Morgunmatur fyrir ofurhetjur

Við rákumst á skemmtilegt blogg um daginn sem kallast Vanilla og lavender og er skrifað af Jóhönnu S. Hannesdóttur, en hún gaf út frábæra bók fyrir jól sem kallst 100 heilsuráð til langlífis. Við fengum hana til að gefa okkur uppskrift af hinum „fullkomna morgunmat“. Gefum henni orðið:

Ég er búin að vera í missioni síðustu daga að búa til hinn fullkomna morgunmat. Morgunmat sem er fljótlegur, einfaldur, næringarríkur, saðsamur og síðast en ekki síst – bragðgóður.

Eftir að hafa lagst yfir Pinterest og skoðað ó-t-a-l uppskriftir sem innihéldu haframjöl sem hafði verið lagt í bleyti yfir nótt, þá varð þessi réttur til.

Hafra-chiagrautur – SÚPER hollur og bragðgóður!

En af hverju ætti maður að leggja haframjöl í bleyti í stað þess að sjóða það bara og búa til venjulegan hafragraut? Jú, því að við útvötnunina eykst næringargildið og hafrarnir verða auðmeltanlegri. Í einni grein sem ég rakst á er því meira að segja haldið fram að fólk hafi áður fyrr alltaf lagt hafrana í bleyti áður en það borðaði þá.

Þegar haframjöli var fyrst pakkað og selt í kössum þá voru meira að segja leiðbeiningar á kassanum um hvernig fólk ætti að leggja hafrana í bleyti (eða svo segir sagan). Í dag sjást þessar leiðbeiningar ekki lengur. Mér finnst þetta sérlega áhugavert því að pabbi var einmitt að segja mér frá því fyrir stuttu hvernig amma hafði alltaf lagt haframjölið í bleyti yfir nótt áður en hún sauð grautinn um morguninn.

En aftur að uppskriftinni. Hún er súper einföld í grunninn. Einn af stóru kostunum við þennan prótein- og trefjaríka hafra-chiagraut er að hann inniheldur engan sykur. Ef þið sleppið berjunum þá er ekki einu sinni ávaxtasykur í honum! Ég veit að það eru margir sem kjósa að sneiða hjá ÖLLUM sykri svo að þessi grautur ætti að henta þeim vel.

Hráefnið (og krukkan) sem ég notaði í hafra-chiagrautinn.

– GRAUTURINN:

1/2 bolli gróft haframjöl (ég notaði glúteinlaust)

1 msk chiafræ
1 bolli möndlumjólk

1/2 tsk lífræn vanilla

smá sjávarsalt
1
stór msk möndlusmjör (má sleppa) (ég mæli með frá Biona)

– OFAN Á:


2 msk hempfræ

1/4 tsk kanill

1/3 bolli möndlur, saxaðar

1 tsk acaiduft
bláber eða önnur ber (má sleppa)

Aðferð:
1. Kvöldið áður: Setjið haframjölið, möndlumjólkina og chiafræin í stóra glerkrukku. Blandið saman með skeið, setjið lokið á og setjið krukkuna síðan inn í ísskáp.
2. Daginn eftir: Takið krukkuna úr ísskápnum og setjið möndlusmjörið, vanilluna og sjávarsaltið í krukkuna og blandið vel (með skeið eða gaffli).
3. Ef þið viljið taka hafra-chiagrautinn með ykkur í nestið þá setjið þið restina af hráefninu í krukkuna. Ef þið viljið njóta þess að borða grautinn í rólegheitunum heima hjá ykkur þá setjið þið hafra-chiagrautinn á disk og dreifið restinni af hráefninu yfir diskinn (röðin er ekki heillög – né hlutföllin). Þið megið líka blanda þessu öllu saman í krukkunni og setja svo á disk – ykkar er valið. Mér finnst aftur á móti fallegra að borða matinn þegar hann er ekki allur í „einni klessu“ og strái því kanil, hempfræjum, acaidufti og möndlum yfir grautinn 🙂

Mmmm…

Ath. #1 Þið getið búið til ykkar eigin möndlumjólk eða keypt tilbúna út í búð. Gallinn við heimatilbúna möndlumjólk að hún geymist ekki mjög lengi (eftir 1-2 daga í kæli fer hún að verða skrítin á bragðið). Ég hef verið að kaupa ósæta möndlumjólk frá Ecomil til að eiga í ísskápnum til að grípa í þegar ég er ekki í stuði til að búa til mína eigin mjólk.
Ath. #2 Þið getið líka skorið niður ávexti eins og t.d. banana eða perur og sett út á grautinn. Eins getið þið sett meiri möndlumjólk ef þið viljið hafa grautinn enn þynnri. Verið óhrædd við að prófa ykkur áfram og laga uppskriftina að ykkar smekk. Já og munið svo að njóta! 🙂

Ást & friður

,
J Ó H A N N A

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur