Leifur Þorsteinsson – Útivist, persónuleg reynsla


Leifur Þorsteinsson líffræðingur hélt erindi um útivist og persónuleg reynslu af henni. Útdráttur úr erindi Leifs Þorsteinssonar flutt á málþingi NLFÍ um skammdegisþunglyndi haldið á Hótel Loftleiðum 30. janúar 2001.

Leifur byrjaði á að segja að þó hann væri formlega fulltrúi Ferðafélags Íslands, liti hann fullt eins á að hann kæmi fram í eigin persónu sem e.t.v. gæti miðlað af reynslu sinni hvað varðaði gildi hreyfingar fyrir líf og heilsu almennt.

Heilbrigði er veigamesti þáttur lífsgæðanna. Einstaklingurinn getur ráðið þar miklu sjálfur m.a. með lífi án tóbaks og áfengis ásamt reglulegri hreyfingu og hollum mat. Þarna er um að ræða atriði sem menn verða að temja sér fyrir lífstíð. Auk ávinnings af auknum lífsgæðum og betri líðan sem slíkt hegðunarmunstur hefur í för með sér,er það þjóðhagslega hagkvæmt.

Að mati Leifs er spurning hvort samfélagið muni ekki innan tíðar gera kröfu til að menn taki meiri ábyrgð á eigin heilsu. Hann sagði að nýleg könnun sýndi að 25% af þjóðinni reykti. Enginn einn þáttur hefur jafn sláandi skaðleg áhrif á heilsufar fólks.

Síðan sagði Leifur frá því að sennilega hefði hans góða líkamlega ástand gert það að verkum að hann lifði af mjög stranga og erfiða karabbameinsmeðferð sem hann gekk í gegnum fyrir rúmum 20 árum. Það var barátta upp á líf og dauða sem tók tvö ár. Eftir þá reynslu sagðist hann hafa orðið ennþá upptekknari af því að stunda hreyfingu í einni eða annari mynd.

Næst sagði Leifur frá gönguhópi sem hittist tvisvar í viku við eina sf sundlaugum höfuðborgarsvæðisins. Um er að ræða u.þ.b. 20 manna hóp. Fólkið fer í klukkustundar gönguferð um næsta nágrenni, síðan eru gerðar teygjuæfingar undir stjórn íþróttakennara og endað í heita pottinum. Síðustu tvö árin hefur hópurinn farið í eina langa gönguferð að sumrinu.
Á því byggjast tengslin við Leif og Ferðafélag Íslands. Hann er sannfærður um að allir meðlimir hópsins séu sammála um gildi slíkrar hegðunar bæði fyrir sál og líkama. Fólk hittist og deilir gleði og sorgum hvert með öðru og þegar staðið er frammi fyrir erfiðleikunum af hvaða toga sem þeir eru, eru menn betur undir búnir að takast á við vandan.

Síðan kom röð mynda úr fimm daga ferð sem að hópurinn fór með Leifi inn á Lónsöræfi á síðastliðnu sumri. Veður og náttúra skörtuðu sínu fegursta alla dagana.Við slíkar aðstæður gleyma menn amstri og áhyggjum hversdagsins. Með útivist og hreyfingu í einni eða annari mynd ásamt hollu og réttu mataræði þýðir ekki að maður lifi lengur en lífið sjálft verður örugglega betra og þægilegra, m.ö.o. líf bætist við árin.

Í pallborðsumræðum á eftir vitnaði Hulda Hákonardóttir sjúkraþjálfari í danska heimsspekinginn Sören Kirkegaard sem átti að hafa sagt að það væri þungur þanki sem ekki væri hægt að komast út úr með góðum göngutúr.

Að lokum las Leifur síðasta erindið úr kvæðinu Fákar eftir Einar Benediktsson. Þó svo átt sé við hestinn í vísunni má alveg eins heimafæra þetta upp mann sem fer í göngutúr á hestum postulanna.

Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök
Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.

Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

Leifur Þorsteinsson

Related posts

Grasaferð hjá Heilsustofnun

Sumarlokun skrifstofu NLFÍ

Hlaup fyrir lífið – Hugleiðing um hlaup