Mjólkursykursóþol og mjólkurofnæmi

Fæðuofnæmi og fæðuóþol
Ég ætla að byrja á því að skilgreina aðeins fæðuofnæmi og fæðuóþol því það gætir stundum smá misskilnings varðandi það.
Við fæðuofnæmi er það ónæmiskerfið sem er virkt en hins vegar hefur fæðuóþol ekkert með ónæmiskerfið að gera og geta verið mismunandi ástæður fyrir fæðuóþoli. Sjúkdómseinkennin geta verið mismunandi. Ofnæmiseinkenni eru yfirleitt frá húð, öndunarvegi eða meltingarfærum en fæðuóþolseinkenni geta verið öll þessi einkenni auk annarra.

Við fæðuofnæmi geta einkenni stundum orðið lífshættuleg en það er sjaldnast við fæðuóþol. Meðferðin við fæðuofnæmi felst í því að að fjarlægja þá fæðu algjörlega sem fólk hefur ofnæmi fyrir. Aftur á móti við fæðuóþol getur annað hvort þurft að fjarlægja matvöruna eða þá að takmarka hana.

Mjólkurofnæmi og mjólkuróþol
Umræðan hér í dag á að vera um mjólk, þannig að ég ætla eingöngu að tala um mjólkurofnæmi og mjólkursykursóþol. Ástæðan fyrir mjólkursykursóþoli er skortur á hvata (enzými) í slímhúð meltingarvegar sem brýtur niður mjólkursykurinn. Vegna skorts á þessum hvata fer mjólkursykurinn ómeltur niður í ristil. Þar eru gerlar sem nýta sér sykurinn. Við það myndast meira loft í ristlinum og það veldur kviðverkjum, vindgangi og uppþembu. Þegar sykur fer niður í ristil þarf meiri vökvi að vera til staðar í ristlinum og þar með fær fólk niðurgang. Niðurgangurinn er ekki alltaf fljótandi heldur þarf fólk að flýta sér á klósettið ef því verður mál, það hleypur á það.

Greining mjólkuróþols
Nokkrar aðferðir eru notaðar við greiningu á mjólkursykursóþoli. Þar eru sjúkdómssaga og fæðissaga mikilvægar. Eru einkennin dæmigerð fyrir mjólkursykursóþol? Er hægt að tengja einkenni við einhverja matvöru? Einkenni geta komið nokkru eftir að fólk borðar það sem það ekki þolir og á það bæði við um fæðuóþol og fæðuofnæmi.
Við mjólkursykursóþol er mjög algengt að einkenni komi fyrst  hálfum til einum sólarhring eftir að mjólkursykursins er neytt.
Ef einkennin eru ekki einkennandi fyrir mjólkursykursóþol og ekki hægt að sjá skýr tengsl milli einkenna og matar er hægt að skrá hjá sér einkenni og mataræði í nokkra daga og sjá hvort einhver tengsl komi fram.

Þegar grunur er um mjólkursykursóþol er hægt að gera svokallað mjólkursykursþolpróf eða öndunarpróf. Í mjólkursykursþolprófi er viðkomandi látinn drekka mjólkursykur og síðan eru teknar nokkrar blóðprufur og skoðað hvort blóðsykur hækki eðlilega eftir máltíðina. Ef mjólkursykurinn meltist þá hækkar blóðsykurinn eftir máltíðina, en ef hann meltist ekki þá hækkar blóðsykurinn mjög lítið eða nánast ekkert eftir máltíðina.
Öndunarprófin eru gerð á svipaðan hátt nema þá þarf ekki að taka blóðprufu. Viðkomandi drekkur mjólkursykur og síðan eru mæld gös í útöndunarlofti sem myndast við gerjun mjólkursykursins í ristli. Mikilvægt er einnig að fylgjast með einkennum viðkomandi í um 1 sólarhring eftir þessi próf. Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt við greininguna að skoða hvort einkenni lagist við það að fjarlægja mjólkursykurinn úr hinu daglega fæði. Þetta er kannski það mikilvægasta því það þarf að sýna fram á að fæðismeðferðin hjálpi. 

Meðferð mjólkuróþols
Meðferðin felst í því að takmarka eða forðast mjólkurvörur sem innihalda mjólkursykur eins og mjólk og súrmjólkurvörur. Það eru þó ekki allar mjólkurvörur sem innihalda mjólkursykur. Þar má nefna ostana, þeir eru búnir að standa og gerja í langan tíma og mjólkursykurinn er horfinn. Fólk með mjólkursykursóþol getur borðað flesta osta sem eru búnir að standa og gerja, en síður osta sem við köllum ferska osta, eins og kotasælu, rjómaost og mysing.
Einnig þarf að skoða allar matvörur sem innihalda mikla mjólk eða mjólkurduft. Fólk getur fengið einkenni eftir máltíð með farsbollum og mjólkursósu. Sama gildir um mjólkursúkkulaðið en það inniheldur mjög mikið mjólkurduft og getur fólk með mjólkursykursóþol fundið verulega fyrir því.

Meðferðin felst líka í því að leiðbeina fólki hvaða næringarefni detta út þegar það fer að drekka minni mjólk eða borða minna af mjólkurmat. Mjólkin gefur okkur kalk og við fáum stóran hluta af kalkneyslu okkar úr mjólkurvörum. Ráðlagður dagsskammtur af kalki er 800 mg fyrir fullorðna og börn yngri en 11 ára.
Þegar neysla mjólkurvara minnkar þarf að tryggja að kalkneyslan verði ekki of lítil. Fólk með mjólkursykursóþol getur fengið kalk með því að nota osta ofan á brauð. Fjórar brauðsneiðar með osti gefa um 600 mg af kalki og er það lágmarksþörf yfir daginn en við fáum alltaf kalk einnig úr öðrum mat og getum reiknað með að fá þar um 100-300 mg.

Fólk þarf að læra að lesa innihaldslýsingar, átta sig á hvaða matur inniheldur mjólk og hvaða matur fer illa í það. Sumir þola að drekka hálft mjólkurglas meðan aðrir þola miklu minna. Það er hægt að fá töflur sem innihalda enzýmið laktasa sem hægt er að taka inn með máltíðum og eiga þær að hjálpa til við meltinguna á mjólkursykrinum. Misjafnt er hversu vel fólki finnst þetta virka og verður hver og einn að prófa sig áfram með það. Það er mjög mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðandans, en töflurnar á að taka inn annað hvort rétt fyrir mat eða um leið og maður borðar mat sem inniheldur mjólkursykur. Einnig eru til enzýmdropar sem settir eru út í mjólkina og hún síðan látin standa í * til 1 sólarhring. Eftir þann tíma er enzýmið búið að brjóta niður mjólkursykurinn og fólk þolir þessa mjólk mjög vel.

Mjólkursykursóþol er mjög algengt úti í heimi, hjá öðrum þjóðflokkum, en það eru Norður-Evrópubúar sem þola mjólkursykurinn best. Ég kom einu sinni til Finnlands og kom þar inn í mjólkurkæli. Ég stóð lengi og horfði í kringum mig því þarna var svo mikið úrval af mjólkurvörum. Ég var svolitla stund að átta mig á því að þarna var hægt að fá allar mjólkurtegundir með eða án mjólkursykurs en í Finnlandi er mjólkursykursóþol fremur algengt.

Greining mjólkurofnæmis
Varðandi greiningu á mjólkurofnæmi er hægt að gera svokölluð húðpróf og RAST-próf. RAST-próf er blóðprufa en við húðprófið eru settir mismunandi ofnæmisvakar á húðina og skoðuð viðbrögð á húð. Niðurstaðan getur stundum verið fölsk í þessum prófum, þannig að það er ekki alltaf hægt að treysta að svörin séu rétt. Mér finnst mikilvægt að ofnæmislæknar meti niðurstöðuna vegna þess að það þarf að horfa á ýmsa aðra þætti en bara nákvæmlega svarið við mat á þessum prófum og á það ekki síst við RAST-prófið. Það er því ekki alltaf eingöngu hægt að styðjast við þessi próf við greininguna. Sjúkdómssagan og fæðissagan eru jafn mikilvægur þáttur í greiningunni.

Eins og ég nefndi áðan við greiningu á mjólkursykursóþoli, er hægt að skrá einkenni og mataræðið og reyna að skoða hvort eitthvert samhengi er milli einkenna og matarins. Stundum er samhengið mjög skýrt sérstaklega ef einkennin koma um leið eða rétt eftir að viðkomandi borðar það sem hann er með ofnæmi fyrir. En oft kom einkennin mun síðar og þá getur verið erfiðara að átta sig á samhenginu. Ég man eftir einstaklingi sem fékk mjög slæm einkenni 18 klst eftir að hann borðaði egg. Það er oft erfitt að átta sig á þessu því það er eðlilegt að tengja einkenni þegar þau birtast því sem maður var að borða seinast.

Ef grunur leikur á ofnæmi fyrir einhverri ákveðinni matvöru þarf að fjarlægja hana alveg úr fæði viðkomandi og sjá hvort einkenni batni. Ef þau lagast getur stundum verið mikilvægt að gera fæðuáreitispróf . Þá er viðkomandi látinn borða það sem hann á ekki að þola og einkenni skoðuð.
Fæðuáreitispróf eru þó aldrei gerð ef við vitum eða teljum að viðkomandi muni fá mjög slæm einkenni, jafnvel lífshættuleg. Þessi próf er ýmist hægt að gera “opin” eða “lokuð. Við opið próf vita allir hvaða matvöru verið er að gefa í prófinu. Við lokað próf fær viðkomandi ýmist mat sem inniheldur það sem grunur leikur á að hann þoli ekki eða mat sem inniheldur alls ekki þann mat. Viðkomandi og sá sem skoðar einkennin vita hvorugur hvað verið er að gefa hverju sinni. Það er oft mikilvægt að gera lokuð próf til að sýna fram á að einkenni komi af ákveðinni matvöru sérstaklega ef einkenni eru ekki mjög sjáanleg. Það er auðvelt fyrir okkur öll að finnast við verða verri þegar við borðum eitthvað sem við teljum okkur ekki þola.

Það eru meira en 20 mismunandi próteinsameindir í mjólk en það eru einmitt próteinin í matnum sem valda fæðuofnæminu. Fólk getur haft ofnæmi fyrir mismunandi próteinsameindum í mjólkinni. Próteinsameindirnar eru mjög stórar sameindir sem brotna niður í minni sameindir þegar þau koma í líkamann og fólk getur einnig verið með ofnæmi fyrir þessum minni sameindum.

Meðferð mjókurofnæmis
Þetta er frekar flókið ferli og í dag er talið að algengustu ofnæmisvaldarnir í mjólk séu lactóglóbúlín, lactalbúmín og kasein. Þótt fólk hafi ofnæmi fyrir mismunandi próteinum í mjólkinni þá er meðferðin alltaf sú að útiloka alla mjólk og allan mjólkurmat. Smjör inniheldur minnst af próteinum en flestir með mjólkurofnæmi þola ekki að borða smjör. Þegar ungabörn eru greind með mjólkurofnæmi af ofnæmislækni tel ég mikilvægt að forðast allar mjólkurvörur meðan ofnæmið varir og þangað til þau geta sagt til um hvernig þeim líður. Við eigum ekki alltaf gott með að meta hvernig börnunum líður, þau geta fengið ógleði, kláða í munn eða haft einhverja vanlíðan sem við sjáum ekki.

Þegar forðast á alla mjólkurvöru er mikilvægt tryggja að viðkomandi fái nægjanlegt kalk. Nauðsynlegt er að nota kalkbættar matvörur í staðinn fyrir mjólk. Hér á Íslandi höfum við kalkbætta sojamjólk og sojadrykki en úrvalið er samt ekki mikið. Smábörn eru oft látin drekka amínósýrumjólk í staðinn fyrir mjólk, en það er kalkbætt þurrmjólk sem inniheldur ekki þessar stóru sameindir af mjólkurpróteinum heldur eingöngu amínósýrur sem eru minnstu einingar próteina og eru ekki ofnæmisvaldandi. Ef þessar kalkbættu matvörur eru ekki notaðar í staðinn fyrir mjólk þá þarf að hugsa um að taka inn kalkviðbót.

Fólk þarf að læra að lesa vel innihaldslýsingar. Það getur verið heilmikið mál en sem betur fer eru framleiðendur farnir að merkja vörurnar betur og það eru skýrari reglur frá Hollustuvernd Ríkisins varðandi merkingu matvæla. Matvörur geta verið skyldar, þannig að þær innihalda svipaðar tegundir próteina. Geitamjólk, kaplamjólk o.fl. mjólkurtegundir innihalda mikið af sömu próteinunum og eru í kúamjólk, þannig að fólk með mjólkurofnæmi þolir heldur ekki geita- eða kaplamjólk. Einnig þekkist að fólk með mjólkurofnæmi geti ekki þolað nautakjöt en það er mjög sjaldgæft.

Síðan er það einnig þekkt að ef móðir með barn á brjósti drekkur mjólk, fara sum próteinin úr mjólkinni út í brjóstamjólkina og ef barnið er með ofnæmi fyrir þessum próteinsameindum fær það ofnæmiseinkenni. Það eru alls ekki öll börn sem finna fyrir þessu en móðirinn þarf þá að forðast allar mjólkurvörur á meðan hún er með barnið á brjósti.

Markmið með fæðimeðferð er að reyna að losna við ofnæmiseinkenni. Í sumum tilvikum verða einkennin betri án þess að hverfa alveg og þá þarf oft að nota lyfjameðferð með fæðismeðferðinni.

Við fáum fleiri næringarefni úr mjólk en kalk og má þar nefna B2-vítamín (ríbóflavín). Það fáum við einnig úr mörgum öðrum matvörum þannig að það er lítil hætta á að við fáum of lítið af B2-vítamíni ef við þurfum að sleppa mjólkinni. Mikilvægt er að borða fjölbreytt því ofnæmisfæði getur auðveldlega orðið einhæfara en venjulegt fæði.

Mjólkurlaust fæði verður auðveldlega orkuminna. Við fáum heilmiklar hitaeiningar úr mjólkurmat og ekki síst börnin. Mjólk er aðalfæða ungabarna fram til 10 mánaða aldurs og um 25% orkunnur kemur frá mjólk og mjólkurmat hjá börnum á skólaaldri. Rannsóknir hafa sýnt að börn með mjólkurofnæmi þrífast ekki eins vel og börn sem ekki eru með mjólkurofnæmi. Þetta er nokkuð sem verður að fylgjast vel með þegar börn fá mjólkurofnæmi. Við fáum einnig heil mikið af próteinum úr mjólkurmat en við Íslendingar borðum mjög próteinríkan mat, og það er lítil hætta á próteinskorti þótt fólki þurfi að forðast mjólkurvörur.

Ég vil enda þetta erindi mitt með grein úr Reglugerð um merkingu matvæla en þar stendur: “Skylt er að merkja eftirfarandi innihaldsefni og afurðir úr þeim, sem geta valdið ofnæmi eða óþoli, ef þau finnast í vörunni: Mjólk, fisk, egg, sojabaunir, skeldýr, jarðhnetur, möndlur, hnetur, hafra, bygg, rúg og hveiti.” Þetta eru algengustu fæðutegundirnar sem geta valdið fæðuofnæmi og fyrirtækjum er skylt að merkja þær skilmerkilega.

Það er ekki nóg að skrifa að það sé smjörlíki í matvörunni, það þarf að koma fram ef það er fiskolía, sojaolía eða mjólk í smjörlíkinu. Það er heldur ekki nóg að skrifa skinka ef það er mjólkur- eða sojaprótein í skinkunni. Einnig er mikilvægt að fyrirtæki noti venjuleg orð í innihaldslýsingar. Það er t.d. auðveldara fyrir fólk að skilja orðið mjólkurprótein fremur en kasein í innihaldslýsingu.

Ég þakka fyrir.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi