Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa farið af stað með átakið veganúar 2016. Markmið þessa átaks er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kosti þess að neyta vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.
Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) styður þetta framtak samtaka grænmetisæta á Íslandi heilshugar. Allt frá stofnun NLFÍ hefur félagið hvatt til hollra neysluháttu og aðallega í formi jurtafæðis og einnig vakið fólk til umhugsunar um umhverfis-, náttúru- og dýravernd. Jónas Kristjánsson læknir og stofnandi NLFÍ var mikill leiðtogi þegar kom að því að predika hollt mataræði og jurtafæði Hann sagði í pistil árið 1951: „Maðurinn er upphaflega jurtaæta eins og m.a. má marka á því, að hann hefir langa þarma og langan ristil. En hann hefir gert sig að alætu og um leið að krankfelldasta dýri jarðar. Það er oft vitnað í Eskimóa. Þeir hafa lifað aðallega á dýrafæðu, en þeir ná heldur ekki nema hálfum aldri og naumast það. Á fimmtugs aldri eru þeir orðnir örvasa gamalmenni“. Hér má lesa þessa grein í heild sinni.
Það bendir margt í umhverfi okkar til þess að ef rúmlega 7 milljarðar Jarðarbúa ætla að lifa á þessari jörð í framtíðinni verðum við að fara tileinka okkur grænmetisfæði í mun meira mæli. Það er einfaldlega ekki til nægt landrými, nægt vatn eða næg orka til að halda áfram að framleiða allt það kjöt sem verið er að gera í dag og hvað þá þegar jarðarbúum fjölgar enn meir. Hér er grein sem var rituð á þennan vef fyrir ekki svo löngu um að grænmetisfæði sé líklega framtíðin ef mannkynið og jörðin á að lifa af.
Svona til fróðleiks þá er hér í lokin skilgreinar á helstu flokkum inn grænmetisfæðis:
– Ovo (egg) grænmetisætur: Jurtafæði ásamt eggum.
– Lacto (mjólkur) grænmetisætur: Jurtafæði ásamt mjólkurvörum.
– Ovo-lacto grænmetisætur: Jurtafæði ásamt eggjum og mjólkurvörum
– Vegan: Strangt jurtafæði sem útlokar allar dýraafurðir eins og mjólk, hunang, egg og aðrar afurðir sem gætu innhaldið dýraafurðir eða ef dýr koma við sögu í framleiðslunni. Má þar nefna hlaup sem gæti innihaldið svínafitu eða lyftiduft sem hefði verið framleitt með dýrarannsóknum.
– Hráfæðis grænmetisæta: Neyta einungis feskra og ósoðinna ávaxta, hneta, fræja og grænmetis. Jurtafæða sem aðeins má vera hitað uppað vissu hitastigi
– Ávaxtaætur (Fruitarianism): Neyta einungis ávaxta, hneta, fræja og annara planta sem hægt er að týna án þess að skaða móðurplöntuna.
– Sattvic mataræði (Jóga mataræði): Jurtafæði sem leyfir mjólkurvörur (en ekki egg) og hunang. En þetta mataræði útilokar lauka og þeirra ætt, rauðar linubaunir, durian ávexti, sveppi, blámygluosta, gerjaðar matvörur, áfengi og mjög oft útilokar þetta mataræði einnig kaffi, svart- og grænt te, súkkulaði, múskat eða matvæli sem gætu innihaldið örvandi efni.
– Jain grænmetisfæði: Jurtafæði sem inniheldur mjólkurvörur en útilokar egg, hunang og rótargrænmeti.
– Makróbíótískt mataræði: Mataræði sem inniheldur að mestu heilkorn og baunir.
Heimildir:
www.veganuar.is
www.nlfi.is/hvernig-verda-sjukdomar-umflunir
www.nlfi.is/graenmetisfaedi-er-thad-framtidin
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni ritstjóra, ritstjori@nlfi.is