Hollt nesti í ferðalagið

Á sumrin er fátt betra en að ferðast um Ísland í góðum félagsskap og hlaða á orkubirgðirnar. Á slíkum ferðalögum getur þó reynst erfitt að halda sig við heilsusamlegt mataræði þar sem bensínstöðvar bjóða ekki beinlínis upp á fjölbreytt úrval af heilsufæði. Þá er gott að undirbúa sig vel og fylla kæliboxið af girnilegu nesti að heiman.
Hér eru 10 hollar og einfaldar nestishugmyndir:

1. PESTÓ: Bragðmikið pestó er gott á brauð/poppkex eða út á salatið. Það er einfalt að búa til eitt slíkt sjálfur eftir uppskrift eða eigin höfði.

2. EGG: Að harðsjóða nokkur egg fyrir ferðalagið getur verið sniðugt til að eiga í morgunmat, út á salat eða á brauð.

3. HNETUR OG FRÆ: Endurnýttu nokkrar krukkur og fylltu þær af blöndu af möndlum, kasjúhnetum, sólblómafræjum og graskersfræjum. Kókosflögur eða goji ber gera svo gæfumuninn. Þetta er frábært millimál og gefur mikla orku.

4. GRÆNMETI: Skerðu niður gulrætur, gúrku, sellerí og papriku í hæfilega stóra bita sem þú getur dýft í húmmus eða pestó. Sellerí og möndlusmjör er líka einstaklega gott saman! Einnig getur verið sniðugt að taka með grænkál eða spínat til að geta auðveldlega blandað bitunum í salat.

5. HÚMMUS: Heimagerður er bestur en auðvitað er einnig hægt að kaupa hann tilbúinn. Húmmus er próteinríkur og fullur af vítamínum og því tilvalinn til að taka með sér á ferðalagið nota sem ídýfu, álegg eða út á salat. Smelltu HÉR fyrir uppskrift

6. TE: Te getur verið góður valkostur til að minnka kaffidrykkju. Þú ert í fríi og átt því ekki að þurfa jafn mikla aukaorku og tilgangurinn er að slaka á. Gott er að hafa með sér heitt vatn í brúsa í ferðalagið og þína uppáhalds te tegund.

7. VATN: Vertu alltaf með vatnsflösku! Í bílnum, í tjaldinu, á fjallinu. Að drekka nóg skiptir höfuðmáli og besta vatnið er að finna í ferskum fjallalækjum um landið.

8. ÁVEXTIR: Gott er að taka með sér uppáhalds ávextina til að hafa sem millibita. Bananar eru þægilegur ávöxtur í ferðalög (og möndlusmjör til að setja á þá) perur, epli og avókadó. Svo býður náttúran auðvitað upp á sín gómsætu ber á haustin.

9. BRAUÐ/KEX: Gróft brauð, súrdeigsbrauð, lífrænt poppkex, glúteinfrítt hrökkbrauð, taktu þína tegund með í ferðalagið til þess að nota undir hummus, pestó og egg!

10. DÖKKT SÚKKULAÐI: Ef sykurlöngun hellist yfir þig er gott að hafa dökkt súkkulaði við höndina til þess að detta ekki óvart í nammibarinn.

p.s Ef þú ferð út að borða vandaðu þá valið! Það er oftast hægt að finna litla notalega veitingarstaði í hverju plássi. Þeir eru ekki eins augljósir og bensínstöðin en algjörlega þess virði að leita að þeim til að fá heilsusamlegri valkosti og ekki skemmir ef hráefnin eru af svæðinu. Ef þig vantar aðstoð við leitina þá eru HandPicked Iceland ferðabæklingarnir/appið sniðugt fyrirbæri en þar er búið að handvelja staði sem hafa upp á eitthvað sérstakt að bjóða um land allt.

GÓÐA FERÐ!

Dagný Gísladóttir ristjóri

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Sæt dressing með kóríander og myntu