Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að koma hér og ávarpa ykkur.
Sykur, matarfíkn og offita er mjög flókið mál fyrir mig.
Sykur er mjög viðkvæmt mál. Á að vera með honum eða móti, er hann slæmur eða góður, ætti að leyfa hann eða banna, er hann valdur að sjúkdómum eða fitu?
Mér finnst mjög erfitt að ræða um sykur því að samband mitt við sykur er mjög viðkvæmt og persónulegt mál.
Sykur er fyrir mér eins og stormasamt hjónaband. Ég ætla að reyna að lýsa þessu hjónabandi.
– Stundum finnst mér hann mjög góður þó ég viti að hann á eftir að valda mér vandræðum.
– Stundum verð ég yfir mig glaður í návist hans en stundum veldur hann mér mikilli depurð.
– Stundum elska ég hann en stundum þoli ég hann ekki fyrir það sem hann hefur gert mér.
– Stundum held ég að ég geti án hans verið (þó að ég viti betur). Hann er af markaðsmönnum settur í girnilegar umbúðir og er boðinn til sölu eins og ljúffengur skyndibiti (sem minnir á skyndikynni).
– Stundum misnotar hann mig og stundum misnota ég hann.
– Stundum veldur hann mér þungum höfuðverk, slæmum útbrotum, dofa í líkamanum, blæðandi exemi, verkjum í liðamótum, þung-lyndi, svefntruflunum, örari hjartslætti en samt á hann hug minn allan.
– Ég rökræði við hann oft á dag, stundum hef ég betur, stundum hann.
– Eftir langa fjarveru frá honum þá sakna ég hans óskaplega og þrái nærveru hans og þegar færi gefst dett ég í það með honum sem endar yfirleitt í slæmum móral.
En þegar á heildina er litið þá er um sykur eins og annað: allt er gott í hófi. Ég tek það fram að þessar lýsingar hér eiga ekki við um mitt annars ágæta hjónaband. Ég tala þar hins vegar fyrir hönd þeirra fjölmörgu sem ég hef meðhöndlað á síðustu misserum og erum við því hjartanlega sammála að þessi hlutur, sykur, á eftir að leggjast einna þyngst á okkar börn og unglinga í komandi framtíð. Þess vegna verðum við að halda uppi forvörnum og jákvæðum boðskap, ekki með og ekki á móti, svo ekki illa fari.
Takk fyrir mig Gauji litli