Íslensk tunga

Á tímum alþjóðavæðingar og alþjóðahyggju, þegar heimurinn hefur smækkað eins mikið og raun ber vitni, þegar ferðalög um framandi slóðir eru ekki einungis fyrir útvalda, þegar allur heimsins fróðleikur er aðgengilegur í einkasíma hvers og eins, þegar flutningar á vörum milli heimsálfa eru daglegt brauð, þegar meðalævi endist ekki til að fylgjast með öllu því fjölbreytta afþreyingarefni sem í boði er í fjölmiðlum, er full ástæða fyrir örþjóð í Norðurhöfum að hafa áhyggjur af örtungumáli sínum.  Áhyggjur af örlögum íslenskrar tungu eru svo sem ekkert nýjar af nálinni.  Þegar Danir fóru með yfirráð Íslands þótti fínt og til marks um fágun að sletta dönsku.  Á stríðsárunum náði enskan yfirhöndinni og eiginlega hefur hún aldrei sleppt þeim tökum, þvert á móti hefur enskan færst í aukana enda má halda því fram að hún sé að verða alheimstungumálið, ef hún er ekki nú þegar orðin það.  Áhrif enskrar tungu í okkar daglega lífi eru í það minnsta víða og sérfræðingar hafa bent á að nauðsynlegt sé að grípa til margvíslegra aðgerða ætlum við að varðveita íslenskuna og menningu okkar til framtíðar.  Unga fólkið okkar eyðir mörgum klukkustundum á dag í tölvum og snjallsímum þar sem stór hluti viðmóts og upplýsinga er á ensku og íslenskt viðmót er jafnvel ekki í boði. Stærstur hluti afþreyingarefnis í boði er á ensku þannig að ungt fólk á Íslandi í dag dvelur langdvölum í ensku málumhverfi.  Það er því ekkert skrýtið að íslenskan verði stöðugt enskuskotnari, að minnsta kosti talmálið.

Ungmeyjarnar á mínu heimili sjá um eigin uppfærslur á orðaforða heimilisins, oftast án mikilla undirtekta foreldranna og jafnvel í óþökk þeirra því hér á heimilinu er reynt að viðhalda ákveðinni hreintungustefnu, okkur foreldrunum finnst mikilvægt að dömurnar nái góðum tökum á eigin móðurmáli, áður en þær fara að bregða undir sig öðrum fótum í öðrum tungumálum.  Eitt af því sem við höfum gjarnan krafist er að þær skilji að minnsta kosti orðin sem þær nota sem slettur og geti útskýrt þau á íslensku.  Þetta getur verið frekar snúið, oft hafa þær tilfinningu fyrir þýðingu þeirra orða sem þær nota en geta ekki útskýrt þau nánar.  Þannig var orðið actually notað í tíma og ótíma (borið fram aksjúllí) án þess að nein haldbær skýring fengist á því og um tíma var orðatiltækið no fence nokkuð vinsælt, foreldrunum til töluverðrar kátínu (ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki betur innrætt en svo að fyrst þegar þetta var notað hér á heimilinu skellihló ég heillengi).  Að vísu datt þetta orðatiltæki snarlega út af vinsældalistanum þegar þýðingin var gerð opinber, að sjálfsögðu höfðu ungmeyjarnar ekki ætlað að ræða skort á girðingum og vissu ekki betur en að þær væri að útskýra að þær ætluðu sér ekki að móðga neinn með ummælum sínum.  Annað orðatiltæki sem er nokkuð mikið notað hér á heimilinu er að eitthvað meiki engan sens.  Mér finnst það að minnsta kosti ekki meika neinn sens að sletta orðum sem maður skilur ekki.

Á degi íslenskrar tungu lenti ónefnd móðir í uppsveitum Kópavogs í þeim fáheyrðu vandræðum að hún svaraði ekki í símann þegar eitt af afkvæmunum hringdi eftir akstursþjónustu.  Þegar síminn hringdi var móðirin að sinna öðru barna sinna og hafði því slökkt á hringingunni á símanum sínum, til að koma í veg fyrir truflun.  Barnið sem hringdi hafði nýlokið íþróttaæfingu í íþróttahúsi í hinum enda bæjarins, þurfti að bíða í hátt í átta mínútur eftir strætó og ákvað því að freista þess að fá móðurina til að koma og sækja sig.  Móðirin, sem var stödd í um það bil tíu mínútna akstursfjarlægð frá íþróttahúsinu, heyrði hins vegar ekki í símanum og gat því engan veginn bjargað barni sínu frá þeim  ömurlegu örlögum að þurfa að taka strætó heim.  Krakkagreyinu gramdist þetta að sjálfsögðu enda er þjónustustig mæðra við börn í Kópavogi yfirleitt mjög hátt, þær endasendast bæjarhluta á milli með börn sín í tómstundir og það kemur sárasjaldan fyrir að þær missi úr ferð.  Sem betur fer komst barnið heilt á húfi heim til sín og hittist reyndar þannig á að barnið og móðirin gengu samtímis inn í íbúðarhúsið sem þau búa í.  Móðirin heilsaði barninu glaðlega og spurði hvernig dagurinn hefði verið en barnið leit ólundarlega á móður sína og sagði með ásökunarrómi:  ,,Mamma, ég reyndi að hringja í þig áðan og þú svaraðir ekki!  Þú verður að slökkva á sælentinu á símanum þínum.“

Móðirin leit á barnið og virtist ekki átta sig strax á því hvað barnið var að meina, svo skellti hún upp úr og lýsti því yfir við fjölskyldu og vini síðar um kvöldið að þessi setning hefði toppað dag íslenskrar tungu, ljósi punkturinn í leiðbeiningum barnsins hefði verið sá að íslenskar beygingarreglur hefðu verið virtar að fullu.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!