Pekanhnetubuff með hindberjasultu og villisveppasósu

Nú styttist í jólin og Halldór kokkur á Heilsustofnun NLFÍ vildi endilega deila þessari hollu jólahnetusteik með okkur. Það er hægt að njóta þessarar steikur í botn án þess að fá samviskuvit vegna óhollustunnar.

Uppskrift – Pekanhnetubuff
250 gr. rauðar linsur eða bygg
2 tsk. karrý
300 gr. pekanhnetur, þurrristaðar og malaðar
300 gr. heslihnetur, þurrristaðar og malaðar
2 msk. olía
1 rauðlaukur, smátt saxaður
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar, smátt skornir
2 gulrætur, gróft rifnar
¼ sellerírót, gróft rifin
1 sæt kartafla ekki of stór samt, afhýdd og gróft rifin
4 msk. tómatpúrra
3 msk. mangó chutney
1 tsk. grænmetiskraftur
1 tsk. túrmerik
Þumall af engiferrót fínt saxað
½ tsk. cumin
1 tsk.salt
¼ tsk. cayenne pipar

Aðferð
Sjóðið linsurnar í um 20 mínútur. Ristið hneturnar í ofni 170°C í 7 mínútur, kæla og mala síðan í matvinnsluvél.
Hitið olíu á pönnu og steikið allt grænmetið þangað til það er meyrt svo er tómatpúrru,  mangó chutneyi,  grænmetiskrafti,  engiferi, túrmeriki, cumini, salti og cayenne bætt út í.Látið þetta malla í svona 5-10 mínútur.
Setjið þetta allt í skál og bætið soðnum linsum og hnetum útí og hrærið vel saman. 

Ath ef blandan er of blaut er gott að setja smá haframjöl útí.
Best er að láta blönduna kólna alveg áður en buffin eru mótuð og bökuð.

Setjið bökunarpappír á ofnplötu og mótið buffin í höndunum eða með ískúlara og bakið við 180°C í 25-30 mínútur. Bökunartíminn fer eftir ofninum sem er notaður, gæti þurft að bæta við eða minnka tímann gott er að fylgjast með og passa að buffin dökkni ekki of mikið þau eiga að vera stökk og fallega brún. 

Uppskrift – Hindberjasulta
500 gr. hindber
1 kanilstöng
2 msk. hunang eða hlynssýróp
Smá salt

Allt sett í pott og látið malla í 15-20 mínútur og kælt 

Uppskrift – Villisveppasósa
2 lúkur af þurrkuðum villisveppum lagðir í bleyti
1 laukur smátt saxaður
4 hvítlauksgeirar
5 stk. sólþurrkaðir tómatar
1 tsk. timjan
1 tsk. rósmarín
250 ml.  grænmetissoð
250 ml. kókosmjólk
1 lúka söxuð steinselja
Salt/pipar

Aðferð
Byrjið á því að svita laukinn og hvítlaukinn í smá olíu í potti. Setjið tómata útí og svo villisveppina og smá af villisveppavatninu með, svo er öllu bætt útí og látið malla við vægan hita í 10 mín. Svo er maukað með töfrasprota og þykkt ef þarf með maíismjöli, kartöflum eða hveitijafningi.

Gott er að gefa með þessu spínatsalat með spírum, hvítlauksbökuðum gulrótum með kúmeni og grilluðum kúrbít eins og sést á myndinni.

Verði ykkur að góðu og njótið jólaundirbúningsins.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur