Jón Bragi Bjarnason – Er sykur eiturlyf?


Ég þakka fyrir boðið að fá að mega tala hér, það er mér mikil ánægja, og það er ánægjulegt að sjá hversu margir eru mættir hér í kvöld. Ég gæti talað um sykur frá ýmsum sjónarhornum persónulegum, efnaskiptafræðilegum eða frá sjónarmiði offitu og sjúkdóma en ég ætla að byrja á því að gera það frá persónulegu sjónarmiði.

Það er þannig með flesta karlmenn og líklega konur líka að við þyngjumst um u.þ.b. hálft til eitt kíló á ári eftir þrítugt. Um sextugt erum við orðin þrjátíu kílóum of þung og komin með sykursýki 2 eða um það bil að fá hana.
Ef þetta er nú þannig að maður upplifir þetta sjálfur, er orðinn fimmtugur og tuttugu kílóum of þungur, og faðir manns er tuttugu árum eldri og með sykursýki 2, þá fer maður að hugsa sitt ráð og það gerði ég fyrir ári síðan. Þá var ég í Bandaríkjunum og það er mikil umræða þar, eins og Jónas Kristjánsson benti á í sínu erindi, um sykurneyslu, samband sykurneyslu og offitu og samband sykurneyslu og sjúkdóma ýmissa, þar á meðal sykursýki, hjarta-sjúkdóma, kransæðasjúkdóma, gigtar og raunar margra fleiri.
Þannig að ég greip til minna ráða og breytti um mataræði, tók út þessi svonefndu kolvetni sem við vorum að sjá fjallað hér um áðan, en ég mundi vilja kalla kolhydröt (CH2O), kol og vatn. Kolvetni eru í raun bensín og olíur; þá er verið að leita að kolvetnum hér og þar, það er ekki sykur. Þannig að hið rétta er í rauninni efnafræðilega kolhydröt. 

Ég reyndi þá frekar að borða prótein og fitu og kol-hydröt sem hafa lágan sykurstuðul eða sykrustuðul, eins og Sigríður nefndi hér áðan og sýndi okkur. Þetta varð til þess að ég hef lést um fimmtán kíló, mér líður miklu betur og ég er nokkru fjær því að vera með sykursýki 2 en ég var fyrir ári.

Og þá kemur að erindinu sem ég ætla að byggja að mestu leyti á verkum annarra manna frekar en eigin verkum, því að það er erfiðara að segja: Ég segi þetta, þetta er svona, mínar rannsóknir segja þetta heldur en að vísa í aðra. Það eru núna fimm metsölubækur í Bandaríkjunum um þessi mál.
Ég er með eina þeirra hér sem heitir Sugarbusters og er eftir þrjá lækna, sérfræðinga á sínum sviðum: innkirtlafræði, meltingarfræði og hjarta- og kransæðasjúkdómum. Þetta er mjög góð bók, besta bók sem nú er fáanleg um þessi efni, hún er stutt, einföld og hnitmiðuð, og að mestu leyti rétt. Það er ein smávilla í henni, ég mun skrifa höfundunum um það og leiðrétta það.

Ég ætla að nálgast efnið á þennan hátt: Ég sá í dagblaði eitt sinn um daginn þessa fyrirsögn: Eiturlyf mesti heilbrigðisvandinn. Það var banda-rískur prófessor frá Harvard sem fjallaði um þetta mál. Ég var alveg sammála þessu, einkum ef sykri er bætt við þau efni sem þarna eru.
Vegna þess að sykur er bæði eitur og fíkniefni. Ég ætla að slá þessu fram og ég styðst við áðurnefnda bók og höfunda hennar í því sambandi. Hann er fíkniefni, eins og Jónas hefur útskýrt. Fíknin er virkilega mikil. Hversu mikil getur hver og einn velt fyrir sér hér. En hér er bent á nokkur atriði varðandi fíknina. Matras sagði einnig að ekki væri hægt að sjá fyrir hverjir yrðu háðir eiturlyfjum en tölfræðiniðurstöður segðu að 32% þeirra sem reyktu yrðu háðir, 15% háðir áfengi, 15% kannabisefnum, 23% heróíni og 17% kókaíni. Hversu há er prósentan fyrir sykur? Hún er há, þetta er virkileg fíkn og við þekkjum það flest.

Að hvaða leyti er sykur eitur og hvernig á ég að útskýra það og rökstyðja það? Hér er línurit yfir neyslu sykurs undanfarin ca. tvö þúsund ár. Hún var engin í allri þróunarsögu mannsins. Maðurinn þarf ekki sykur, sykur er hreint efnasamband, kemikal, mólekúl. Við erum ekki bensínvél sem á að setja bensín á og þá getur hann gengið. Við erum náttúruvél, við erum gerð af náttúrunni og við þurfum náttúrleg efni.
Sykur bara er ekki náttúrlegt efni, langt frá því. Með þessari stórauknu neyslu á þessari öld fyrstu sykurverk-smiðjur voru í Niðurlöndum á sextándu öld og síðan hefur þetta stóraukist hafa sjúkdómar að sama skapi stóraukist, eins og við heyrðum Guðmund segja okkur frá í Kastljósi Sjónvarpsins milli klukkan hálfátta og átta.

Svona er sykurneyslan, svona er línurit um greinda sykursýki. Þetta er ágætt orð á íslensku, sykursýki. Diabetes segir ekki neitt á útlensku. Það er gífurleg aukning á undanförnum fjörutíu árum og höfundar þessarar bókar telja að núna séu 8% einstaklinga í Bandaríkjunum með sykursýki þó að árið 2000 sé ekki allt greint. Það er þetta sem er svo alvarlegt, það eru sjúkdómarnir sem eru þessu samfara og einn sjúkdómurinn er vissulega offita.

Hér sjáum við í framhaldi af því sem Anna Sigríður Ólafsdóttir var að tala um, hvernig nokkur lykilefni breytast með neyslu máltíðar sem hefur mikið af kolhydrötum, sykrum, fjölsykrum og einsykrum. Allt endar þetta sem glúkósi í blóði. Horfa þarf á allar myndirnar samtímis. Á rauðu myndinni, sykrumáltíðinni, þar eykst glúkósi í blóði stórkostlega, að sama skapi insúlín, og helst lengi, og glúkagon, annað boðmerki, er lágt. Ef hins vegar próteinmáltíðar er neytt, þá er blóðglúkósi lágur, insúlín lágt og glúkagon hátt. Þetta eru lykilatriði vegna þess að insúlín kemur í veg fyrir að það verði fitulosun. Fat tissue globulization, fitulosun úr fituvef, á sér ekki stað meðan insúlín er hátt. Þvert á móti verður fitusöfnun. Hins vegar ef insúlín er lágt og ekki síst ef glúkagon er hátt líka, sem gerist nú við próteinmáltíð og ekki síður við fitumáltíð, þá verður fitulosun. Þá getum við losnað við fitu úr fituvef, það gerist ekki þegar kolhydröt eru há og insúlín er hátt. Það bókstaflega gerist ekki. Ég hef sett þetta upp í lítið skema sem er að sjálfsögðu einföldun en vonandi til að auka skilning.

Mikið sykruát, kolhydrataát, leiðir til hás blóðsykurs sem kallar á mikið insúlín í blóði sem aftur hefur ýmsar alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hér má nefna þrennt sem ég talaði um áðan: hindruð fitulosun, aukin fitusöfnun og insúlínónæmi. Ef alltaf er verið að seyta insúlíni getur tvennt gerst: insúlínviðtakar frumanna verða minna og minna næmir það er annar endinn á myndinni og brisið verður þreyttara og þreyttara. Það sem gerist áður en yfir lýkur er offita, hækkuð blóðfita og kólesteról (og það er slæmt kólesteról, low-density vintage), það er sykur-sýki, það eru kransæðasjúkdómar og fleiri slíkir.

Hvernig eigum við að taka á þessu vandamáli? Hvað getur hver og einn gert fyrir sig? Nú er það svo að þetta á ekki eins við um alla. Það er ekki eitt mark til að þessu leyti, við erum öll ólík, og við þurfum öll að bregðast við á okkar hátt. Og það er á okkar ábyrgð að gera það. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum. Þess vegna þurfum við að hlusta á líkama okkar og velja honum matvæli sem henta okkur.

Ég ætla að halda áfram með söguna um sykrustuðulinn sem Sigríður var að segja hérna áðan. Hér eru sykrustuðlar eða glycamen index-tölur fyrir nokkur matvæli. Eins og hún nefndi áðan fær glúkósi gildið 100. Eitt gildir hér hærra, það er maltósi, það er tvísykur af glúkósa, og hann er í bjór. Þurrt rauðvín inn í staðinn, viskí í vatni eða eitthvað slíkt, bjórinn út. Gin og dry tonic er það sem ég legg áherslu á, það er bara ekki til á Íslandi. Síðan sjáum við hér kartöflur, sem hafa gildið 95. Þannig að í þessu tilliti, í þessari sögu hár blóðsykur og insúlín þá eru kartöflur næstum eins slæmar og glúkósi.
Ef þið viljið fórna þeim er sjálfsagt að gera það, borða bara grænmeti í staðinn soðið grænkál, hvítkál og brokkólí. Þetta er minn matseðill.
Gulrætur: 85. Óheppilega hár stuðull. Fá sér þær á nammidögum. Grænmeti hérna, það er auðvitað hvítkál og salöt ýmis.
Svo eru hérna ýmsir góðir hlutir. Jógúrt án sykurs, mjólk; ABT-mjólk án sykurs þar sem hægt er að kaupa hana en hún bara fæst ekki alls staðar. Svo set ég aspardam eða gervi-sykur út á þetta og rjóma. Góður morgunmatur!

Hérna er ég með gildið fyrir hvítt spagettí: 60 (ég sleppi pastanu) og instant rice eða hvít fljótsoðin hrísgrjón hafa sykrustuðulinn 90. Hins vegar hafa hýðishrísgrjón sykrustuðulinn 50. Það er augljóst hvort á að velja. Burt með allt þetta sem er hreinn mjölvi, það hefur ekkert að gera í okkar matarvenjum. Þessi matvæli, áður en þau voru endurbætt, voru allt öðruvísi. Maís, eða korn, var svona sem myndin á borðinu. Þá fengu indíánar ekki sykur-sýki. Maís er svona núna. Kartöflur voru svona, þær eru svona núna. Þetta er gert fyrir sveltandi heim en ekki fyrir okkur.

Hér sjáum við ágæta mynd af mismunandi gerðum af sams konar matvælum. Fine white flour, hvítt hveiti; gróft hveiti, cut wheat og heilhveiti eða heilkorn, þar er sykrustuðullinn miklu lægri. Þannig að brauðin sem við velj-um eru ekki franskbrauð, hvítbrauð eða slíkt heldur heilkornabrauð. Þá fer sykurinn (glúkósinn) miklu hægar út í blóðið og insúlínviðbrögðin verða miklu minni.

Ég er búinn að fara hratt yfir stórt mál og frekar flókið og ég ætla að enda á því að taka undir með höfundum þessarar bókar og segja að frá mínu sjónarmiði er sykur eitur. Strásykur er ónáttúrleg vara, það sem við köllum í efnafræðinni bara kemikal, menn geta keypt það af efnaframleiðendum, það er slíkt efni. Það eru engar trefjar í því, engin vítamín, það er ekki neitt nema þetta efni. Þá getum við spurt okkur: Hvað með nærsykur? Það eru þessar vörur hérna: hveiti, pasta, flest morgunkorn, kartöflur, hrísgrjón (nema hýðishrísgrjón), maís, rófur, gulrætur, hveitibrauð, kökur, sælgæti, bjór. Allar þessar vörur ber að varast. Og ef maður vill fara þessa leið sem ég kýs að fara þá forðast maður þær.

Gangi ykkur vel

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi