Gamlar sögur af Jónasi Kristjánssyni lækni og frumkvölði

Árið 1989 kom út bókin „Glampar á götu – Brellur og bernskuminningar Bjössa bomm“. Þessi bók er æskuminningar Björns Jónssonar sem var ungur drengur á Sauðárkróki þegar Jónas Kristjánsson var læknir á staðnum (árin 1911-1938). Björn Jónsson varð síðar sjálfur læknir og starfaði lengst af í Bandaríkjunum við góðan orðstír.
Í þessari bók eru ýmsar skemmtilegar sögur af Jónasi Kristjánssyni s.s. af persónu hans og störfum. Hér eru nokkur atriði sem vert er að minnast á úr bókinni.

Jónas var víst afleitur bílstjóri og skrifar Björn: „honum gekk vægast sagt bölvanlega að  koma bílnum þar út og inn án stórskemmda á bíl, bílskúr og girðingu Péturs Hannessonar. Ekki varð þó mannfellir“. 

Jónas var greinilega farinn að predika heilbrigðan lífsstíl þegar hann vann á Sauðárkróki við læknisstörf og einnig var hann mjög frár á fæti. Björn skrifar: „Jónas læknir barðist fyrir heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri og alls staðar í héraðinu. Hann var sífellt á þönum, út um sveitir yfir vötn og vegleysur, úr húsum og í, á spítalann og af, upp spítalatröppurnar og niður. Næstum alltaf með töskuna í hendinni. Hljóp við fót á hröðu tölti. Maður sá hann aldrei ganga“.

Björn lýsir vaxtarlagi og skapgerð Jónasar: „meðalmaður á hæð en allvænn um herðar. Hann var hvatur í hreyfingum og ör í skapi. Yfirleitt fremur alvörugefinn. Honum lá heldur lágt rómur og röddin dálítið rám. Hann var fáorður en skýr í máli þó hann talaði ekki með miklum áherslum. Hann hikaði aldrei við að segja álit sitt hvort sem fólki líkaði betur eða verr, en án allrar illskeytni“.

Jónas var greinilega mjög iðinn og skrifaði Björn: „Jónas læknir unni sér aldrei hvíldar jafnvel þótt hlé yrði á venjulegum læknisstörfum. Þá var hann að semja ræður, bréf og áskoranir til yfirvalda um nauðsynlegar betrumbætur eða gera skýrslur og greinargerðir“.

Björn skrifar um læknisstörf Jónasar á Sauðárkróki: „Jónas læknir var einn hæfasti skurðlæknir landsins utan Reykjavíkur, gerði stóra og erfiða skurði við lakar aðstæður, en með góðum árangri. Hann var óþreytandi og ósérhlífinn. Hann var persónugervingur hins besta í stétt sinni“.

Í bókinni er minnst á ráðleggingar Jónasar í mataræði sem sköruðust mikið á við áherslur í fæði Íslendinga á þessum tíma, á 3. áratug 19. aldarinnar: „Jónas predikaði allt um hægðir og harðlífiseitrun, grænmetisát, bran og þorskalýsi (sem hafði raunar verið troðið ofan í mig frá blautu barnsbeini fyrir atbeina hans). Hætta við kjötát og jafnvel fisk!? Og öllu fremur allt slátur og blóðmör. Þetta gat alls ekki staðist. Og hægðir þrisvar á dag!

Einum skjólstæðinga Jónasar þótti nóg um ráðlegginar hans um hægðir og orti:

Jónus læknir ætti í
eigin barm að líta.
Ætli hann mundi una því
alltaf að vera að skíta?  

Myndin sem fylgir þessari grein ef af læknabústað Jónasar á Sauðárkróki.

Frekari heimildir:
Hér má lesa kaflann í bókinni um Jónas Kristjánsson lækni
https://www.landogsaga.is/section.php?id=11629&id_art=11878
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/41409

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gjörunnin gervimatvæli eru að rústa heilsu okkkar á methraða

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands