Á vef RÚV um helgina var frétt um það að gjörunnin „matvæli“ væru beintengd við þá miklu fjölgun lífsstílssjúkdóma sem á sér stað í nútíma vestrænum samfélögum. Í þessar frétt var vitnað í erindi Kristjáns Gunnarssonar heimilislæknis sem haldið var á Læknadögum fyrir skömmu. Kristján vísar í NOVA flokkunarkerfið sem flokkar matvæli í í fjóra flokka.
- Flokkur – Óunnin matvæli að mestu s.s. ávextir, grænmeti, hreint kjöt, fiskur, egg, fræ og hnetur
- Flokkur – Unnin hráefni til matreiðslu s.s.olíur, smjör, hunang, salt, sykur
- Flokkur – Unnin matvæli (til að lengja geymsluþol) s.s. súrsað, niðursoðið, unnar kjötvörur, ostar, súrdeigsbrauð, vín, bjór
- Flokkur – Gjörunnin matvæli s.s. sætindi, morgunkorn, frosnar máltíðir, sykraðir og sætuefna gosdrykkir, ís, kex, sætt og saltað nasl.
Fjórði flokkrinn, gjörunnin matvæli er stærta vandamálið í fæðu okkar. Gjörunnin matvæli eru orðin alltof stór hluti af vestrænu fæði og er meira en helmingur fæðu t.d. hjá Bandaríkjamönnum og Bretum. Það er búið að sanna það vísindalega að þessar gjörunnumatvörur stuðla að lífsstílssjúkdómum og það þarf alheimsátak ef stór hluti heimins á ekki að enda með lífsstílssjúkdóma. Ein lausin væri að merkja vel gjörunnar matvörur með varnarorðum, eins og sígarettur eru merktar að geta valdið krabbameini og öðru heilsutjóni.
Það sem er merkilegt í þessu samhengi er að þetta er sá boðskapur sem NLFÍ hefur verið að predika frá stofnun sinni árið 1937. Jónas Kristjánsson stofnandi NLFÍ og Heilsustofnunar skrifaði mikið um mikilvægi heilnæmrar fæðu á fyrrihluta 20.aldar í ritið Heilsuvernd. Hér má sjá hluta af hans boðskap sem er kominn tími til að við förum að taka til okkar og til þess þarf svo sem ekkert NOVA flokkunarkerfi, það er nóg að tileinka sér boðskap Jónasar Kristjánssonar. Jónas talaði um takmörkun og eftirlit með gervimatvörunum m.a. til að vernda börnin okkar, fyrir um 70 – 80 árum!
„Næringin er sterkasti hlekkurinn í akkerisfesti lífsins. Sé hann unninn úr lélegu efni, reynizt hann undantekningarlaust svikull, þegar á reynir. Líkaminn er það hljóðfæri, sem sálin spilar á. Lífslagið fer eftir samræmi og samstillingu allra strengja þess.“
„Fullkomin heilbrigði verður ekki fengin með byggingu fleiri og stærri sjúkrahúsa, og ekki með lyfjaáti, heldur með því einu að gera mönnum kleift að lifa heilbrigðu lífi og varðveita náttúrlega heilbrigði, og til þess er sterkasta vopnið og meginþátturinn náttúrleg og lifandi fæða. En mikið af þeim matvörum, sem fluttar eru landsmönnum, eru með þeim annmarka að skapa sjúkdóma, frekar en heilbrigði. Svo er um hvítt hveiti, hvítan sykur og hvít hrísgrjón, ennfremur eitraðar nautnavörur, svo sem áfengi, tóbak, kaffi, sælgætisvörur og kólavörur. Sala á þessum vörum er bein og óbein sjúkdómaræktun. Líkt má segja um gervifæðutegundir og niðursuðuvörur. Sannarlega lýsir það mikilli vanþekkingu, að ekki skuli vera meira eftirlit haft með hollustusemi þeirrar matvöru, sem börnum lands vors er fengin til neyzlu.“
„Ónáttúrlegar lífsvenjur eru leiðin til sjúkdóma og aldeyðu.“
„Það er fyrst og fremst hin dauða gervifæða, sem er aðalorsök allra þeirra hrörnunarkvilla, sem nú hrjá þjóðir heimsins. Öllum mönnum er lífsnauðsyn að afla sér lifandi fæðu beint af jörðunni. Það er sá líf- og orkugjafi, sem menn og dýr eiga heilsu sína undir. En því aðeins gefur jörðin líf og heilsu, að vér eigum við hana heiðarleg viðskipti. Vér megum ekki eitra moldina með framandi efnum og vér megum ekki heldur stunda rányrkju, því að þeir, sem vanvirða lögmál lífsins skera upp ógæfu.
„Ekki verður annað séð, en að hin sama efnishyggja og fégirnd ráði miklu og hafi ráðið miklu um framleiðslu hrörnunarkvillanna, sem nú sverfa fastast að menningarþjóðunum. Það er sama fégirndin og gróðafíknin, sem stendur á bak við framleiðslu og sölu vopna og annarra drápstækja og framleiðslu á áfengi, tóbaki, ýmsum cola-nautnameðölum, hinum hvíta eiturbleikta hveitisalla, hvítum sykri, hefluðum hrísgrjónum og öðrum spilltum matvælum. Og hvað er gert til að vernda heilsuna gegn árásum allra þessara skaðlegu efna?“
Heimildir:
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-01-28-gjorunnin-matvaeli-beintengd-fjolgun-lifsstilssjukdoma-403282
https://nlfi.is/natturan/raektun-lands-og-lyds/
https://nlfi.is/um-sykursyki
https://www.theguardian.com/food/2023/sep/06/ultra-processed-foods-the-19-things-everyone-needs-to-know
https://regulatory.mxns.com/en/ultra-processed-foods-nova-classification
https://theconversation.com/ultra-processed-foods-are-trashing-our-health-and-the-planet-180115