Are Waerland er kominn og farinn — floginn. Hann er sífellt á ferð og flugi. Undanfarin tíu ár hefir hann ferðazt fram og aftur um Norðurlönd, aðallega Svíþjóð, og síðastliðinn vetur um England og Sviss, og nú í sumar um Ísland þvert og endilangt.
Nú er hann kominn til Ítalíu, þar sem hann heldur kyrru fyrir í eitt ár, ekki til að hvíla sig, heldur til að skrifa. Síðan heldur hann vestur um haf og þaðan til suðurhvels jarðar, til Ástralíu, Nýja Sjálands og Indlands. Og hingað kveðst hann aftur koma munu eftir fimm ár. Allt þetta erfiði leggur hann á sig til þess að kynna sem flestum þá þekkingu og reynslu, sem hann hefir komizt yfir með þrotlausri leit og rannsóknum á heilum mannsaldri, um beztu leiðina til andlegrar og líkamlegrar heilbrigði og til útrýmingar mestu plágu mannkynsins, sjúkdómunum.
Margir hafa haldið því fram, að hér á landi sé ekki hægt að lifa eftir kenningum Waerlands, bæði vegna hins kalda loftslags og af því að hér skorti mörg þau matvæli, sem hann leggur mesta áherzlu á.
Um fyrra atriðið, loftslagið, er það að segja, að í Svíþjóð eru miklu harðari og kaldari vetur en á Íslandi, og þar hafa menn úr öllum stéttum lifað á waerlandsfæði árum saman, allir með jafnágætum árangri. M.a.s. skógarhöggsmennirnir, sem stunda einhverja erfiðustu vinnu, sem til er, þola betur bæði hita og kulda, er þeir taka upp mataræði Waerlands, bæta heilsu sína og stórauka vinnuafköstin, en þreytast þó seinna og minna en áður. Það er því á fullkomnum misskilningi byggt, að þeir sem búa í kulda eða vinna erfiðisvinnu, þurfi að borða svokallaða „kraftfæðu“, þ.e. kjöt eða fisk, til þess að halda á sér hita eða halda kröftum.
En hér er svo lítið til af grænmeti, segir fólk. Rétt er það. En hverjum er það að kenna, öðrum en okkur sjálfum? Með nokkurri fyrirhyggju má hafa hér nýtt grænmeti árið um kring (sjá greinina „Nýtt grænmeti allt árið“ í Nýjum leiðum II.). Fjöldinn allur af landsmönnum geta ræktað sjálfir mikið af grænmeti án verulegs tilkostnaðar. Hitt er rétt, að allt grænmeti, sem kaupa þarf, er dýrt, þ.e.a.s. innlent grænmeti, en svo er það einnig um aðra innlenda framleiðslu. Og langsamlega dýrustu matarkaupin er kjötið. Að vísu er sumt grænmeti dýrara, ef miðað er við hitaeiningar, en ef einnig er tekið tillit til fjörefna og steinefna, verður grænmetið ódýr matur. Þeir sem býsnast yfir því, hve dýrt allt grænmeti sé, greiða fúslega stórfé fyrir fjörefnapillur, járn, kalk og önnur steinefni, sem þeir fá í lyfjabúðum. Menn mega ekki láta blekkjast af því, hve lítið þeir greiða nú fyrir lyf og læknishjálp. Þátttaka sjúkrasamlaganna í þessum kostnaði kemur einnig úr vasa okkar sjálfra. Væri ekki skynsamlegra að verja þessum peningum til kaupa á hollum mat, sem gefur þeim fjörefnin og steinefnin í sínum réttu samböndum og hlutföllum? Því að hinir færustu efna- og lyfjafræðingar komast þó aldrei í hálfkvisti við náttúruna sjálfa. Og þó að grænmeti sé dýrt, þá er ennþá dýrara að verða veikur. Með því að spara við sig hollan mat, eru menn því að sóa, ekki aðeins peningum í bókstaflegum skilningi, heldur öðru, sem er meira virði en peningar — heilsunni.
Koma Waerlands til Íslands olli okkur, sem áttum að taka á móti honum og sjá um dvöl hans hér, nokkrum kvíða. Erlendis voru allstaðar gnægðir grænmetis, úrval fjölda tegunda, sem hér sjást sjaldan eða aldrei. Til þess að koma í veg fyrir misskilning frá hans hendi, hafði ég sagt honum nákvæmlega, hvað til var hér af grænmeti og öðrum fæðutegundum, sem ég vissi, að hann notaði. „Þetta, sem þú hefir talið upp, er miklu meira en nóg“, svaraði hann um hæl. „Maður þarf svo lítið til að lifa góðu lífi“. Og svo segir hann okkur frá því í fyrirlestrum sínum, að hægt sé að lifa eingöngu á kartöflum og hráum lauk, og að m.a.s. á kartöflum einum — með hýðinu — auk vatns hafi menn lifað mánuðum saman við fullkomna heilsu.
Þá var ég einnig hálfhræddur um, að honum mundi ekki þykja grænmetið hér eins gott eins og víða erlendis. Ég varð því ekki lítið upp með mér fyrir hönd okkar Íslendinga, þegar hann lýsti því yfir fyrsta dag sinn hér, að hann hefði hvergi borðað betri tómata, betri gúrkur, betri hreðkur eða betra salat. Og þetta endurtók hann, hvert á land sem við komum. T.d. sagði hann, að íslenzku gróðurhúsa tómatarnir væru miklu ljúffengari en útiræktaðir tómatar suður við Miðjarðarhaf. Ég tel víst, að smekkur Waerlands, sem hefir lifað á grænmeti um hálfrar aldar skeið, sé orðinn svo næmur á gæði þess, að óhætt sé að trúa því, að íslenzka grænmetið sé óvenju kjarngott. Og það vill nú raunar svo til, að rannsóknir, sem gerðar voru fyrir nokkrum árum, sýndu, að íslenzkir tómatar innihéldu meira C-fjörefni, en danskir tómatar. Ástæðan til bragðgæða og yfirburða hins íslenzka grænmetis er að öllum líkindum hinn langi birtutími og það, að samkvæmt rannsóknum er hér óvenjulega mikið af útfjólubláum geislum í sólarljósinu, og enda þótt þeir komist ekki nema að nokkru leyti gegnum gler, hafa þeir samt áhrif, bæði beint og óbeint í þá átt að bæta grænmetið.
Hér er um merkilegt rannsóknarefni að ræða. Og ef til vill á það eftir að sannast, að Ísland taki öðrum löndum fram um gæði og fjörefnaauðgi grænmetis. A.m.k. skyldi enginn halda, að grænmetið sé gagnslaust, þótt það sé ræktað undir gleri. Allstaðar þar sem jarðhiti er fyrir hendi, ætti að vera auðvelt að hafa einhverjar tegundir grænmetis árið um kring. Og hver einasti bóndi og garðeigandi á landinu getur með litlum tilkostnaði lengt grænmetistímann um nokkra mánuði með því að hafa nokkra fermetra lands undir gleri, jafnvel í óupphituðum reitum.
Og enn er eitt. Það hefir verið sannað með vísindalegum tilraunum, að með réttum ræktunar- og áburðaraðferðum er hægt að varðveita jurtir og grænmeti gegn hverskonar sjúkdómum, og jafnframt verða jurtirnar ljúffengari og bragðbetri og efalaust miklu hollari en ella. Þessar aðferðir eru fólgnar í því, að safna húsdýraáburði, hálmi, moði og allskonar úrgangi frá heimilum og görðum í hauga, svonefnda rothauga (kompost), þar sem þetta rotnar og verður að fíngerðri mylsnu, áður en það er borið á tún eða í garða. Þessar aðferðir eru nú notaðar víða í Englandi, Þýzkalandi og um Norðurlönd með ágætum árangri, og mun verða nánar frá þessu skýrt hér í ritinu.
Ferð okkar með Waerland um landið í sumar færði okkur heim sanninn um það, að hér er vandalaust að lifa góðu lífi á waerlandsfæði. Að vísu getur það ekki orðið eins fjölbreytt og víða erlendis, en það er ekkert aðalatriði. Mestu máli skiptir, að fæðið sé rétt valið og gott, svo langt sem það nær. Um hádegið er aðalmaturinn kartöflur — með hýðinu, hvort sem þær eru nýjar eða gamlar –, auk þess súrmjólk, brauð og ostar, hrár laukur og hrátt grænmeti eftir árstíðum. Þá tíma ársins, sem það er ekki til, er ekki annað en að borða þeim mun meira af hinu. — Kvöldmaturinn er krúska, brauð, ostar og mjólk. Á þessu geta menn lifað fullkomlega heilbrigðir alla ævi, hvaða atvinnu, sem þeir stunda. Þetta er ekki flókið mál. Það er m.a.s. svo einfalt, að fólk fæst varla til að trúa því. En auðvitað reynir svo hver og einn að gera fæðið enn betra og ljúffengara með nýjum og þurrkuðum ávöxtum, þegar til þeirra næst, innlendum berjum og drykkjarjurtum o.fl.
Það er ómögulegt að lifa á svona fæði á ferðalögum um landið, segja menn. Af reynslu okkar í sumar er það að segja, að þær tæpar þrjár vikur, sem við ferðuðumst um landið, brást það aldrei, að við settumst með tilhlökkun að okkar „fábreytta“ matborði og stæðum upp frá borðum mettir og ánægðir. En hve margir ferðalangar geta sagt hið sama? Flestir hafa þá sögu að segja, að á þessum staðnum hafi þeir fengið ólseigt kjöt, á hinum staðnum var það skemmt, súpan var óæt af kryddi, hér fékk maður „bara fisk“ o.s.frv. Maður hittir ekki svo ferðamann, að hann hafi ekki einhverjar slíkar kvartanir fram að bera. Er ekki sanni nær að segja, að ekki sé hægt að lifa eða ferðast hér á landi fyrir þá, sem borða venjulegan mat? Og hvor máltíðin halda menn að sé hollari: Kjöt með steiktum lauk, hýðislausar kartöflur, ef til vill að viðbættum niðursoðnum gulrótum og baunum, ásamt kryddsúpu eða sætsúpu; eða hýðiskartöflur, rúgbrauð, heilhveitibrauð með smjöri, mysuosti og mjólkurosti, súrmjólk, hráum lauk og einhverju af hráu grænmeti? Ég held, að ekki þurfi lærðan næringarfræðing til að gera upp á milli þessara tveggja máltíða.
Einn kosturinn við waerlandsfæðið er það, hve ódýrt það getur verið, einkum fyrir þá, sem framleiða grænmeti sjálfir að einhverju leyti. Og á ferðalögum er sérstaklega ódýrt og einfalt að fæða sig á þennan hátt. Menn geta keypt brauð, smjör og osta og flutt með sér í nestið og borðað hvar sem vera skal. Krúska og kartöflur geta menn fengið eldað eða soðið það sjálfir á litlum ferðaprímusi, og mjólk er víðast fáanleg og jafnvel súrmjólk.
Það er fleira en ljúffengt grænmeti, sem Ísland hefir til síns ágætis, að áliti Waerlands. Hann var ekki fyrr hingað kominn en hann fór að dásama loftið, hve hreint og tært það væri, jafnvel í Reykjavík. En galli mikill þótti honum það, að á mörgum gististöðunum var ekki hægt að opna nema eina litla rúðu í svefnherbergjunum. Loftræsting sú, sem þannig fæst, er algerlega ófullnægjandi, því að heita inniloftið leitar út um þetta litla op uppi undir lofti, en nýtt loft kemur í staðinn inn með hurðum eða þröskuldum, venjulega framan úr göngum eða anddyrum, oft rykugum eða miður vel hreinum.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd, 2. tbl. 1947, bls. 10-14