Jóhann Axelsson – Melatonin


Jóhann Axelsson prófessor í lífefnafræði hélt fyrirlestur undir heitinu „Melatonin“ þann 30. janúar 2001  á málþingi um skammdegisþunglyndi. Hann fjallaði um heilahormónið melatónín og tengsl þess við birtu og skammdegisþunglyndi.
Útdráttur efnis sem Jóhann Axelsson flutti á málþingi NLFÍ í svartasta skammdeginu 2001.

Melatónín
Melatónín er myndað úr tryptófani í köngli heilans. Köngull komst í sviðsljósið á 17. öld þegar René Descartes leiddi rök að því að hann væri bústaður sálarinnar. Það er enn óútkljáð mál en hitt er næsta víst að Köngull myndar og gefur frá sér melatónín sem hefur m.a. áhrif á vitund okkar, líkamshita og geð.

Móðurefni melatóníns, trýptófan, er amínósýra sem við fáum m.a. úr fiski og hvítu kjöti og mjólk.

Fjórir hvatar standa að myndun melatóníns og þrjú efni, þeirra á meðal taugboðefnið serótónín, verða til áður en melatónínið lítur dagsins ljós.
Það eru því margir möguleikar á áhrifum og stýringu á melatónín búskap líkamans. Meðal taugaboðefna sem koma við sögu eru noradrenalín, dópamín, GABA, glútamat og acetýlkólín.

Melatónínsagan er því hvorki einföld né auðskilin og yfireinfaldanir ber að varast. Melatónín hefur verið kallað myrkravald (dark force) því það myndast í myrkri – birta hemur framleiðslu þess. Það berst með blóði um líkamann og hefur áhrif á öll þau líffæri, vefi og frumur sem hafa melatónínviðtaka. Meðal þeirra er krossbrúarkjarni (SCN) í heila. Það er valdamikill hópur taugafruma með áhrifasvæði í forheila, stúku og undirstúku. Markfrumur þeirra svæða er svo að finna í dreka og djúphnoðum, heiladingli, stofni og dreif að ógleymdum Köngli.

Þessar heiladeildir stjórna m.a. svefni og vöku, efnaskiptum ýmis konar ásamt líkamshita. Einnig móta þær tilfinningar okkar, minni, einbeitingu og aðlögunarhæfni svo eitthvað sé tíundað. Svo mikil eru bein og óbein áhrif Krossbrúarkjarna á líkamsstarfsemi okkar að margir sjá í honum einskonar lífklukku – gangráð eða taktmæli ýmissar háttbundinnar líkamsstarfsemi. Dæmi um starfsemi af því tægi er stjórn líkamshita, svefns og vöku, seytunar ýmissa hormóna og margt fleira.
Sveiflan getur endurtekið sig hvern sólarhring og kallast hún þá dægursveifla. Einnig getur hún fylgt árstíðum eins og t.d. vetrarþunglyndi, og heitir þá árstíðasveifla. Dægursveifla manns getur litið svona út: Að degi til er meiri atorka og athafnasemi, líkamshiti hærri en að nóttu, en hömlur á myndun melatóníns, kortikótrópíns, týrótrópíns, mjólkurmyndunarvaka og stera. 
Nótt þessa einstaklings einkennir þá, áhugaleysi um umhverfið og aðra (með undantekningum), hvíld, svefn, lægri líkamshiti og aukin myndun allra þeirra hormóna og hormónavaka sem ég taldi upp og trúlega fleiri.

Árstíðasveiflur dýranna dyljast engum. Dýr sem á einum árstíma eru athafnasöm og ögrandi, sofa lítið, leita kynmaka og eru forvitin, verða á öðrum árstíma áhugalaus um flest, eltast ekki við áreiti og sofa mikið. Margir telja að orskir þessara breytinga megi rekja til breytinga á dagsbirtu. Þegar nóttina lengir varir myndunarferli melatóníns lengur því það myndast í myrkri.
Því er melatóníni ætlaður stór hlutur í árstíðasveiflu dýranna og talið miðlari milli breytinga í umhverfisbirtu og líkamsstarfsemi. Sama er upp á teningnum hvað skammdegisþunglyndi varðar. Hins vegar eru skoðanir skiptar um mikilvægi staðbundins birtuframboðs fyrir tjáningu sjúkdómseinkenna og einnig um það hvernig melatónín miðli skilaboðum sínum.
Mikilvægt lóð á vogarskálarnar í þeirri umræðu er rannsókn Ragnhildar Káradóttur lífenfræðings sem hefur unnið með okkur undanfarin ár að rannsóknum á algengi vetrarþunglyndis í ólíkum landshlutum hérlendis.
Ragnhildur hefur komið upp aðferð til að mæla melatónín í munnvatni sem gjörbreytir aðstöðu og auðveldar allar rannsóknir ekki aðeins á þunglyndi heldur og svefntruflunum og annari þeirri vanlíðan sem rekja má til melatóníns búskapar líkamans.
Sú kenning varðandi þátt melatóníns í árstíðabundnu þunglyndi sem mestrar hylli nýtur um þessar mundir kallast taktskiptatilgátan. Hún gerir ráð fyrir því að birtubreytingin valdi tímahliðrun í framleiðsluferli melatóníns – toppurinn verði fyrr eða síðar sólarhringsins en eðlilegt sé, en magn sé óbreytt.
Fyrstu niðurstöður okkar sína hins vegar að skammdegisþungir mynda tvisvar sinnum meira melatónín en einstaklingar af sama kyni, aldri og búsetu sem ekki hafa sjúkdóminn. Hæstu dag- og næturgildi heilbrigðra ná aldrei lægstu gildum þunglyndra. Hins vegar fylgjast allar breytingar að í tíma. Það er enginn taktmunur. Rannsókn okkar hafnar því taktskiptatilgátunni en styður melatóníntilgátuna. Stór rannsókn á melatónínmagni í munnvatni tilviljunarkennds úrtaks íbúa á Vestfjörðum er að fara af stað.
Góð viðbrögð þeirra sem til er leitað skipta sköpum um marktækni rannsóknarinnar og þeirra meðferðarúræða sem hún kann að leiða til.

Jóhann Axelsson

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi