Hollar tortillur á föstudagskvöldi

Í dag eru föstudagur og margir eru með eitthvað gott í kvöldmatinn. Algengt er að fjölskyldur séu með pítsur á föstudagskvöldum.
Hér er komin uppskrift að einföldum, skemmtilegum og hollum tortillum sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í að búa til.

Nýrnabaunatortilla með salsa og guacamole (fyrir 4)
4 heilhveititortillur
300 g soðnar nýrnabaunir
1 laukur saxaður
4 hvítlauksgeirar saxaðir
1 tsk kanell
100 g gulrætur, skornar í teninga
100 g sellerírót, skorin í teninga
1 dós maukaðir tómatar
1/2 bolli rifinn ostur

Aðferð 
Brúnið grænmetið ásamt kanel og bætið tómötum og nýrnabaunum útí. Sjóðið rólega í uþb. 10 mínútur. Setjið fyllinguna í kökurnar ásamt osti og rúllið upp. Bakið í ofni við 200°C í 10 mínútur. Berið fram með guacamole, salsa, hýðishrísgrjónum og góðu salati.

Salsa (fyrir 4)
2 stórir tómatar (4 litlir), fínt saxaðir
1 paprika, fínt söxuð
2 vorlaukar, fínt saxaðir
1 lítill grænn chilipipar, saxaður
safi úr einu lime
salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk.

Aðferð
Blandið öllu saman í skál.

Guacamole (fyrir 4)
1 þroskað avokado, skrælt og steinninn fjarlægður
1 tómatur, skorinn í litla bita
3 vorlaukar, fínt saxaðir
1 msk safi úr lime
salt og nýmulinn svartur pipar eftir smekk

Aðferð
Setjið avokado í skál og stappið með gaffli. Bætið öllu út í og hrærið vel saman. Einnig má bæta út í 2 dl af léttri AB mjólk sem er búið að sigta yfir.

Verði ykkur að góðu. Þessi uppskrift kemur úr eldhúsi Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur