Skammdegisþunglyndi – umræður og fyrirspurnir


Fundarstjóri í pallborðsumræðum:
Geir Jón Þórisson. 
 

Í pallborði sitja: 
Tómas Zöega, yfirlæknir geðdeildar Landspítalans
Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur
Jóhann Axelsson, prófessor í lífefnafræði
Leifur Þorsteinsson, líffræðingur
Borghildur Sigurbergsdóttir, næringarráðgjafi
Guðjón Bergmann, jógameistari 
Hulda B. Hákonardóttir, sjúkraþjálfari 
Jóhann G. Stefánsson, geðlæknir
Ragnhildur Þóra Káradóttir, lífefnafræðingur

Fundarstjóri: 
Ég ætla að gefa þessum einstaklingum sem ég las upp síðast eina til tvær mínútur til þess að ávarpa okkur, til þess að við áttum okkur á fyrir hvað þau standa.
En mig langaði aðeins, áður en við höldum lengra, að vitna í einn af merkustu læknum Íslandssögunnar, Jónas Kristjánsson, stofnanda Náttúrulækningafélags Íslands og stofnanda heilsustofnunarinnar í Hveragerði.
Hann var langt á undan sinni samtíð. Það sem við höfum verið að heyra hér í kvöld, og fyrir mörg okkar nýnæmi, talaði hann um og skrifaði um á árunum 1930 til 1940. Hann einmitt benti á það að ljósið hefði mjög mikið að segja, og í grein 1932 er hann að hvetja til þess að ljósum verði komið fyrir á öllum bæjum á Íslandi, þannig að ljós og birta mætti vera í húsakynnum fólks, einangrun mætti hverfa og ekki síst að símasambandi yrði komið á milli allra bæja. Þetta taldi hann að myndi verða til þess að fólki myndi líða betur í skammdeginu.
Þetta er einmitt það sem við heyrðum hérna áðan. Ljós hefur mikið að segja. Sólin er uppspretta allrar orku, bæði til anda, sálar og líkama, sagði Jónas Kristjánsson. Það sem hann sagði á sínum tíma náði kannski ekki eyrum margra, en í dag og í mörg ár hefur löngu verið viðurkennt allt það starf sem Jónas Kristjánsson stóð fyrir.

Hann benti líka á það að það væri nauðsynlegt að huga að mataræðinu. Og hann benti á það að ruslfæði hefði slæm áhrif á geðheilsu fólks, væri streituvaldandi. Skyldi þetta vera rétt? Hvernig var ruslfæðið 1930-40? Hamborgarar? Franskar með öllu? Nei, það var súrmeti. Er það ruslfæða? Nei, það er kjarnmikil og góð íslensk fæða. Jónas var ekki öfgamaður í fæðuvali. Hann sagði að við ættum að velja það sem væri okkur best og hollast á hverjum tíma.
En ég hugsa að ruslfæðið í dag hafi meiri áhrif heldur en kannski ljósmagnið í húsakynnum, en myrkrið var mjög streituvaldandi á þessum árum og er það enn í dag. En það er ánægjulegt að heyra það, að okkar færustu sérfræðingar einmitt styrkja það og benda á að það sem Jónas Kristjánsson sagði 1930-40 er satt og rétt. Þess vegna stendur það sem hann sagði, og í dag erum við að njóta orða og starfa hans.

Mér fannst endilega þurfa að koma þessu hér að, enda um að ræða einn merkasta Íslending okkar sögu, Jónas Kristjánsson.

Borghildur Sigurbergsdóttir:
Ég vil byrja á því að þakka Náttúrulækningafélaginu fyrir það fyrsta að halda þetta þing og eins fyrir að bjóða mér að koma hérna og vera með ykkur. Ég vil byrja á því að kynna mig. Ég er næringarráðgjafi, starfa fyrst og fremst við fæðismeðferð sjúklinga en ekki kannski eins mikið við að leiðbeina heilbrigðum um mataræði. Ég þekki nokkuð vel til þunglyndra, ég er búin að vinna á geðdeild í þó nokkur ár. Skammdegisþunglyndi aftur á móti þekki ég ekkert sérstaklega vel, en lít kannski á það sem grein af þessum sjúkdómi sem Tómas lýsti hérna áðan.

Hvað varðar mataræði þá held ég að þetta sé rétt sem hann Geir Jón var að segja hérna áðan, að það sem er hollast og best er það sem er kannski best og við finnum að er best á hverjum tíma. Því að ég held að það sé varhugavert að vera að búa til einhverja stranga lista um það, að svona eigi maður að borða og svona eigi maður ekki að borða. Við finnum það alveg sjálf þegar við stöndum frammi fyrir þannig leiðbeiningum, að eftir því sem listarnir eru lengri og strangari og erfiðari, þeim mun erfiðara er að fylgja þeim. Við vitum alveg hvað er ruslfæði og hvað er gott. Við þurfum ekkert að vigta appelsínurnar eða telja bananana sem við borðum til þess að vita hvort við erum að borða hollt eða ekki hollt. Við finnum það bara á okkur og ég held líka að við getum framlengt þetta svolítið með ruslfæðið með því að líta á það þannig, að ruslfæði getur verið hvaða matur sem er sem við veljum af handahófi.

Matur sem við vöndum okkur ekki við að velja og við erum að sýna sjálfum okkur mikla lítilsvirðingu með því að sinna sjálfum okkur ekki betur. Þannig að ég held að þetta sé kannski ekki eins klippt og skorið og það kynni hugsanlega að hljóma, hvað er hollt og hvað er ekki hollt.

Guðjón Bergmann:
Komið þið sæl. Ég heiti Guðjón Bergmann og kem hérna vegna þess að ég hef starfað sem jógakennari og kenni svokallað hathajóga, bæði áhorfendum Skjás 1 og á líkamsræktarstöðvum hér og þar.

Það sem snýr að hathajóga má segja að sé allar líkamsæfingar, teygjur, slökun, hreinsunaraðferðir, mataræði. Þannig að ég ætti að geta svarað spurningum sem lúta að því sem ég hef sagt hér. Það sem er ólíkt með jóga og venjulegum íþróttum er að jógaæfingar hafa áhrif á fleira en vöðvana og vefina. Ég veit að hreyfing hefur áhrif á andlega líðan almennt, en jógaæfingar eru þess eðlis að þær hafa áhrif á innyfli og hormónaflæði og aðra líkamsstarfsemi sem við gefum e.t.v. ekki gaum. Hún kennir okkur líka annað sem er mjög mikilvægt, það er að við lærum að hlusta á líkamann. Að við lærum að þekkja hvenær við erum södd, en ekki bara að borða áfram. Að við lærum að þekkja það hvenær við erum sannanlega svöng og hvenær við erum sannanlega þyrst. Og hvenær við finnum fyrir spennu í líkamanum og við getum brugðist við því fyrr en síðar, í staðinn fyrir að leyfa smáóþægindum að verða meiri og meiri, spennu að vaxa innra með okkur og verða að langvarandi óþægindum.
Ég vonast til að fá einhverjar kjarnyrtar spurningar hérna á eftir og þakka fyrir mig í bili.

Hulda Hákonardóttir:
Komið þið sæl. Ég heiti Hulda og er sjúkraþjálfari og ég hef síðastliðin tuttugu ár unnið fyrst og fremst á geðdeildum, það er að segja með fólk sem á við geðræn vandamál af einhverjum toga að stríða. Það er svo margt sem mig langar til að segja og ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja eða enda. En mig langar til að vitna í annan ágætan mann. Meðan ég sat og hlustaði á Leif, komu mér í hug orð danska heimspekingsins Sørens Kierkegaards. Hann gekk daglega og lét þau orð falla að umfram allt mætti ekki tapa lönguninni til að ganga.

Ég hef gengið fram á mínar bestu hugmyndir og það er ekki til sá þungi þanki sem ekki er hægt að komast undan á göngu. Ég held að við vitum þetta öll. Það vita það allir að hreyfing skiptir miklu máli. Við þekkjum það öll, að ef við getum af einhverjum ástæðum ekki hreyft okkur svo sem af völdum veikinda þá förum við að þrá það. Við finnum þyngslin koma yfir okkur. Um leið og við getum hreyft okkur þá líður okkur langoftast svolítið betur. Mig hefur oft furðað á því hvað þessi þáttur er lítið inni í umræðunni um meðferð þunglyndis.

Við hugsum: Guði sé lof fyrir lyfin, en við gleymum því kannski oft að líkaminn sjálfur er ein stór efnastöð, lyfjaframleiðslustöð. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það, að hreyfing hefur áhrif á boðefni og móttökurí heilanum, þ.e. hún verkar ekki á ólíkan hátt og mörg þunglyndislyf. Enda hafa rannsóknir sýnt það, að hreyfing minnkar oft magn þeirra lyfja sem nauðsynleg eru. Og þessi meðferð er algerlega áhættulaus. Engar aukaverkanir og fullt af aukaágóða með, svo sem eins og betri líkami og betri heilsa.

Jón G. Stefánsson:
Sæl og blessuð, ég heiti Jón Grétar Stefánsson og er geðlæknir. Ég er nú hér vegna þess að ég hef um árabil verið samverkamaður prófessors Jóhanns Axelssonar í rannsóknum á skammdegisþunglyndi og haft mikla ánægju og gleði af því. Ég hafði sömuleiðis mikla ánægju af því að vera hér og hlusta á fyrirlestrana í kvöld og vona að nú verði líka skemmtilegur spurninga- og svaratími.

Ragnhildur Þóra Káradóttir:
Ég er lífefnafræðingur og ég vann að rannsóknum á þætti melatóníns í skammdegisþunglyndi og við erum í raun að gera aðra eins rannsókn, í raun stærri og viðameiri, til þess að skilja enn betur hvort þær niðurstöður sem við fengum eru nálægt sannleikanum eða ekki. Það sem ég veit mest um í sambandi við skammdegisþunglyndi er þáttur melatóníns þar í, en ekki mikið víðar en það. Við vitum ekki enn hvort melatónín er tæki til að greina skammdegisþunglyndi, en kannski verður það það í framtíðinni; patentlausn til að greina skammdegisþunglyndi.

Sp. (Anna Pálsdóttir): Mig langar að spyrja Guðjón að því hvenær maður verður sannanlega saddur.

Guðjón Bergmann: Það er ekki eins flókið og það hljómar. Það er bara spurning um að stoppa og hlusta. Ef maður heldur að maður sé ekki búinn að borða nóg er hægt að í bíða í fimm mínútur til að athuga hvort það sé rétt eða rangt, því það tekur okkur svolitla stund að meðtaka það hvort við séum södd eða ekki. Bragðlaukarnir etja okkur oft áfram. Við höldum áfram að kýla í okkur, þótt við séum fyrir löngu orðin södd. Jógakennarinn Shanti Deshaya talar um það að maginn eigi að vera hálf fullur af mat, einn fjórði á að vera fyrir vatn og einn fjórði fyrir loft. Hann er lærður efnafræðingur og næringarfræðingur og býr í Bandaríkjunum en alinn upp við jóga frá blautu barnsbeini.

Sp. (Árni Sigurbjörnsson): Mig langar að spyrja Jóhann Axelsson um fordóma. Þunglyndi og öðrum sjúkdómum hafa fylgt fordómar ómældir. Ég var að tala við einn ágætan vin sem ég ræði oft við um eitt og annað, svo sem þetta. Við eiginlega komumst að því, að þunglyndi og margir aðrir sjúkdómar eru líkamlegir sjúkdómar, klárt og kalt, og hvort það væri ekki hægt að breyta umræðunni um þunglyndi og geðsjúkdóma með því að fara að tala um þá sem líkamlega.

Jóhann Axelsson: Það gengur seint að breyta því, en við höfum verið að reyna að breyta þessu í áratugi. Eins og kom fram hjá Tómasi, að allt frá því að við fórum að skilja þátt taugaboðefna í heilanum og annars staðar í líkamanum í þróun svokallaðra geðsjúkdóma, þá hafa flestir sem með þetta vinna litið á þetta sem efnaskiptasjúkdóma. Svo að því leyti er svarið já. Ég held að ég sjálfur, sem er lífeðlisfræðingur, líti þannig á þetta, og þeir sem sitja við hlið mér, lífefnafræðingur og geðlæknir, gera það örugglega líka. Það er kórrétt að líta á þetta sem efnaskiptasjúkdóma. Hins vegar er hátterni og atferli sjúklinganna afleiðing þessara efnaskiptasjúkdóma.
Gömul viðhorf eru lífseig en það er enginn vafi á því að þetta er að breytast. Til dæmis er það stórt skref í áttina til skynsamlegs viðhorfs að líta á skammdegisþunglyndi sem breytingu á efnaskiptum melatóníns, sem er heilahormón.

Sp. (Gunnsteinn): Mér finnst ég hafa fengið upplýsingar um það að verið sé að ræða um þunglyndi bæði sem félagslegan sjúkdóm og sem líkamlegan og andlegan sjúkdóm. Það sem ég rak mig á hjá Jóhanni, var að hann kom með samanburð á dýrum sem lifa við ómengaðar aðstæður og á okkur sem lifum við ljósmengun og truflun á okkar samfélagi. Þá fannst mér að ekki væri verið að skilgreina skammdegisþunglyndi sem sjúkdóm, heldur ástand sem við hefðum sjálf komið okkur í og verið að skoða það sem slíkt. Er skammdegisþunglyndi sjúkdómur eða ekki?

Jóhann Axelsson: Ég vil aðeins svara spurningunni að hluta, annars vísa ég henni til Jóns G. Stefánssonar og Tómasar. Það er rétt að dýrin eru ótrufluð, þau fara að sofa þegar þau þurfa að sofa. Líkami þeirra býr þau undir breytingar af völdum dægursveiflna og þau hlíta því. Birnir og einhverjar músategundir sofa allan veturinn, dettur ekki í hug að vera á ferli. Sjálfur lít ég ekki á mig sem sjúkling, þótt mér sé eðlilegast að fara á fætur með birtunni á daginn í skammdeginu. Og svo þvingar samfélagið börnin til að fara á fætur klukkan sjö á morgnana, til að vera komin í skólann klukkan átta, um miðja nótt! Það er vegna þess að við höfum oftrú á þessu litla tæki hér [bendir á úrið sitt]. Það segir okkur að það sé dagur, þegar líkaminn segir okkur að það sé nótt. Niðdimm nótt og við eigum að sofa!

Jón G. Stefánsson: Við getum kannski svarað þessu með sjúkdóminn þannig, að fjöldamargt fólk er þannig að á veturna þegar skammdegið er og myrkrið lengist þá eykst svefnþörf þess og orkan og atorkusemin minnkar, löngun til félagslífs og athafna minnkar og þörfin eykst fyrir að borða, eins og lýst hefur verið. Í langfæstum tilfellum verður þetta að vandamáli, en þegar það er það mikið að það skapar erfiðleika fyrir viðkomandi einstakling að lifa lífinu eins og hann þarf að gera, þá fellur það undir það að vera sjúkdómur. (Sp.: Áttu þá við að félagslegar aðstæður geta skapað hugtakið sjúkdómur?) Félagslegar aðstæður geta vissulega skapað hugtakið sjúkdómur.

Sp. (Herdís Halldórsdóttir): Mig langar að þakka fyrir frábært kvöld hérna og líka fyrir grein sem kom í Mogganum um melatónín-rannsóknir. Ég kættist mikið vegna þess að þarna sá ég fram á að er að koma lausn á því sem hefur hrjáð mig í tuttugu ár. Mig langar að spyrja: Ef sú tilgáta er rétt að melatónín hafi þessi áhrif, er verið að þróa lyf sem við getum tekið inn hluta af árinu, í stað þess að sitja í ljósum klukkan sex til átta á morgnana?

Ragnhildur Þóra Káradóttir: Slíkt lyf er nú ekki í augsýn, annars er ég ekki lyfjafræðingur. Hins vegar mætti nýta hugmynd sem mörg þunglyndislyf eru þróuð eftir, að þau hamla ensím eins og það ensím sem myndar melatónín, svo framleiðslan á því myndi minnka. Ef okkur tækist að sanna að melatónín sé orsakavaldur væri næsta skref að þróa lyf sem gæti temprað framleiðslu þess.

Jóhann Axelsson: Má ég bæta því við svarið, að þó að ykkur finnist e.t.v. skrýtið að tala um rafsegulöldur, það er að segja ljós, sem líf, þá kom það fram í máli Tómasar að þetta hefur verið notað hér á Íslandi með góðum árangri við skammdegisþunglyndi, vegna þess m.a. að birtan slekkur á melatónínframleiðslunni, og sé það gert á réttum tíma þá geturðu komist á fætur 1-2 klukkutímum seinna. Kannski er hægt að koma fyrir forritaðri peru hjá þér og okkur öllum, sem kviknar á 1-2 klukkutímum áður en við viljum fara á fætur. Þetta er nú bæði í gamni og alvöru sagt, því um það er deilt hvaða öldulengd ljóssins hefur mest áhrif í að slökkva á melatónínframleiðslunni. Öðru verð ég að bæta við sem þó gerir myndina flóknari vísindamenn gera einfalda hluti flókna (og stundum flókna hluti einfalda): Birtumeðferð virðist gagnast fólki jafnvel þó hún minnki ekki melatónínseytunina. Þess vegna: Birtu, umfram allt!

Ragnhildur Þóra Káradóttir: Ég veit að Ameríkanar eru að reyna að finna leið til að lækna jet lag eða flugþreytu með því að setja ljós í sæti í flugvélum á milli Ameríku og Japans. Þeir þykjast sjá að hnésbótin sé næm fyrir ljósi til heilans. Ég veit ekki hvernig þeir hafa fundið þetta, en þetta las ég og kannski gæti þetta nýst gegn skammdegisþunglyndi.

Fundarstjóri: Það er þá ráð að ganga með vasaljós á sér!

Sp. (Edda): Ég var að lesa bók um melatónín og þar er það ráðlagt að til þess að sofa betur þá sé rétt að taka inn melatónín. Ekki samræmist það þessu sem við höfum verið að ræða um.

Spurning: Ég hef það eftir Ingólfi Guðbrandssyni, að hann sé tuttugu árum yngri en 77 ára af því að bryðja melatónín við jet lag. Þið haldið því gagnstæða fram um melatónín. Mig langar að fá skýringu.

Ragnhildur Þóra Káradóttir: Tómas sagði hérna áðan að munurinn á sjúklingum með skammdegisþunglyndi og öðrum þunglyndissjúklingum sé sá að skammdegisþunglyndir sofa meira. Þeir hafa mikla svefnþörf og eru orkulitlir yfir daginn. Hjá öðrum þunglyndum er kannski annað uppi á teningnum. Þeir hafa kannski of lítið af melatóníni og hafa því gott af því að taka það inn.
Við höfum hins vegar sýnt fram á að skammdegisþunglyndir séu með hærra magn melatóníns yfir allan sólarhringinn. Ég hef séð rannsóknir á því að láta skammdegisþunglynda taka inn melatóníntöflur og það hafa ekki komið fram betrunaráhrif á einkennin. Flugfélag í Singapore sem hefur átt samvinnu við Bandaríkjamenn um ljósanotkun í flugvélum (þetta sem ég gat um áðan), gefur melatónín í flugvélum sínum. Melatónín stillir líkamsklukkuna, það segir líkamanum hvenær komin er nótt og mál að fara að sofa. Við jet lag ruglast þessi klukka, líkaminn er enn í Ameríku þótt komið sé til Japans. Við því er gott að taka inn melatónín sem segir líkamanum að það sé nótt en ekki dagur eins og hann heldur.

Tómas Zoëga: Ég er að læra mjög mikið hérna. Það er athyglisvert atriði, hvort um sé að ræða mismunandi tegundir af þunglyndi. Í skammdegisþunglyndi virðist vera of mikið af melatóníni en í öðrum tegundum af þunglyndi virðist vera of lítið af serótóníni. Ef þið munið eftir glærunni hans Jóhanns, þá var serótónín eitt af þeim efnum sem voru á milli og melatóníns. Það eru fimm efni þarna í keðju og spurning er hvort við erum að tala þarna um mismunandi orsakir og mismunandi truflanir í sjúkdómi sem hefur að sumu leyti svipuð einkenni, þó að þar sé blæbrigðamunur á. Þetta sýnir okkur kannski hvað auknar rannsóknir flytja okkur smám saman nær endanlegum sannleika. Ef hann er til.

Sp. (Erlingur Kristjánsson): Getum við blekkt líkamann með því að auka og minnka ljósmagn?
Jóhann Axelsson: Mig hefur dreymt um það lengi að líkja eftir dögum, með því að láta birtuna smávaxa. Það er háð því að þú gefir þig fram sem sjálfboðaliða og leyfir okkur að sjúga munnvatn úr munni þínum á eins og klukkustundarfresti yfir nóttina til að fylgjast með döguninni, hvort melatónínið annað hvort snúi við eða haldi áfram. Ef þú ert tilbúinn í þessa tilraun með okkur Ragnhildi og Jóni G., þá framkvæmum við hana. (Sp.: Til er ég!).

Sp.: Ég var í fyrsta lagi að velta fyrir mér tengslum milli serótóníns og melatóníns, að auka serótónín og minnka melatónín en serótónín er líka mikilvægt boðefni við þunglyndi. Í öðru lagi vil ég spyrja þig, Borghildur, hvaða ráð þú hefur við því að borða meiri kolvetni í skammdegisþunglyndi, eins og kom fram hjá Tómasi hér áðan.

Borghildur Sigurbergsdóttir: Til þess að auka serótónín er hægt að gera ýmsar kúnstir, því til eru ýmis ensím til að leika sér að. Ef þú eykur serótónínið framleiða ensímin minna melatónín, og öfugt. Það getur haft önnur, hrikaleg áhrif í heilanum. En líka einhver góð áhrif. Þó ég sé ekki geðfræðingur, þá minnir mig að serótónín sé mjög ásækið efni fyrir ýmsa staði í heilanum sem sum eiturefni sækjast líka eftir að hafa áhrif á.

Tómas Zoëga: Það er talað um lækkun á serótóníni í sambandi við tegundir þunglyndis. Ef ég hef skilið þetta rétt, þá fer þetta saman.

Jóhann Axelsson: Það er rétt, en ef lítið er af serótóníni í köngli, ef serótónín er seytt út úr könglinum, þá er þetta forefni melatóníns lítið og þá hlýtur að myndast minna melatónín. Það er augljóst að serótónín verður að vera inni í köngli til að geta verkað sem forefni fyrir melatónínmyndunina. Það er bara eitt stig í milli. Ef þið munið glærurnar mínar, þá eru þarna alls staðar afturvirk kerfi, þannig að stjórnunin er raunverulega mjög flókin. Almennt samkomulag er um það að skortur á serótóníni sé orsakaþáttur í þróun ýmissa þunglyndisgeðsjúkdóma af þeirri tegund sem Tómas gerði ágæt skil.

Borghildur Sigurbergsdóttir: Mig langar aðeins til að tala um þá kolvetnalöngun sem minnst var á hér í upphafi. Hún virðist fylgja mjög skammdegisþunglyndi um fram aðrar tegundir þunglyndis. Við vitum ekki á þessum mólekúlagrunni nákvæmlega hvað veldur þessu, en við vitum að sykur hefur áhrif við serótónín-metabólismann. Sú leið sem við þekkjum til að draga úr þessari kolvetna- og sykurþörf, sem við sjálfsagt öll höfum upplifað á mismunandi tímum, er að gera sér ljóst að þetta er í sjálfu sér aðeins vöntun á orku.
Sumir vilja halda því fram að sykur sé ávanabindandi efni. Á síðasta þingi Náttúrulækningafélagsins var mikil umræða um þetta og vil ég ekki hætta mér út í þá sálma hér. Við ráðleggjum því fólki það helst að borða reglulega yfir daginn og láta ekki líða langt á milli, til þess að draga úr þessum orkuþætti. Ef maður sefur kannski meira og minna allan daginn og vaknar upp við það þegar maður fer á ról, að maður hefur mikla orkuþörf, þ.e. mikla sykurlöngun, þá þarf að reyna að komast út úr þessum vítahring.
Þá komum við að því, sem Tómas gat um í upphafi, mikilvægi þess að vera meðvitaður um það, þekkja sinn sjúkdóm og geta tekist á við það út frá því, að þetta er fylgifiskur einhvers sjúkdóms. Með því að borða litlar máltíðir yfir daginn með 3-4 tíma millibili er hægt að koma í veg fyrir að sykurlöngunin verði eins mögnuð.

Fundarstjóri: Í sambandi við alla þessa miklu umræðu um lyf, þá langar mig að minnast orða Jónasar Kristjánssonar frá því um 1930, að sólarljósið, nægileg útivist og heilnæmt fæði hefði frekar langvinn áhrif til góðrar heilsu en að taka inn lyf, sem hann sagði að væri fremur til stundarsaka. Mér finnst einmitt Leifur koma inn á það í sínu erindi. Hann sýndi okkur náttúru landsins og sagði okkur frá glímu sinni. Ættum við ekki að líta oftar í þá áttina?

Sp. (Hólmfríður): Eiga ekki þunglyndissjúklingar erfitt með að taka þátt í gönguferðum um fjöll og firnindi, landið þvert og endilangt? Verða þeir ekki eftir og það verður til að auka enn kvöl þeirra?

Leifur Þorsteinsson: Ég held að þetta sé einn þáttur í því að breyta almenningsálitinu. Það hefur komið hér fram að það viðhorf virðist eiga erfitt uppdráttar að þunglyndi sé líkamlegur sjúkdómur. Ég fyrir mitt leyti hef skilið það en við þurfum öll að taka okkur tak og gera okkur ljóst að þetta er bara eins og aðrir erfiðleikar sem við göngum í gegnum í lífinu.

Fundarstjóri: Á okkur flestum er mikið álag yfir daginn. Yfir daginn safnast fyrir streituhormón í líkamanum og hreyfing er gott ráð til að losna við þau. Hvað segir þú um það, Jóhann?

Jóhann Axelsson: Jú, það hefur verið vísindalega sannað, að svo miklu leyti sem nokkuð hefur verið sannað. Það tók nokkuð langan tíma að fá fólk hér á Íslandi til að skilja þetta. Meira að segja hjartasjúklingar hafa mjög gott af að hreyfa sig, það á alls ekki að leggja hreyfingu á hilluna. Áður en ég kom hingað til lands til að kenna við læknadeild Háskólans, hafði ég tekið þátt í að endurhæfa fólk sem hafði fengið kransæðastíflu. Við skiptum fólkinu í tvo hópa, tíu í hóp sem fékk líkamlega þjálfun: leikfimi, göngur, og seinna fjallgöngur. Hinn hópurinn fékk klassíska þjálfun: algera hvíld og máttu ekkert á sig reyna. Eftir þrjú ár voru þrír dánir úr þeim hópi sem ekki reyndi á sig, enginn úr okkar hópi; eftir fimm ár hafði einn úr okkar hópi fengið aðkenningu af kransæðastíflu en lifað hana af, hann var í það góðu formi; helmingur hinna var látinn. Með þennan boðskap kom ég heim til Íslands og þá fékk ég þessi svör hérna: Jóhann minn, þú misskilur þetta. Á þessu sjúkrahúsi reynum við að bjarga fólki, ekki drepa það.

Leifur Þorsteinsson: Það er oft nokkuð erfitt að drífa sig af stað, ég geri mér fulla grein fyrir því. Það er bara spurning um að reyna að fá boltann til að rúlla með einhverjum ráðum. Þá er félagsskapurinn, hvort sem hann er einn eða fleiri, nokkuð mikilvægur þáttur.

Hulda Hákonardóttir: Þegar eitthvað bjátar á, þegar þunglyndið kemur, þá reynum við að grípa til einhverra úrræða, en þá er það erfiðast. Þá setur maður stundum líka markið of hátt. Það er margt hægt að gera áður en maður fer í gönguferð inn á Lónsöræfi. Það er mikilvægt að byrja með það sem maður getur. Til þess þarf maður kannski að fá aðstoð en þeir sem eru vanir að hreyfa sig hvort sem það eru hlaup, sund, jóga eru í þrisvar sinnum minni hættu á að fá þunglyndi, og þeir sem fá þunglyndi eru yfirleitt fljótari að ná sér, vegna þess að þeir þekkja áhrifin, eru búnir að læra á þau þegar þeir eru ekki þunglyndir, ekki veikir. Mjög mikilvægt er að hafa þá vitneskju.

Sp. (Ása): Hvernig á að greina milli svokallaðs slens og skammdegisþunglyndis?

Tómas Zoëga: Slen er sjálfsagt eitthvað sem við finnum öll fyrir og er ábyggilega ekki sjúkdómur. Þunglyndir hafa kannski mörg einkenni sem öll hvert fyrir sig eru almenns eðlis: svefnleysi meira eða minna, aukin eða minnkuð matarlyst, einbeitingarskortur o.s.frv. Þegar menn hafa verið að búa til þessi einkenni, þá þurfa menn að hafa ákveðinn fjölda af einkennum og hafa þessi einkenni í ákveðinn tíma. Það er talað um tvær vikur og lengri tíma í sumum tilvikum. Þetta eru þannig hópeinkenni sem þurfa að hafa staðið í nokkurn tíma.

Sp.: Hafa Vestur-Íslendingar reynst öðruvísi en við, hvað skammdegisþunglyndi varðar? Það var víst gerð einhver rannsókn þar.

Jóhann Axelsson: Það sem er kannski merkilegra er, að þeir eru nú ekkert öðruvísi heldur en við. Ég veit um hvað þú ert að spyrja. Það var þannig að eftir að Jón G. Stefánsson og Andrés voru búnir að gera sína könnun fyrstu könnunina í heiminum á algengi skammdegisþunglyndis hjá heilli þjóð og fengu, andstætt öllu því sem búist hafði verið við, að algengi skammdegisþunglyndis á Íslandi er aðeins 11%, en samkvæmt legu landsins á hnettinum hefði algengið átt að vera í kringum 30% eða meira. Rétt fyrir norðan New York, í New Hampshire, var algengið orðið 21%.
Þannig að breiddargráðukenningin þ.e. að algengi skammdegisþunglyndis ykist með fjarlægð frá miðbaug og minnkandi birtuframboði kolféll í þeirra tilraun. Þeir settu fram þá tilgátu að trúlega hefði orðið náttúruval á Íslandi; þeir sem lögðust í víl og doða á haustin og rönkuðu ekki við sér fyrr en á vorin hefðu átt erfiðara með að koma genum sínum í gegn heldur en heilbrigðir. Að vísu er þetta skammur tími, þúsund ár, en við ræddum þetta og komumst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu flutt þetta með sér vestur um haf, en fimmtungur þjóðarinnar fluttist til Vesturheims upp úr 1870. Við fórum því með rannsóknina þangað og rannsökuðum Vestur-Íslendinga sem búa á 50. breiddargráðu og fundum það út að þeir höfðu svipaða tíðni skammdegisþunglyndis og Bandaríkjamenn búsettir í Flórída, nánar tiltekið í Sarasota, en ekki þeir sem búsettir voru á sömu breiddargráðunni! Tilgáta Jóns og Andrésar hafði þá fengið stuðning. Síðan fórum við til Winnipeg og rannsökuðum fólk af alíslenskum ættum, afkomendur landnemanna, og þar reyndist algengi sjúkdómsins hið sama og hjá fólki hér í Reykjavík. Til samanburðar var fólk í sömu borg, af sama kyni og á sama aldri rannsakað, og í ljós kom að ef það var ekki Íslendingar voru líkurnar á að það fengi skammdegisþunglyndi 3,3 sinnum meiri. Þetta tekur af öll tvímæli um að það sé sterkur erfðaþáttur í tjáningu þessa sjúkdóms.

Guðjón Bergmann: Það er búið að tala ofsalega mikið um lyf og það er vel; þau skipa stóran sess í okkar samfélagi. Það sem gleymist kannski að tala um eru fyrirbyggjandi aðgerðir og reglubundið líf. Að koma reglu á líf sitt þýðir ekki bara að reyna að redda einhverju þegar við dettum inn í skammdegisþunglyndi, vitandi það að við höfum gert þetta áður og þetta hefur komið áður og svo horfið í febrúar-apríl.
Til að koma jafnvægi á líkama og sál, þegar þunglyndið er ekki, verðum við að taka upp reglubundið líferni: koma reglu á svefninn, reglu á mataræðið, reglu á hreyfinguna og viðhalda síðan þessari reglu og sjá hvort það hjálpar ekki til. Fyrst þetta er svona árstíðabundið skammdegisþunglyndi sem við erum að tala um hér, þá er kannski of seint í rassinn gripið að grípa til ljósanna og lyfjanna þegar tíminn kemur; vera frekar betur undir það búinn. Vera bara reglumanneskja.

Sp.: Það kom fram að lyf hjálpuðu frá 65% og 85% fólks. Gæti lyfið serosan[?] hjálpað fólki með skammdegisþunglyndi og þyrfti þá aðeins að taka það tímabundið?

Tómas Zoëga: Það sem ég sagði reyndar ekki var að um 40% fólks batnar án þess að því sé veitt nokkur sérstök læknismeðferð. Lyfjameðferð veitir þarna örlítið forskot umfram það sem náttúran gerir sjálf, og þegar við bætum meðferðarþáttum við, sem hefur verið komið lítillega hér inná, getum við aukið árangurinn enn frekar. Lyf hafa verið reynd með öðru við skammdegisþunglyndi, meðal annars þetta lyf sem þú nefndir, og ég veit ekki hvort það hafa verið gerðar rannsóknir á því, en svona klínísk reynsla er að það hjálpar a.m.k. stundum.

Sp. (Berglind Hauksdóttir): Eru meðferðarúrræði við þunglyndi hjá börnum og unglingum þau sömu og hjá fullorðnum?

Tómas Zoëga: Ég fjalla nú ekki mikið um börn en þunglyndi getur greinst hjá börnum eins og öðrum. Þunglyndiseinkenni eru öðruvísi hjá börnum heldur en hjá unglingum og fullorðnum, en strax þegar komið er fram á unglingsaldur fara einkennin að verða mjög hliðstæð og hjá fullorðnu fólki. Barnageðlæknar eru í vaxandi mæli að nota ýmsar aðferðir til þess að meðhöndla þunglyndi hjá börnum.

Fundarstjóri: Það er komið að lokum hér í kvöld. Þetta er ákveðið innlegg í umræðuna um þunglyndi og skammdegisþunglyndi og ég vil, áður en þið farið, þakka þeim hér á palli fyrir þeirra vinnu og þeirra innlegg í þessa stund fyrir okkur hér í kvöld. Ég veit að við förum fróðari héðan út.
Getum við miðlað þessum fróðleik áfram? Við erum lítil þjóð, aðeins 280 þúsund manns. Getum við hlúð hvert að öðru? Ég get sagt ykkur það að í starfi mínu fengum við á síðasta ári rétt tæpar tvær tilkynningar um sjálfsvíg eða sjálfsvígstilraunir á degi hverjum hér í Reykjavík. Okkur finnst þetta vera að versna. Þetta er ekki lengur bundið við skammdegið, þetta er svona allt árið, þó aðeins meiri þungi fyrir jólin og vorin. Þetta er hryggilega mikið ungt fólk. Hvað getum við gert? Eigum við ekki að leggja okkar lóð á vogarskálina, reyna að vernda náungann, vininn, félagann? Við skulum halda áfram umræðunni, við skulum taka þátt í þessu starfi, ekki síst fyrirbyggjandi starfi gagnvart börnum og unglingum.

Og ég vil þakka ykkur, ágætu ráðstefnugestir hér, fyrir komuna og vænti þess að umræðan haldi áfram til heilla fyrir þjóð okkar. 

Þakka ykkur fyrir.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi