spurningu verður hér svarað afdráttarlaust neitandi. Hvað er grimmd? Svar: Það að valda öðrum kvalræði, vera meðaumkunarlaus, óvæginn, samkvæmt skilgreiningu Árna Böðvarssonar. Þetta á ekki að öllu leyti við um dýrin. Þau ráðast á önnur dýr, annaðhvort í sjálfsvörn, ef þau eru hrædd, eða til að afla sér matar, og drepa þá bráð sína hreinlega, en kvelja hana ekki að óþörfu.
Fálkinn rotar rjúpuna með einu höggi, ljónið og tígrisdýrið bíta bráð sína á barkann. Þetta er ekki grimmd, dýrin eru aðeins að ganga að matborði sínu á þann hátt, sem skaparinn hefir til ætlazt. Sum rándýr virðast sólgin í mannakjöt, ef þau komast á bragðið. En sama gildir um suma villta meðbræður okkar, og þar er heldur ekki um að ræða grimmd í ofangreindri merkingu þess orðs. Við sjáum ketti og jafnvel hunda leika sér að bráð sinni og drepa dýr án þess að leggja sér þau til munns. Og ef tala á um grimmd hjá dýrum, þá er hana einmitt helzt að finna hjá húsdýrum okkar, m.a. hjá hrútum og törfum, og m.a.s. jafngæf og elskuleg skepna og hesturinn getur líka sýnt af sér svipaða áreitni með því að bíta og slá.
Grimmasta skepna jarðar
Það er jafnan vitnað í ljónið og tígrisdýrið sem grimmustu dýr jarðar. En sé það grimmd að drepa sér til matar eða í sjálfsvörn, þá er það einmitt maðurinn, sem skipar þennan sess, en ekki rándýrin. Miðað við þessa skilgreiningu eina er maðurinn því tvímælalaust grimmasta skepna jarðar.
Á hinn bóginn skal það tekið fram, að það er ekki af grimmdareðli, að maðurinn veiðir dýr eða slátrar þeim sér og öðrum til matar eða í atvinnu skyni. Að vísu beitir hann oft, bæði fyrr og síðar, mjög miskunnarlausum aðferðum, svo sem við laxveiðar, fiskveiðar, hvalveiðar, fugladráp o.fl.
Og oft stunda menn þessa iðju sér til gamans, sem einskonar dægrastyttingu og íþrótt, og sýna þar fullkomið miskunnarleysi gagnvart þjáningum dýranna, enda þótt tilgangurinn sé að vísu ekki sá að valda þeim kvöldum. Það er ekki heldur af grimmdarþorsta að dýr hafa verið og eru kvalin í nafni vísindanna við allskonar tilraunir og rannsóknir, sem á þeim eru gerðar. Þrátt fyrir aðgerðir dýraverndunarfélaga og lagasetningar mun það enn viðgangast, að dýr séu krufin lifandi og ódeyfð.
Sé aftur vikið að skilgreiningu þeirri á hugtakinu grimmd, sem getið er í upphafi þessa máls, mætti svo virðast, sem grimmd væri manninum í blóð borið. Miskunnarleysi virðist t.d. vera ríkur þáttur í eðli barna. Einn góðan og gegnan og lífsreyndan mann heyrði ég segja fyrir nokkrum árum: “Það eru ekki til miskunnarlausari kvikindi en krakkar”. Þetta kemur m.a. fram gagnvart öðrum börnum eða gagnvart fullorðnum, sem eru sérkennilegir, líkamlega eða andlega eða í klæðaburði. Það skal ósagt látið, hvort rétt er að kalla þetta grimmd, eða skopskyn, blandað hugsunarleysi. En hinsvegar er engum vafa bundið, að sumir menn hafa beina ánægju af að kvelja aðra, valda þeim líkamlegum þjáningum. En hér skal ekki um það dæmt, hvort þessar hvatir eru þeim meðfæddar, eða hvort þær eiga rót sína að rekja til uppeldis, til vonbrigða eða annarra áhrifa, sem þeir hafa orðið fyrir á lífsleiðinni.
Það fer mjög eftir persónulegu mati, hvað við köllum grimmd hjá dýrum. Hvalir og selir eru ekki sakaðir um grimmd, þótt þeir drepi og éti fiska, taki meira að segja silunginn frá okkur í árósum. En ljón, tígrisdýr, jafnvel fálkar og birnir, eru kölluð grimm dýr, sennilega eingöngu vegna þess, að þær skepnur, sem þessi rándýr lifa á, standa okkur nær. Okkur þykir vænt um rjúpuna, hjörtinn eða antílópuna, m.a. vegna þess að þetta eru fallegar skepnur. Ég tala nú ekki um, ef rándýrin gerast svo nærgöngul að ráðast á mannlegar verur, sem í þeirra augum eru hreint ekkert annað en venjuleg bráð. En ef við setjum okkur í spor rjúpunnar eða hreindýranna, sem við sjálfir leggjum að velli og limlestum, án þess að geta gert endi á lífi þeirra, og það að nauðsynjalausu, þá hygg ég, að þessi dýr, og þaðan af síður sjálfur skaparinn, mundi ekki vera í miklum vafa um það, hver væri grimmasta og miskunnarlausasta skepna jarðar.
“Engin skepna er fullkomin”
Hverjar sem orsakirnar kunna að vera, þá er það staðreynd, að engin vera, önnur en maðurinn, veldur öðrum dýrum eða mönnum þjáningum og hörmungum vitandi vits og af ásettu ráði. Hér er ekki fyrst og fremst átt við styrjaldir, enda þótt þær veiti mörgum manninum færi á að svala kvalalosta sínum. Hryðjuverk í hernaði eru framin í blindri hlýðni við miskunnarlausa yfirboðara, oft af ótta, í hefndarskyni og í óstjórnlegri bræði. Pyntingar eru framkvæmdar í ákveðnum tilgangi, en stundum af persónulegum hvötum.
Í daglegu lífi eru ódæðisverk unnin, bæði á dýrum og mönnum, líkamleg og sálarleg, af æði margvíslegum ástæðum. Öll þekkjum við dæmi þess, og könnumst við menn og konur, sem láta sér fátt fyrir brjósti brenna í þeim efnum. En að kenna slíkt athæfi við skepnur er út af fyrir sig hrein ósvinna og meiri háttar móðgun í garð dýranna, sem að heiðarleik og í siðferði standa manninum svo langtum ofar. Sá maður, sem fyrstur notaði orðin “skepna” og “skepnuskapur” í þessum merkingum, framdi óhappaverk, því að notkun þeirra fær menn ósjálfrátt til að líta dýrin öðrum augum en þau verðskulda.
Er það ekki svo með grimmdina, líkt og syndina, að hún kemur í heiminn með manninum, og þá fyrst, er hann fer að gera greinarmun góðs og ills? En hann hefir bara ekki heimild til að flytja þessi hugtök yfir á dýrin.
Ég vil ljúka þessum hugleiðingum með setningu, eða orðaleik, sem einhver fyndinn náungi, og um leið vitur maður, hefir skrifað: “Engin skepna er fullkomin. Maðurinn einn er fullkomin skepna”.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1969, bls. 38-43