Er maðurinn kjötæta eða jurtaæta?


Samanburður á tönnum og meltingarfærum nokkurra spendýra

Rándýr
Þau hafa litlar framtennur, en langar og sterkar vígtennur með krók á endanum, þannig að þau eiga auðvelt með að halda bráð sinni fastri í kjaftinum. Jaxlar eru hvassir og til þess gerðir að rífa bráðina sundur og mylja bein. Munnvatnskirtlar eru litlir. Maginn er lítill en framleiðir sterkar sýrur. Þarmar eru stuttir, og hefir matarúrgangur þar því skamma viðdvöl og nær ekki að rotna. Lengd þeirra er fjór- eða fimmföld skrokklengd.

Grasætur
Þær hafa stórar framtennur, litlar augntennur, en þær svara til vígtanna í rándýrum, og stóra flata jaxla til að bryðja og mala sundur blöð og stöngla. Munnvatnskirtlar eru stórir. Maginn er stór og skiptist hjá sumum dýrum í mörg hólf, og þarmarnir eru mjög langir, um 25-föld skrokklengd. Fæðan dvelur því lengi í þörmunum, en í fæðumauki úr jurtum er lítil hætta á myndun skaðlegra rotnunarefna.

Alætur
Þær eru fáar. Sumir birnir lifa bæði á kjöti og jurtum. Tennur þeirra eru sérkennilegar að því leyti, að jaxlar eru af tveimur gerðum, sumir líkjast rándýrsjöxlum, aðrir jöxlum grasæta. Vígtennur eru svipaðar vígtönnum rándýra, en framtennur líkar og í grasætum.

Apar
Gerð tanna og meltingarfæra má segja að sé meðalvegur milli rándýra og grasæta. Framtennur eru miðlungsstórar, augntennur stuttar en sterkar og vel til þess fallnar að brjóta hnetur. Jaxlar eru miðlungsstórir og hnúðóttir. Munnvatnskirtlar stórir. Neðri kjálki er hreyfanlegur til hliðar, eins og í grasætum “; aðeins upp og niður í rándýrum “;, og það gerir þeim auðveldara að mala fæðuna. Maginn er miðlungsstór og framleiðir sýrur, og þarmarnir eru tíu- til tólfföld skrokklengdin, mæld frá hvirfli niður á rófubein. Aparnir lifa aðallega á aldinum, en leggja sér einnig korn og grænmeti til munns, og auk þess eta þeir egg, skordýr og jafnvel fuglsunga, en það mun undantekning, að þeir ráðist á stærri dýr. Um apa í dýragörðum er það að segja, að þeir leggja sér kjöt til munns, ef þeim er boðið það, og virðast jafnvel þurfa á því að halda til að fullnægja þörf sinni fyrir fjörefnið B12. Í hreinu jurtafæði er lítið af því efni, en í heimkynnum sínum fá aparnir nóg af því í eggjum og smádýrum, enda er dagleg þörf ekki nema lítið brot úr milligrammi. B12 er einnig í mjólk. Fjörefni þetta er nauðsynlegt til myndunar rauðra blóðkorna, og vöntun þess veldur sérstakri og hættulegri tegund af blóðleysi.

Maðurinn
Gerð tanna og meltingarfæra má heita eins og í öpum. Af framangreindum samanburði virðist því mega ráða, að maðurinn sé frá náttúrunnar hendi jurtaæta, ekki grasæta, heldur aldin- og grænmetisæta. Þetta liggur í augum uppi, þegar litið er til þess, að mannapinn er það dýr, sem skyldast er manninum, þannig að skoða má mann og apa sem bræður, eða ef til vill sem bræðrunga. Maðurinn er af skógardýri kominn og er ekki frá náttúrunnar hendi búinn neinum veiðitækjum. Hann gerist því ekki kjötæta, í venjulegum skilningi þess orðs, fyrr en hann hefir smíðað sér vopn og sennilega ekki fyrr en hann lærði að framleiða eld. En það er talið hafa gerzt fyrir um það bil hálfri milljón ára. Eftir sem áður lifði meginþorri jarðarbúa til skamms tíma aðallega á jurtafæðu, sumir jafnvel án mjólkur, og kjöt og fiskur var ekki nema lítill þáttur daglegs viðurværis, nema meðal fámennra þjóðflokka eins og Eskimóa. Meltingarfæri mannsins hafa því ekki haft ráðrúm til að taka gagngerðum breytingum, enda sýnir reynslan, að maðurinn er fær um að melta ávexti og aðra jurtafæðu, þótt snöggar mataræðisbreytingar kunni að valda truflun á meltingarstarfi. Ristill mannsins er langur, líkt og í jurtaætum meðal dýranna. Þar fer fram þýðingarmikill hluti meltingarstarfsins, því að þar brjóta sérstakir gerlar niður trefjaefni, sem meltingarvökvarnir vinna ekki á, svo að næringarefni þeirra leysast úr læðingi og koma líkamanum að notum. För fæðumauksins gegnum ristilinn tekur því langan tíma, og af því leiðir mikla rotnun, ef neytt er fljótrotnandi matvæla (kjöt, fiskur og egg). Hættan af hinum eitruðu rotnunarefnum er meiri en ella fyrir það, að blóðið frá endaþarmi fer ekki allt inn í portæðina til lifrar, heldur fer sumt beint til hjartans (með vena cava). Þetta kæmi að vísu ekki að sök, ef endaþarmurinn væri jafnan tómur, eins og náttúran hefir bersýnilega til ætlazt að hann sé, nema rétt á meðan á tæmingu stendur. En nú er það staðreynd, að vegna hins óheppilega mataræðis verður melting margra manna og tæming svo treg, að endaþarmurinn er að staðaldri fullur af saur. Eiturefni úr honum komast því óhindruð til hjartans og út um allan líkamann með blóðrásinni. Er hér að finna veigamikla orsök fjölda sjúkdóma, enda hafa tregar hægðir hlotið heitið "sjúkdómur sjúkdómanna”.

Á það hefir verið bent, sem rök gegn því, að maðurinn sé jurtaæta, að jurtaneytendur séu ekki heilsubetri en aðrir. Þetta er að nokkru leyti rétt. En ástæðan er sú, að jurtaneytendur hafa yfirleitt eyðilagt fæðu sína með suðu, kryddi og á annan hátt, notað hvítt hveiti og sykur eins og annað fólk, kaffi, tóbak og áfengi.
Ekkert af þessu þekkti frummaðurinn. Og reynsla síðari tíma sýnir, að ósoðin mjólkur- og jurtafæða fullnægir til hlítar næringarþörf mannsins, stuðlar mjög að fullkominni heilbrigði og læknar jafnvel flesta sjúkdóma, ef þeir eru ekki komnir á of hátt stig. Og flestum gengur vel að venja sig á hráa jurtafæðu, bæði ungum og öldnum, þykir hún jafnvel ljúffengari en soðnir réttir. Og matjurtir eru, þvert á móti því, sem almennt er kennt, auðmeltari hráar en soðnar.

Væri maðurinn skapaður sem kjötæta, ætti honum að vera eðlilegast að eta kjötið hrátt og volgt af nýslátraðri skepnunni, ásamt blóði og innyflum. En Eskimóar, sem jafnan er vitnað í af formælendum kjötneyzlunnar, sjóða kjöt og innyfli, og sama er að segja um mannæturnar. Eldurinn er uppgötvun tilkomin löngu eftir að meltingarfæri mannsins höfðu fengið núverandi mynd og eiginleika. Af því virðist augljóst, að hin náttúrlega og upprunalega fæða mannsins er ósoðin og óeldborin jurtafæða.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 1.-2. tbl. 1968, bls. 22-25

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Sæt dressing með kóríander og myntu