Gabríelsgrautur – Næringarríkur og bragðgóður

Morgunmaturinn er ein af mikilvægustu máltíðum dagsins. Það er alltaf gaman að finna góðar uppskrift að næringarríkum og góðum morgunverð.
Hér er uppskrift af bygggraut sem kallast Gabríelsgrautur og kemur úr smiðju Móður Jarðar í Vallanesi sem framleiðir íslenskt bygg.

5 dl bankabygg
2 l vatn
2 epli skorin í litla teninga, (má einnig nota perur)
1-2 dl rúsínur (sveskjur má einnig nota)
1 msk kanill
2 tsk salt
1dl möndlur með hýði
1 dl sólblómafræ og/eða graskersfræ
1 dl kókosflögur

Innihaldsefnin eru öll sett í pott og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur, síðan slökkt undir og látið bíða í 8-12klst (hægt að útbúa grautinn að kvöldi og láta bíða yfir nóttina).  Grauturinn er tilbúin til neyslu eftir þetta en gott er hita hann upp áður, þó er hann einnig góður kaldur með mjólk eða rjóma.
Hægt er að geyma grautinn í ísskáp og því gott að sjóða ríflegt magn svo maður eigi góða og næringarríka máltíð tilbúna í ísskápnum fyrir næstu 5 – 7 daga. Þennan graut má auðvitað nota líka í hvaða máltíð sem er og sérstaklega ef lítill tími er í matseld er flott að nota þetta sem hádegis- eða kvöldverð.

Þessi uppskrift er aðeins breytt (að smekk undirritaðs) frá hinni upprunalegu uppskrift frá Móður Jörð og geta áhugasamir kynnt sér upprunalegu uppskriftina. Það er tilvalið fyrir hver og einn að setja þá ávexti, fræ, ber eða annað í uppskriftina til að gera hana að sínum smekk.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur