Lífrænir veitingastaðir á Íslandi

Vakning hefur orðið hjá neytendum í því að borða hollari og heilnæmari mat. Ein leið fyrir okkur neytendur í heilnæmari lífsháttum er að neyta lífrænna matvæla, bæði fyrir heilsu okkar og heilsu Móður Jarðar.

Sölufélag garðyrkjumanna skilgreinir lífræna framleiðslu á eftirfarandi hátt: „Lífrænar aðferðir byggjast á því að framleiða matvæli með góðri meðferð landsins og auðlinda þess, þ.e. jarðvegs, vatns, gróðurs, búfjár og villtrar náttúru. Nútímatækni er að sjálfsögðu hagnýtt við lífræna ræktun. Neytendur geta hinsvegar verið vissir um að ekki hafi verið notað skordýra- og illgresiseitur, hormónar eða erfðabreytt efni. Við meðferð og vinnslu lífrænna hráefna er reynt að varðveita sem best ferskleika þeirra og hreinleika allt þar til neytandinn tekur við þeim.“

Málin vandast reyndar þegar kemur að sölu á lífrænum matvörum, því hvernig getum við neytendur verið vissir um að varan sem við erum að kaupa sé lífræn? Þar koma til skjalanna viðkenndar vottunarstofur sem ganga úr skugga um að matvaran sé rauverulega lífræn.  Vottunarstofan Tún er faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu og annast hún vottun lífrænnar framleiðslu hér á landi.
Vottaðar vörur fá vottunarmerki sem er trygging neytenda fyrir því að óháður faggiltur aðili hafi skoðað framleiðsluna og sannreynt að hún sé í samræmi við alþjóðlega staðla um lífrænar aðferðir. Ef merki Túns er að finna á umbúðum afurða er það staðfesting þess að allt ferli þeirra, frá ræktun til vinnslu og pökkunar, samrýmist kröfum sem gerðar eru um lífræna framleiðslu.

Lífrænar vörur eru vinsælar nú til dags og eru oft dýrari en vörur sem framleiddar hafa verið með ólífrænum hætti. Þó nokkuð er um það að framleiðendur matvara eða veitingastaðir séu að nota orðin lífrænt eða organic án þess að innistæða sé fyrir því eða framleiðslan sé vottuð. Við sem neytendur ættum að geta verið viss um að vara sé lífræn þegar þess er getið í heiti hennar eða matsölustaðarins. Ef við erum ekki viss um hvort varan sé lífræn ættum við að sniðganga hana eða staðinn þar til við fáum það staðfest.

Í Danmörku hefur fjöldi matsölustaða sem bjóða uppá lífrænan mat aukist mjög  á undanförum árum. Um 500 kaffihús, veitingastaðir og mötuneyti í Danmörku bjóða nú uppá lífrænan mat.
Flestir þessara staða eru leikskólar eða hjúkrunarheimili en á undanförnum 6 mánuðum hafa bæst við sjúkrahúsmötuneyti og Michelin-stjörnu veitingastaður.
Stjórnvöld í Danmörku hafa sett sér það sem markmið að 60% af öllum mat sem borinn er fram í mötuneytum á vegum danska ríkisins verði lífrænn árið 2020. Því er ljóst að fjöldi eldhúsa og mötuneyta sem bjóða uppá lífrænan mat mun aukast mjög á næstu árum.
Matsölustöðum í Danmörku sem bjóða uppá lífrænan mat er skipt uppí flokka eftir því hversu mikið af hráefninu er lífrænt:
–  Bronsmerki: 30-60% lífrænt
–  Silfurmerki: 60-90% lífrænt
–  Gullmerki: 90-100% lífrænt
Þó ánægjulegt sé að sjá hversu mikil vakning er í framboði á lífrænum mat í Danmörku þá ættu danskir neytendur aðeins að setja spurningarmerki við þessa vottun á lífrænu framleiðslunni. T.d. veitingastaður, sem er búinn að fá vottun fyrir 90-100% lífrænum mat, fær svo ekki einn daginn lífræna tómata.  Þá færi framkvæmdastjórinn ekki að taka niður gullmerkinguna fyrir 90-100% lífænum mat, heldur mundi hann loka augnum fyrir þessu og vona að viðskiptavinirnir mundu ekki uppgötva það að ólífrænir tómatar væru á boðstólum. Því það kemur oft fyrir að sendingar frá birgjum misfarast eða uppskera klikkar og þá eru þessir staðir sem eru nær 100% lífrænir í miklum vandræðum með að uppfylla sínar kröfur um lífrænar matvörur.

Hér á Íslandi er aðeins einn veitingastaður sem býður upp á  vottuð lífræn matvæli og er það Grand Hótel í Reykjavík.
Undirritaður hitti Gylfa Guðmundsson, aðstoðarhótelstjóra  Grand Hótels,  og Salvöru Brandsdóttur, ráðstefnustjóra, um daginn og ræddi við þau um þessa lífrænu vottun Grand Hótels.
Það er um ár síðan Grand Hótel fékk vottun frá vottunarstofunni Túni. Grand hótel býður gestum sínum upp á vottað lífrænt svæði á morgunverðarhlaðborði, vottaðan lífrænan morgunverð fyrir einstaka hópa og  vottað lífrænt kaffi og meðlæti fyrir eftirmiðdagsfundi.
Grand hótel er greinilega mjög framsækið hótel þegar kemur að umhverfis- og vistvernd. Auk þess að vera með lífræna vottun frá Túni er það með Svansvottun, sem er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og tryggja sjálfbærni.
Aðeins hluti morgunverðarhlaðborðsins hjá þeim er með lífræna vottun og er það breytilegt eftir árstíðum hversu mikill hluti hlaðborðsins er lífrænn. Í eldhúsi hótelsins er lögð áhersla á að matreiða úr íslenskum lífrænum kryddjurtum og grænmeti þegar það er fáanlegt.
Gylfi og Salvör tjáðu undirrituðum að vissulega væri þetta tímafrekt og dýrt ferli en þau hafa trú á því að til lengri tíma muni þetta skila sér í rekstri þeirra. Vottanir þeirra skiluðu sér líka í hagræðinu  þar sem ýmsir ferlar væru endurskoðaðir og kæmi þar oft í ljós notkun á efnum sem væru óþörf og aðferðum sem  hægt væri að framkvæma mun hagkvæmar.
Grand hótel á hrós skilið fyrir framsækni í framboði á lífrænum matvörum og umhverfisvernd.

Árlega fá milli 35-40 aðilar  vottun á ræktun, söfnun villtra plantna eða búfjárrækt af einhverju tagi frá vottunarstofunni Túni. Það eru um 25 vinnslustöðvar með lífræna vottun frá Túni.
Það væri óskandi fyrir neytendur á Íslandi að fleiri veitingastaðir en Grand Hótel mundi bjóða uppá lífrænar matvörur á matseðli sínum.
Stjórnvöld ættu einnig beita sér af meiri mætti til að stuðla að betra framboði á lífrænum matvælum.  Það er reyndar mjög ánægjulegt að sjá að fyrir Alþingi liggur þingsályktanartillaga um eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu á að stefna að því að Ísland skipi sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi, sem grænt hagkerfi, með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni. Það væri okkur til heilla ef þessar tillögur ná fram að ganga.
Veitingastaðir og mötuneyti  á Íslandi geta líka farið að huga meira að umhverfisvernd og sjálfbærni án þess að taka skrefið til fulls í lífræna vottun. Því hvert lítið skref í átt að meiri sjálfbærni og umhverfisvernd er af hinu góða fyrir heilsu okkar og framtíð okkar á Jörðinni.

Heimildir:
www.tun.is
www.islenskt.is/?pageid=42
www.organicdenmark.dk
www.oekologisk-spisemaerke.dk
www.grand.is/Islenska/Umhverfisstefna/
www.hnlfi.is/resources/Files/PDF/Frett_Tun.pdf
www.mast.is/?PageId=0dfe31da-95a2-4a0c-9f7c-2e333d0f7a3a&info=1
www.lifraen.is/
www.althingi.is/altext/140/s/0007.html 

Skrifað af Geir Gunnar Markússyni, ritstjóra NLFÍ ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing