Markaðssetning heilsunnar – Einföldum lífið!

Við lifum á gríðarlegum neyslu- og upplýsingatímum. Á þessum tímum höfum við gleymt því um hvað þessi jarðvist snýst um, en hún snýst um hamingjuna og lifa lífinu lifandi. Hamingjuna er oftast að finna í einfaldleikanum og rónni frekar en í endalaust af dauðum hlutum sem við söfnum í kringum okkur. Þessi þörf okkar fyrir að safna að okkur dauðum hlutur skilar okkur oft ekki í meiri hamingju heldur þvert öfugt með auknum tómleika og enn meiri þörf á  dýrari, nýrri og flottari hlutum.

Ég lifi og hrærist í því að hvetja fólk til heilbrigðs lífernis en markaðsöflunum hefur tekist svo rækilega að gera heilbrigði og heilsu að söluvöru að almenningur á erfitt með að átta sig á því hvað er satt og rétt þegar kemur að heilbrðu líferni. Eins og þetta ætti nú að vera einfalt þ.e.a.s. að nærast, hreyfa sig og hvílast. Ekkert af lífverum þessa heims hefur tekist að flækja líf sitt jafnmikið af óþörfu eins og við höfum gert með með því að flækja það að lífa heilbrigðu lífi.
Í þessum pistli er farið yfir það hvernig búið að markaðsvæða tvö svið heilsunnar: næringuna  og hreyfinguna. Hinir þættirnir heilsunnar; svefn og sálarlífið hafa ekki náð þessum stað í markaðssetningu en það er bara spurning hvenær þeir ná þessum stalli, það má sjá í aukinni sölu á bókum, öppum og tækjum til að bæta svefn og minnka streitu.

Næring – Borðar þú ekki örugglega lífrænt, fastar reglulega og ert vegan?

Ekkert tengt heilsunni er jafnmikil söluvara og næringin og allt tengt henni.  Í yfir hundrað ár er búið að vera að predika fyrir okkur megrunarkúra til að halda okkur í réttri þyngd og bæta heilsuna. Bækur um hina eina réttu næringu eru endalausar en með tilkomu internetsins og nú síðustu árin samfélagsmiðla hefur áreitið að hinum ýmsu kúrum, bætiefnum, forritum og tækjum til að huga að næringunni aukist alveg gríðarlega.

Enginn er maður með mönnum nú til dags nema að vera t.d. að nota rándýr bætiefni, borða lífrænt, er vegan, fastar a.m.k. 16 klukkustundir á sólarhring og drekka nýpressaða safa og sítrónuvatn að morgni.
Öll þessi markaðsvæðing á næringunni gerir störf mín sem næringarfræðings mjög erfiða og flókna þegar kemur að því að leiðbeina fólki að hollari mataræði. Ég leita leiða með mínum skjólstæðingum að góðri einstaklingsmiðaðri lausn í mataræðinu sem ætti að skila sér í langtíma árangri. Skjólstæðingar mínir fara oft af sporinu í þessari heilsuvegferð því markaðsöflin bjóða miklu meiri árangur með nýja megrunarkúrnum og  þar að auki á styttri tíma en sett var upp með í mínum ráðleggingum. Alltof margar ráðleggingar í markaðssetningu næringar snúast um að setja fólk á stranga kúra (og því strangari og klikkaðari því meiri athygli og fylgjendur) sem enginn nútímamaður getur fylgt án þess að flytja lögheimili sitt í klaustur!

Því fyrr sem almenningur áttar sig á því að við lifum á neyslutímum og það eru alltaf til einhverjir sem tilbúnir eru að græða (og það vel) á því að selja almenningi einhvern „geggjaðan“ kúr og bætiefni. Þessir kúrar lofa allir ótrúlegum árangri og banna ákveðnar matvörur. Góð regla fyrir almenning er að forðast kúra og sérstaklega þá sem banna alvöru mat eins og t.d. ávexti, grófkorn og hreinar mjólkurvörur.

Einfaldasta, ódýrasta og besta reglan til að huga að næringunn er: Borðaðu hreina fæðu ekki of mikið og ekki of lítið.

Hreyfing – Áttu ekki allar græjur?

Við fæddumst með útlimi til þess að hreyfa okkur en vá hvað það er búið að flækja þessa hreyfingu og gera hana rándýra í alltof mörgum tilfellum. T.d. ef þú hefur gaman af því að hjóla þá þarftu helst að eiga léttasta carbon racerhjólið, sérstaka pedala, skó, hjálm, hanska, vetrar- og sumarföt o.fl. Og það er ekki nóg að eiga „bara“ racer þú þarft líka að eiga fjallahjól og það helst full dempað og annað sem er knúið rafmótor. Fjallahjólunum fylgir álíka útbúnaður og á racernum og helst má ekki blanda þessu saman. Mjög margir eru komnir með hjólaútbúnað sem væri gjaldgengur í atvinnumannakeppnir eins og Tour de France.
Hvaða rugl er það að vera að græja sig svona upp til þess að hjóla sér til skemmtunar!? Gamli Peugeot racerinn þinn getur bara verið helvíti góður og hann nýtist sannarlega mjög vel til að hreyfa sig og hjóla en þetta snýst um það. Author hjólið sem þú kaupir Húsasmiðjunni eða Byko á 40.000 kr getur líka bara verið nokkuð gott og þú færð meiri og öflugri hreyfingu af því að nota það, því það er svo þungt og þú þarft meiri krafta til að koma því áfram. Mundu bara að geyma Author hjólið inni því það er fjótt að ryðga ef þú geymir það úti.

Hjólreiðarnar eru ekki einar með það að vera undir öflum markaðssetningar og aukinnar sölu því sífellt er að koma fram með nýjar, betri og flottari græjur í öllum íþróttagreinum. Fólk í í dag er farið að eiga rándýr æfingaföt, þrennskonar æfingaskó, nuddbyssur, nuddbolta dýrustu æfingaúrin, rafbylgjur og þrýstingsbuxur til að nota að loknum æfingum. Málið með allt þetta rándýra dót er að það er ekki ávísun á árangur ekki frekar en fæðubótarefnin eru það þegar kemur að næringunni. Árangur næst með ástundun, aga og hvíld – ekkert af því er hægt að kaupa!
Það eina góða við að fólk sé að kaupa þetta rándýra æfingadót er að þeir sem hafa síður efni á því fá það á tombóluverði þegar fólk hættir að nota dótið, sem það gerir mjög oft.

Það hafa fáir efni á því að vera með allar flottustu og dýrustu græjurnar í hvaða sporti sem er enda snýst hreyfing ekki um að vera sem best græjaður. Hreyfing á ekki að vera bara á færi þeirra ríku og aldrei láta vöntun á græjun eða fatnaði vera til þess að þú ferð ekki hreyfa þig ef þú hefur viljann til þess. Þeir sem nota það sem ástæðu til að hreyfa sig ekki eru líklega bara að finna enn eina ástæðu til þess að hreyfa sig ekki. Allir sem hreyfa sig fá stórt prik frá mér og alveg sama hvort það er á carbon hjóli eða Author hjóli úr Húsasmiðjunni, eiganlega fær Húsasmiðjuhjólið meiri virðingu frá mér því það er erfiðara að hjóla á því. „Það er betra að eyða hitaeiningum en eyða peningum“, þegar kemur að heilsueflingu.

Einfalt ráð þegar kemur að hreyfingu: Hreyfðu þig daglega ekki of mikið eða of lítið –  Og hafðu gaman af hreyfingunni.

Hér má finna greinar af vefnum okkar um ýmislegt nytsamlegt er kemur að alvöru næringu og hreyfingu til varanlegrar heilsueflingar:

Næring
https://nlfi.is/heilsan/ofmetin-faedubotarefni/
https://nlfi.is/heilsan/tho-moti-blasi-14-ar-i-heilsueflingu/
https://nlfi.is/heilsan/heilsuvoxtur-i-stad-hagvaxtar/
https://nlfi.is/heilsan/naerum-okkur-a-fjolbreyttum-mat-en-ekki-pillum/
https://nlfi.is/heilsan/algengar-ranghugmyndir-mytur-vardandi-naeringu-og-heilsu/
https://nlfi.is/heilsan/ofurskammtar-faedubotarefna-og-jafnvaegi-likamans/
https://nlfi.is/heilsan/sex-ar-a-heilsuhaelinu-reynslusaga/

Hreyfing
https://nlfi.is/heilsan/hugad-ad-heilsunni-um-jolin/
https://nlfi.is/heilsan/hreyfing/hvernig-gerum-vid-hreyfingu-ad-lifstil/
https://nlfi.is/heilsan/bodskapur-jonasar-laeknis-um-mataraedi-og-heilbrigdi/
https://nlfi.is/heilsan/hjolreidar-frabaer-leid-til-heilsubotar-og-umhverfisverndar/
https://nlfi.is/heilsan/nutimamadurinn-er-sofakartafla/
https://nlfi.is/heilsan/sjonvarpslausir-fimmtudagar/
https://nlfi.is/heilsan/nutiminn-er-trunta/
https://nlfi.is/heilsan/gonguhreyfingin-og-thyding-hennar-fyrir-lif-og-heilsu/

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing