Betra er heilt en vel gróið

Ég hef verið að lesa Heilsuvernd, tímarit Náttúrulækningafélags Íslands, og rekst á hverja góðu greinina á fætur annarri. Í fjórða hefti árið 1946 snúast fyrstu greinarnar um lausnina á gátu sjúkdóma og náttúrulækningar. Jónas Kristjánsson skrifar þrjár, en sænskur maður að nafni Are Waerland eina.
Jónas hafði mikið álit á Waerland, það mikið að hann fór til Svíþjóðar til að hitta Waerland og kynnast stefnu hans. Waerland lagði stund á læknisfræði og manneldisrannsóknir nánast all sitt líf. Hann var mikill náttúrulækningafrömuður og varði allri starfsævi sinni í að komast að hinu sanna um orsakir sjúkdóma. Hann þóttist hafa leyst þá gátu og skrifaði ótal bækur og hélt marga fyrirlestra um heilsutengdar hugmyndir sínar. Aðalinnihaldið í kenningum Waerlands er það að útrýma þurfi röngum og ónáttúrulegum lifnaðarháttum. Hann sagði að sjúkdómar væru ekki annað en breytingar á líkama manna, en orsakir þeirra væru fyrst og fremst ónáttúruleg matvæli. Hann hélt því fram að við útrýmingu rangra lifnaðarhátta myndu sjúkdómar hverfa af sjálfu sér.

Waerland taldi augljóslega forvarnir eiga mikinn þátt í því að viðhalda heilsunni. Hann vildi leita að orsökunum og meðhöndla þær, í stað þess að reyna að gera við sjúkdómseinkenni og afleiðingar rangra lifnaðarhátta, eins og tíðkaðist iðulega á þessum tíma (og gerir enn í dag). Með því að fara eftir ráðleggingum Waerland náði fjöldi manna sem áður voru heilsulausir aftur fullum bata og betri heilsu en þeir höfðu nokkru sinni notið. Fylgjendur Waerlands kallast Waerlandssinnar og þeir stunda heilsusamlegan lífsstíl, ásamt því að afneita áfengi, tóbaki, kaffi og öðrum eiturnautnum, eins og Waerland orðar það.

Stefna Waerlands er ekki eingöngu bundin við endurbætur á næringu og mataræði manna, hún nær yfir allt líf í heiminum. Hann leit á allt líf sem eina heild þar sem allt stefnir að sama marki. Hið fegursta við hugarstefnu og starf Waerlands er það að hann lagði áherslu á mildi, mannúð og mannjöfnuð. Waerlandssinnar líta svo á að maðurinn sé ekki skapaður sem rándýr eða hrææta, heldur sem jurta-, ávaxta- og mjólkuræta. Hinar lifandi frumur líkamans verða samkvæmt Waerlandssinnum, að fá lifandi fæðu til þess að varðveita líf sitt eins vel og unnt er.

Waerland mataræðið
Samkvæmt Waerlands mataræðinu er gott að borða hafra, grænmeti og ávexti og drekka vatn með sítrónusafa út í á hverjum morgni. Saltaður matur er útilokaður, sem og allur brauðmatur úr hvítu hveiti, hvít hrísgrjón og hvítur sykur og önnur óeðlileg sætindi. Þeim mun meira er notað af nýjum og þurrkuðum ávöxtum, grænmeti, mjólk og ostum. Best er að borða hrátt grænmeti og ávexti, eða létteldað. Kjöt og fiskur er útilokað og egg borðað í litlu mæli.

Jónas taldi að ef læknastéttin myndi nýta sér rannsóknir Waerlands og uppgötvanir og hjálpa sjúklingum sínum að fara eftir hans ráðum þá myndi það nægja til þess að útrýma flestum sjúkdómum. Þeir félagarnir voru sammála um að varanleg bót á heilsufari manna verði ekki ráðin fyrr en fólk læri sjálft undirstöðuatriði heilsuverndar og hætti að trúa í blindni. Það er nefnilega rétt sem sagt er að það er of seint að lækna þegar að heilsan er farin.

Náttúrulækningastefnan sem Waerland og Jónas fylgdu er frábrugðin hinni almennu háskólalæknisfræði. Hér snýst allt um að líta á orsakirnar fyrir sjúkdómunum og fyrirbyggja, í stað þess að meðhöndla einkennin (með lyfjum eða skurðaðgerðum). Náttúrulækningastefnan er jafngömul læknisfræðinni sjálfri, því Hippókrates „faðir læknisfræðinnar“ var náttúrulæknir.

Náttúrulækningastefnan felur í sér eftirfarandi:

1)      Flestir sjúkdómar eru afleiðingar af ónáttúrulegum lifnaðarháttum, til dæmis óeðlilegu mataræði, neyslu eiturlyfja eða nautnavara, óheppilegum vinnuskilyrðum, slæmu andrúmslofti, lítilli hreyfingu og útivist o.s.frv..
2)      Eina leiðin til að útrýma þessum sömu sjúkdómum er að ráða bót á orsökunum, það er að færa lifnaðarhættina í náttúrulegt horf, eftir því sem við verður komið. Ef þetta væri gert myndu sjúkdómarnir hverfa af sjálfu sér.
3)      Besti læknirinn er náttúran sjálf, það er lækningamáttur hins rétt nærða líkama. Áhrifaríkasta aðferðin við lækningu sjúkdóms felst í a) að breyta mataræðinu og öðrum lífsvenjum á viðeigandi hátt og taka þannig fyrir orsakir sjúkdómsins, b) að taka í burt öll óholl áhrif eða efni c) að aðstoða lækningamátt líkamans með ýmsum ráðum: heitum og köldum böðum, sólböðum, föstum, líkamsæfingum og fleira.

Þessi ráð miða að því að hjálpa hreinsunartækjum líkamans og örva þau og flýta þannig fyrir tæmingu skaðlegra efna, sem oft hafa safnast innan líkamans, eða að því að herða hann og auka þannig viðnáms- og varnarþrótt hans gegn sýkingum, og loks að því að hvíla hann og verja gegn skaðlegum ytri áhrifum, til þess að hann geti einbeitt sér að lækningastarfinu.

Náttúrulækningastefnan hefur fengið byr undir báða vængi. Fólk leitar til náttúrulækna í ríkum mæli, en of oft er það ekki fyrr en eftir að hafa gefið upp alla von um bata með hefðbundnum lækningaaðferðum. Á síðari áratugum hefur náttúrulækningastefnan átt vaxandi fylgi að fagna meðal almennings og lækna. Flestir læknar í dag staðfesta gamlar og nýjar kenningar náttúrulækna um gildi fæðunnar fyrir heilsuna og gagnrýna mjög notkun hvíts hveitis, sykurs og hrísgrjóna, en mæla með heilhveiti og hýðishrísgrjónum í staðinn.

Það er samband á milli lifnaðarhátta og sjúkdóma. Læknar þurfa að fara að vinna eins og náttúrulæknar í meira mæli; ræða ítarlega við sjúklinga sína um allt líferni þeirra í fortíð og nútíð, og reyna að finna orsökina fyrir ástandinu, framkvæma rannsóknir og mæla síðan með breyttum lífsstíl og aðstoða sjúkling sinn við að fylgja því eftir.

Waerland var brautryðjandi sem kom af stað þýðingarmiklu starfi, þjóð sinni til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar. Jónas Kristjánsson var einnig brautryðjandi sem kenndi Íslendingum heilbrigðara líferni. Starf Náttúrulækningafélags Íslands er ómetanlegt, en hugmyndirnar að baki starfinu koma frá Jónasi og náttúrulækningastefnunni.

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur, ragnaingolfs@gmail.com

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi