Mikilsverðum áfanga hefir nú verið náð í heilsuhælismálinu, þar sem heilbrigðisstjórnin hefir viðurkennt hælið sem gigtlækningahæli. Þetta þýðir það, að gigtarsjúklingar, en aðrir ekki, fá um 3/5 hluta kostnaðar greiddan af sjúkrasamlögunum.
En með því að tilgangurinn með stofnun hælisins hefir aldrei verið sá einn að liðsinna gigtveiku fólki, verður stefnt að því, að fleiri sjúklingar verði aðnjótandi svipaðra hlunninda, svo sem sjúklingar í afturbata sendir frá sjúkrahúsum, sjúklingar með háan blóðþrýsting, meltingarkvilla o.s.frv. Að vísu er það komið á daginn, að þótt hælið verði stækkað til muna, er langt frá því, að það geti fullnægt eftirspurn gigtarsjúklinga.
Frá því um síðustu áramót hefir hvert rúm verið fullskipað, og í byrjun maí var svo komið, að öll rúm voru lofuð fram að næstu áramótum. Síðan er óhætt að fullyrða, að þúsundum manna hafi verið vísað frá, en meðal þeirra er vitanlega fjöldi fólks, sem óskað hefir eftir að dvelja í hælinu sér til hressingar og greiða allan kostnað sjálft, bæði heilbrigt fólk og sjúklingar aðrir en gigtveikir.
Sést á þessu, hve brýn nauðsyn er á, að hælið verði stækkað sem allra fyrst og það til mikilla muna.
Nú eru í hælinu sjálfu 44 rúm. Auk þess hafa verið tekin á leigu tvö hús og einstök herbergi í Hveragerði, samtals 34 rúm. Í sumar leigir hælið ennfremur út 8 tveggja manna tjöld, svo að samtals eru þetta 94 rúm. Þá er fólki gefinn kostur á að tjalda í landi hælisins og kaupa fæði, og færa margir sér það í nyt.
Dvalarkostnaður er sem hér segir:
– Fyrir gigtarsjúklinga eru daggjöld kr. 135, og er þar innifalin öll læknishjálp, heit böð, ljósböð, sjúkraleikfimi og nudd. Af þessu greiða sjúkrasamlögin 3/5 hluta eða kr. 80, en sjúklingurinn afganginn, kr. 55.
Með því að læknar hælisins eru ekki sérfræðingar í gigtsjúkdómum, hefir Karl Jónsson, læknir, tekið að sér yfirumsjón og eftirlit með gigtarsjúklingum, sem dvelja í hælinu. Sjúklingar þurfa því að snúa sér til hans með tilvísun frá heimilislækni, ef þeir vilja njóta hlunninda sjúkrasamlaganna, sem taka þátt í dvalarkostnaði allt að 5 vikur.
– Aðrir dvalargestir, sem búa í hælinu eða í hinum leigðu herbergjum, greiða kr. 110 á dag og sérstakt gjald fyrir böð, nudd o.s.frv.
– Þeir sem búa í hinum leigðu tjöldum, greiða kr. 10 fyrir tjaldrúmið og kr. 75 fyrir fullt fæði.
Síðast þegar sagt var frá framkvæmdum við hælið hér í ritinu, var baðdeildin tekin til starfa með heitum vatnsböðum og leirböðum. Gufubaðstofan er ekki komin af stað enn, en hinsvegar er nokkuð síðan vatni var hleypt í sundlaugina, og má nærri geta, hvílíkur fengur hún er fyrir dvalargesti. Þá hefir verið komið upp vísi að föndurstofu, þar sem starfað er vetrarmánuðina, undir leiðsögn Ingveldar Kristmundu Brynjólfsdóttur, sem lesendum Heilsuverndar er að góðu kunn. Hefir þessi starfsemi orðið að hafast við á einum gangi baðdeildar og nýtur mikilla vinsælda. Annars mun henni ætlaður samastaður í stofu við hliðina á leikfimisalnum, en þar eru nú sem stendur dvalarherbergi.
Næsti áfangi í byggingarframkvæmdum er ný íbúðarálma með um 30 rúmum. Alþingi samþykkti síðastliðinn vetur að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast 500.000 króna lán til hælisins, og mun því fé, þegar lán fæst, verða varið til að koma þessari álmu upp. Standa vonir til, að verkið geti hafizt þegar á þessu ári.
Eins og geta má nærri, hafa allar þessar framkvæmdir kostað mikið fé. Fyrir þremur árum hefði bjartsýnustu mönnum, sem vissu, hve miklu, eða réttara sagt hve litlu; félagið hafði úr að spila, ekki komið til hugar, að svo mikið ynnist á. En sjón er sögu ríkari. Félagið hefir reynzt þess megnugt, að mestu af eigin ramleik, að koma hér upp glæsilegri heilsubótamiðstöð. Með hyggindum og hagsýni hefir tekizt að reisa myndarlegt heilsuhæli, hentugt í rekstri, án alls íburðar, sem ekki er til annars en að eyða peningum, en búið öllum helztu þægindum, með minni tilkostnaði en dæmi eru til hér á landi og að mestu án opinberra styrkja.
Rekstur hælisins virðist vera kominn á öruggan grundvöll. Og eftirspurnin og árangur af dvöl sjúklinga sýnir, að hér hefir ekki verið unnið fyrir gýg. Þarna hafa margir lagt hönd á plóginn. Auk Jónasar læknis Kristjánssonar, sem verið hefir lífið og sálin í öllum framkvæmdum frá byrjun og lagt til þeirra stórfé, hefir mestur þungi starfsins hvílt á þeim Ágústi heitnum Steingrímssyni, byggingafræðingi, sem teiknaði öll mannvirki og var óþreytandi í að leiðbeina við byggingu þeirra, m.a. er hann dvaldi þar sem sjúklingur, lengst af sárþjáður, og framkvæmdastjóra félagsins Sigurjóni Danívalssyni, sem annast hefir allar framkvæmdir af frábærum dugnaði og ósérplægni og lyft þar Grettistaki.
Sumum kann að þykja dvalarkostnaður óhæfilega hár. Þó er ekki dýrara að dvelja þarna en á venjulegum sumargistihúsum. Á sjúkrahúsum er dagskostnaður nú kominn nokkuð á þriðja hundrað króna á dag. Stafar sá kostnaður að verulegu leyti af fjölmennu starfsliði (læknar, hjúkrunarlið, sérmenntað starfsfólk við allskonar rannsóknir, svo sem röntgenmyndatökur, blóðrannsóknir o.fl., auk venjulegs starfsfólks við matargerð, ræstingu, þvotta o.s.frv.), mikilli notkun lyfja og umbúða. Í hressingarhælum eru sjúklingar yfirleitt á fótum og þurfa því minni hjúkrun og aðhlynningu en ella, svo að komast má af með miklu færra starfsfólk.
Í heilsuhælinu í Hveragerði starfa nú 23 manns. Auk læknanna, þeirra Jónasar Kristjánssonar og Úlfs Ragnarssonar eru þar tvær lærðar hjúkrunarkonur, ungfrú Ásthildur Briem og ungfrú Ragna Nordahl, þrjár stúlkur vinna í baðdeildinni og 2 við ljósböð, nudd og sjúkraleikfimi. Önnur þeirra er ungfrú Friederike Koch, sem starfað hefir við nýju baðdeildina frá upphafi og getið sér hinn bezta orðstír. Forstöðukona er frú Sigurlaug Jónsdóttir, matreiðslukennari, sem tók við af frú Guðrúnu Hrönn Hilmarsdóttur, þegar hún lét af störfum til að stofna sitt eigið heimili í Reykjavík. Var það mikið happ fyrir hælið að fá frú Sigurlaugu aftur í þjónustu sína, en hún var forstöðukona sumarheimilis NLFÍ sumarið 1953 og rækti það starf af mikilli prýði, en gaf ekki kost á sér næsta sumar af sömu ástæðum og Guðrún Hrönn síðar. Annað starfsfólk vinnur við matreiðslu, framreiðslu og ræstingu, og hefir hælið verið mjög heppið með val á starfsliði yfirleitt.
Enda þótt heilsuhæli NLFÍ eigi ekki langa sögu að baki, hefir það þegar aflað sér mikilla vinsælda, eins og eftirspurnin sýnir. Það hefir sannað tilverurétt sinn, bæði í augum leikmanna og lækna. Og reynslan hefir sýnt og sannað, að þörfin fyrir svona hæli var miklu brýnni og meiri en nokkurn gat grunað. Alþingi hefir sýnt hug sinn með því að veita nokkurn byggingarstyrk til hælisins og nú síðast með því að samþykkja einróma ábyrgð að láni. En betur má, ef duga skal. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að NLFÍ megni óstutt að stækka hælið svo sem þörf krefur. Alþingi og ríkisstjórn þyrftu að veita ríflegan styrk til stækkunar eða til byggingar á nýju hæli. Slík ráðstöfun fjár eru hyggindi, sem í hag koma. Slík hæli mundu létta stórlega á sjúkrahúsunum, sem eins og áður er sagt eru um helmingi dýrari í rekstri og miklu dýrari í byggingu. Útgjöld sjúkrasamlaganna mundu lækka að sama skapi. Draga mætti úr kostnaði við byggingu dýrra sjúkrahúsa. Og loks er það ekki minnst um vert, að sjúklingar og allur almenningur eigi þess kost að dvelja á svona hælum sér til hressingar og heilsubóta jafnframt því að kynnast af eigin raun þeim heilsuræktarleiðum, sem þar eru farnar.
B.L.J.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 2. tbl. 1958, bls. 46-52