Vegan-hreyfingin

Frá fyrstu tíð nærðist meiri hluti mannkynsins um langan aldur svo að segja einvörðungu á jurtafæðu, á sama hátt og frændur mannsins, aparnir, gera enn í dag. Kjötneyzla og fiskneyzla hefst ekki að ráði fyrr en eftir að maðurinn tekur eldinn í þjónustu sína, þannig að frá náttúrunnar hendi er maðurinn ekki skapaður sem kjötæta. Kvikfjárrækt og neyzla mjólkur eru einnig síðari tíma siður, og eru mjólk og mjólkurmatur því ekki frá upphafi ætluð manninum til matar nema móðurmjólkin á fyrsta skeiði ævinnar.

Á síðari öldum eru þessar fæðutegundir, mjólk, kjöt og fiskur, orðnar svo mikill þáttur í mataræði menningarþjóðanna, að flestir hafa drukkið í sig þá trú, að þær séu manninum ómissandi. Og þeim hinum sömu hættir til að líta á þá, er neyta ekki kjöts og fisks, sem sérvitringa eða ofstækismenn, jafnvel þótt þeir borði allan mjólkurmat.

Langt er síðan jurtaneytendur bundust samtökum og stofnuðu félög víða um lönd. Jurtaneyzlustefnan er grundvölluð í senn á heilbrigðislegum og siðferðilegum sjónarmiðum. Hjá sumum koma og trúarleg sjónarmið til greina. Ennfremur hafa alltaf verið uppi skoðanir í þá átt, að ekki sé rétt að nytja dýr á neinn hátt, hvorki með því að slátra þeim eða drepa til matar né með því að hefta frelsi þeirra og nota þau sem vinnudýr eða afurðir af þeim, svo sem ull og fleira.

Fyrir 20 til 30 árum var í Englandi stofnað félag þeirra manna, sem aðhyllast þessar síðast nefndu skoðanir, og fyrir 5 eða 6 árum var samskonar félag stofnað í Bandaríkjunum.

Síðastliðið sumar var hér á ferð stofnandi og formaður þessa ameríska félags, Jay Dinshah að nafni, ásamt konu sinni, sem Freya heitir. Þau voru á leið til Englands, þar sem Dinshah átti fyrir höndum langa fyrirlestraferð um þessi mál. Þau hjón höfðu heyrt getið starfsemi NLFÍ og heilsuhælisins í Hveragerði og látið uppi óskir um að kynnast því. Dvöldust þau í hælinu sem gestir þess í tvo daga, og flutti Dinshah erindi um þessa stefnu, sem kölluð er “Vegan”-stefnan (erlenda orðið “vegetarian” er notað um jurtaneytendur, einnig um þá, sem neyta mjólkur og eggja). Flutti Dinshah erindi sitt á ensku, en Njáll Þórarinsson stórkaupmaður túlkaði það jafnóðum á íslenzku.

Fyrirlesarinn taldi heilsu mannsins það fyrir beztu að neyta einskis úr dýraríkinu, enda hefði maðurinn siðferðilega séð ekki heimild til að drepa dýr sér til matar, né heldur til að nytja þau á annan hátt. Og nú á tímum væri næsta auðvelt að fá gerviefni til fatnaðar og annarrar framleiðslu, sem fengin er nú frá dýrum. Í fatnaði þeirra hjóna væru t.d. engin efni úr dýraríkinu.

Auðheyrt var á fyrirspurnum, sem fram komu að erindinu loknu, og fyrirlesarinn svaraði greiðlega, svo og á umræðum hælisgesta, að mörgum þóttu þessar kenningar æði öfgakenndar. En hvað sem því líður, var erindið fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt og ágætlega túlkað, og fyrirlesarinn virtist leiða full rök að því, að hægt væri að framfylgja þessum kenningum til hins ýtrasta.

BLJ

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 6. tbl. 1965, bls. 174-175

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó