Náttúrulækningafélag Reykjavíkur stóð fyrir ferð á Reykjanesið þriðjudaginn 11. september sl.
Með í för var Eydís Mary Jónsdóttir, land- og umhverfisfræðingur sem leiðbeindi og kenndi fólki að þekkja, tína og verka söl. Farið var í fjörurnar hjá Valahnjúk þar sem styttan af Geirfuglinum stendur og þurfti að sæta lagi miðað við sjávarföll og farið var í fjörurnar á milli kl.11:30 og 14:00.
Mikið var af söl á svæðinu en þau eru rauðfjólublá með 10-40 cm þunna handlaga og leðurkenndar blöðkur sem vaxa upp frá stuttri stilkblöðku. Best er að tína söl um stórstraumsfjöru frá miðjum júlí fram í ágúst en eftir því sem líður á sumarið verða sölin C-vítamín ríkari og sætari, þar sem þau nota sumarið til að safna forðasykri yfir veturinn.
Einnig voru þarna aðrar tegundir sem gott er að nýta og fólk tíndi töluvert af, s.s. purpurahimna (nori), marinkjarni (wakame), klóblaðka, sem finnst aðeins á Íslandi og svo aðrar ljúffengar tegundir eins og beltisþari, þangskegg o.fl.
Eftir tínsluna var boðið upp á súpu og nýbakað heilsubrauð frá Heilsustofnun í Hveragerði og spjallað um hvernig best er að verka hinar ýmsu tegundir af þara úr sjónum. Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumaður var með í för og fræddi hópinn um í hvað má nota söl og gaf þátttakendum smakk af ýmsum afurðum þar sem hráefni úr sjónum er notað.
Þetta var frábær ferð með og þátttakendur mjög ánægðir með fróðlega og skemmtilega stund í góðu veðri.
Ingi Þór Jónsson, formaður NLFR