Góð næring gegn alls kyns kvillum – Pistill frá Rögnu Ingólfs

Þjáist þú af einhvers konar verkjum eða óþægindum sem þú tengir við fæðuna sem þú lætur ofan í þig? Ég hef tekið eftir því að fleiri og fleiri í kringum mig eru að greinast með einhverskonar fæðuóþol. Fæðuóþol er talsvert almennur vandi og margir eiga erfitt með að glíma við hann. Óþolið lýsir sér sem til dæmis verkir í maga, niðurgangur eða harðlífi, exem, kláði, útbrot, þreyta, vöðva- eða liðverkir. Þegar að fæðuóþolsástand er orðið mjög slæmt er ónæmiskerfi líkamans orðið mjög veikt og þess vegna auðveldara að veikjast en ella. Það hefur sýnt sig að með því að næra líkamann á réttan hátt er hægt að losna við alls kyns kvilla sem hafa hrjáð hann.

Á íþróttaferli mínum æfði ég tvisvar á dag frá árinu 2002. Það er eins og líkaminn minn hafi ekki verið nógu vel undirbúinn fyrir þau átök, örugglega vegna rangrar næringar, því að árið 2005 var mér illt í öllum líkamanum. Ég glímdi aðallega við mikla verki í hásinum og ég vaknaði auk þess yfirleitt mjög þreytt á morgnana og var þreytt allan daginn. Ég hélt samt áfram að æfa tvisvar á dag, en þurfti að pína mig á hverja æfingu. Ég taldi mig vera að borða holla fæðu dagsdaglega, en ástandið á líkamanum var orðið það slæmt að ég ákvað að leita til næringarþerapista. Ég fékk matarplan frá honum sem og ýmsar ráðleggingar um vítamín og steinefni sem gott væri fyrir mig að taka. Ég var á ströngu mataræði í átta mánuði árið 2005. Það hurfu allir verkir á þessum tíma, ég var aldrei þreytt og mér hafði aldrei liðið jafn vel. Eftir þetta hef ég alltaf hugsað mjög vel um mataræðið mitt, þrátt fyrir að það sé þó ekki alveg jafn strangt eins og á þessu tímabili. Ég náði síðan mínum besta árangri á íþróttaferlinum á næstu árum. Ég þakka mataræðinu nánast alfarið fyrir það. Með 100% góðri næringu voru mér allir vegir færir æfingalega séð, ég gat æft nánast eins mikið og ég vildi því ég var alltaf með mikla orku, aldrei þreytt og engin meiðsl að hrjá mig. Líkaminn minn náði að endurnýja sig vel á milli æfinga vegna þess að hann fékk rétta næringu til þess.

Ég þekki aðra svipaða sögu um manneskju sem er mér mjög nærri. Hún þjáðist af astma frá unga aldri og notaði astmalyf, einnig af ofnæmi og notaði ofnæmislyf í miklu magni á sumrin, exemi í hársverði og verkjum í meltingarfærum. Meltingarkerfið var augljóslega undir miklu álagi og ekki að starfa rétt því að viðkomandi var alltaf með verki. Þetta ástand hafði viðvarist í nokkur ár. Eftir miklar kvalir í mörg ár, ákvað hún að taka mataræði sitt föstum tökum og í dag þjáist hún ekki af neinum kvillum og notar engin lyf.

Það er augljóslega hægt í mörgum tilfellum að hjálpa líkamanum að lækna sig með réttu mataræði. Mig langar að segja frá því hvernig ég og þessi manneskja gerðum það. Í grunninn fengum við báðar þær upplýsingar að allt hvítt hveiti og allur sykur yrði tekinn af dagsskrá, að auki var allt glúten og flestar mjólkurvörur teknar úr hennar mataræði. Glúten er til staðar í mörgum algengum korntegundum, til dæmis hveiti, rúgur, spelti, höfrum, byggi og kúskús, en glútenlaust mataræði felur í sér að forðast allan mat sem inniheldur glúten, það er meðal annars pasta, brauð, kex, tilbúnar súpur, sósur, sojasósu og unnar kjötvörur. Það sem var mælt með að við myndum borða voru allir ávextir og grænmeti, helst lífrænir, allt kjöt og fiskur, hnetur, fræ, baunir, kartöflur, hrísgrjón og egg. Við fengum líka upplýsingar um hvernig hægt er að skipta út einni matvöru fyrir aðra, til dæmis er venjulegri mjólk skipt út fyrir hrísmjólk eða möndlumjólk, feitum osti skipt út fyrir 11-17 % ost, ýmis konar smjörlíki skipt út fyrir íslenskt alvöru smjör, salti skipt út fyrir himalayasalt, brún hrísgrjón í stað hvítra hrísgrjóna, lífrænt hnetusmjör í stað venjulegs á glútenlaust brauð, sykurlaus sulta í stað venjulegrar og hreinir ávaxtasafar í stað sykurríkra ávaxtasafa. Að auki skipta þeir sem eru með glútenóþol venjulegu morgunkorni út fyrir glútenlaust morgunkorn án sykurs, höfrum út fyrir glútenlausa hafra, ýmsum kryddum út fyrir glútenlaus krydd og venja sig á að krydda matinn með cayenne pipar eða túrmerik. Glútenlausar vörur eru þó ekki allar hollar. Mikilvægt er að lesa utan á pakkann hvað varan inniheldur, því að oft er til dæmis mikill sykur til staðar í vörunni. Brauð eða aðrar vörur sem innihalda bókhveiti (buckwheat), maís (corn), hirsi (millet), quinoa og amaranth eru glútenlausar og því í lagi að borða þær. Ég þjáðist ekki af glútenóþoli og því borðaði ég trefjarík og holl brauð, en aldrei hvítt næringarsnautt brauð.

Á slíku mataræði finnur maður fljótlega mikinn mun á sér. Ég tók eftir miklum mun eftir þrjá mánuði, en eftir átta mánuði leið mér betur en nokkru sinni áður. Þó fór ég að leyfa mér annan mat af og til, en líkaminn minn var orðinn það sterkur að hann þoldi það vel. Ég glímdi aldrei aftur við slík meiðsl og þreytu á ferlinum. Í dag borða ég mjög hollt fæði yfir höfuð, en leyfi mér einnig eina og eina freistingu. Málið er að freistingarnar sem ég vel eru til dæmis 85% lífrænt súkkulaði, Nakd stykki (ávextir og hnetur), raw kökur og fleira svipað þessu. Innihaldið í slíkum freistingum er ekki alslæmt, í raun innihalda slíkar freistingar oft góða næringu fyrir líkamann. Ég myndi hins vegar aldrei fá mér eitthvað í líkingu við bland í poka, mars súkkulaði eða maltesers kúlur. Ég tel mikilvægt að fólk kunni að velja sér þær freistingar sem það lætur eftir sér, hollu freistingarnar eru oft miklu bragðbetri en þær óhollu og manni líður miklu betur eftir á.

Á fyrsta árinu á þessu mataræði hjá manneskjunni sem ég þekki losnaði hún við allan astma, ofnæmi og exem og engin lyf voru þörf lengur. Þó voru enn eymsl í meltingarvegi. Á öðru árinu varð meltingin miklu betri og nánast komin í fullkomið jafnvægi. Þó fann hún strax fyrir því ef hún borðaði eitthvað sem ekki fór vel í meltingarkerfið. Á þriðja árinu tók hún út allt kjöt, en hélt áfram að borða fisk. Nú líður manneskjunni mjög vel, en hún þarf að passa hvað hún borðar. Ef til vill tekst líkama hennar einhverntímann að jafna sig að öllu leyti og þá er hægt að bæta við einhverju inn í mataræðið sem hún gat ekki borðað áður.

Það mataræði sem mér finnst mjög spennandi núna er grænmetisfæði eða hráfæði í grunninn, en að borða af og til annað, til dæmis lambakjöt og fisk og annan eldaðan mat. Ég las á dögunum bók sem heitir „Lifandi fæða- þýðing hráfæðis fyrir heilbrigðina“ eftir Kristine Nolfi læknir, en Náttúrulækningafélagið gaf bókina út á íslensku árið 1951. Það sem kemur fram í bókinni á heldur betur enn við í dag. Kristine stofnaði Heilsuhæli í Danmörku, þar sem einungis hráfæði var á boðstólnum, en mikið af sjúklingum dvöldu á hælinu og öðluðust betra líf í kjölfarið. Kristine talar um menningarsjúkdóma og aukningu þeirra í bók sinni, en það eru þessir sjúkdómar sem við köllum lífsstílssjúkdóma í dag. Hún heldur því fram að rétta baráttuaðferðin til að lækna þessa sjúkdóma, sem og að koma í veg fyrir þá, sé lifandi fæða eða hráfæði. Kristine segir: „Fæðan á að vera þeim eiginleikum búin, að hún sjái líkamanum á hinn fullkomnasta hátt fyrir þeim efnum, sem honum eru nauðsynleg til viðhalds vefjum sínum og til allra efnabreytinga eða efnaskipta, auk þess sem hún örvi upptöku næringarinnar í blóðið og auki þarmahreyfingarnar á eðlilegan hátt, svo að úrgangsefnin tæmist viðstöðulaust út úr líkamanum“. Hún bendir á að besta fæðan sé hin náttúrulega, lifandi fæða; hrátt grænmeti, korn, kartöflur, hrá aldin og hnetur. Að þessi fæða hafi öll þau efni og eiginleika sem við þörfnumst, sé auðmeltanleg og framleiði meiri orku en önnur fæða, sem er til dæmis soðin, steikt eða unnin. Kristine segist sjálf hafa læknað sig af krabbameini með hráfæði og að hún hafi aldrei orðið veik eftir að hún byrjaði að lifa á hráfæði eingöngu. Margar slíkar sögur eru til af fólki sem hefur tekið mataræði sitt í gegn og læknast af alls kyns kvillum og sjúkdómum.

Ég rakst líka á grein eftir Kathy Freston, hráfæðisneytanda sem skrifar fyrir Huffington-Post. Hún hvetur fólk til þess að auka neyslu hráfæðis, en minnka neyslu annarrar fæðu, án þess þó að hvetja til þess að fólk hætti alveg að borða aðra fæðu. Þar sem að margir eru hreinlega ekki tilbúnir til þess að lifa eingöngu á hráfæði telur Kathy að ef fólk stefnir að því að borða eingöngu hráfæði fyrir klukkan sex á daginn þá sé það betur sett heilsufarslega séð en ella. Hún mælir með bókinni Vegan Before Six eftir Mark Bittman í þessu samhengi. Ég er sammála Kathy að mörgu leyti. Ég er sjálf ekki alveg tilbúin að stíga það skref að nærast eingöngu á hráfæði, en ég er mjög til í að auka neyslu mína á hráðfæði og minnka neyslu á annarri fæðu, til dæmis sé ég fyrir mér að ég geti skipt neyslunni í 70/30 (hráfæði/annað). Ef við borðum holla fæðu í grunninn, þá starfar líkaminn okkar betur. Ég skora á þig að setja þér markmið um að neyta meira af grænmeti og ávöxtum og minna af öðru í ákveðinn tíma og athuga hvort að líðan þín breytist ekki til betri vegar. Ef þú glímir við einhverskonar óþol er tilvalið fyrir þig að prófa þessa leið. Gefðu líkama þínum tækifæri til þess að hreinsa sig af þeim eiturefnum sem hafa safnast upp í honum í gegnum tíðina. Að öllum líkindum mun þér líða miklu betur eftir ákveðinn tíma, líkaminn fær að jafna sig og ónæmiskerfið verður sterkara.

Hægt er að sjá grein Kathy Freston hér:
http://www.huffingtonpost.com/kathy-freston/vegan-before-six_b_3202934.html?utm_hp_ref=healthy-living

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi