Undanfarin ár hef ég verið að rækta matjurtir í litla bakgarðinum mínum í Kópavogi. Það er ótrúlega gefandi að fylgjast með grænmetinu vaxa og geta náð sér í sitt eigið grænmeti í bakgarðinn yfir sumarið, sérstaklega seinnipart sumars.
Mitt uppáhalds ræktunargrænmeti er grænkál sem mér finnst einstaklega bragðgott og frábært að nota með mat, hita í ofni eða jafnvel í súrkálið mitt.
Þessari grænmetisræktun að sumri fylgir gríðarlegt magn grænmetis að hausti, sérstaklega það eru ekki allir á heimilinu jafnduglegir og ég í grænmetinu. Því þarf að setja hausinn í bleyti og finna leiðir til að gera mat úr öllu þessu grænkáli sem fyllir heilu pokana að hausti. Eitthvað sett í súrkál en nú í haust ákvað ég að prófa að setja stóran hluta af þessu í grænkálspestó.
Uppskrift
4 greinar af grænkáli
3 hvítlauksrif
Lúka af valhnetum
Vöndur af steinselju (einnig úr garðinum)
Vænn biti af parmesan osti
Ólífuolía eða önnur matarolía eftir þörfum
Salt og pipar að smekk
Aðferð
Þar sem ég var með gríðarlegt magn af grænkáli margfaldaði ég þessa uppskrift og var það nokkur kúnst en tókst ágætlega. Ekki skemmdi fyrir að steinseljan var einnig úr garðinum.
Öll hráefnin eru sett í matvinnslu vél og maukað vel saman, törfasproti notaður í lokin til að ná að mauka enn betur saman. Það þarf að nota vel af matarolíu því annars verður pestóið of þurrt. Ef hvítlaukurinn verður of yfirgnæfandi í braðinu má nota meira af parmesan ostinum eða hnetunum. Ég notaði valhnetur en hef líka séð uppskriftir með furuhnetum. Svo er bara að nota salt og pipar í lokin til að tryggja það bragð sem þið viljið.
Verði ykkur að góðu. Þetta pestó er frábært með góðu brauði eða hrökkbrauði.
Næring
Vert er að taka fram að grænkál er ekki hitaeiningarík en mjög ríkt af K-vítamíni, A-vítamíni, C-vítamíni, B-vítamínum, járni, kalki, kalíum og magnesíum. Ekki bara bragðgott nammi náttúrunnar heldur líka næringarríkt í meira lagi.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is