Ályktanir 36. landsþings NLFÍ

Börn og unglingar
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að gera öllum leik-, grunn- og framhaldsskólum kleift að kenna leiðina til heilbrigðis. Heilsueflandi samfélag er lykill að árangri.
Hæfileg hreyfing, nægur svefn, hvíld, hollt mataræði og jákvæð félagsleg gildi eru lykill að velferð þessa hóps.

Íþróttafélög
Landsþing NLFÍ mótmælir harðlega að mestmegnis sé selt sælgæti og sykraðir drykkir þar sem börn og unglingar stunda íþróttir.
Landsþing hvetur íþróttafélög sem slíkt gera að bjóða frekar upp á ávexti og grænmeti á vægu verði eða jafnvel endurgjaldslaust.

Viðbættur sykur og unnin kolvetni
Landsþing NLFÍ hvetur söluaðila til að fjarlægja sælgæti frá afgreiðslukössum og draga úr auglýsingum matvara sem ríkar eru af viðbættum sykri og unnum kolvetnum. Framfylgja þarf undantekningalaust merkingum á umbúðum matvæla um magn viðbætts sykurs.

Lífrænt vottuð framleiðsla
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að móta stefnu um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og að taka upp skipulegan stuðning við lífræna aðlögun í landbúnaði.
Þeim vísindalegu rannsóknum fjölgar sem sýna fram á að lífrænar aðferðir auka langtíma hagkvæmni í framleiðslu, hafa jákvæð áhrif á lífríki og umhverfi.
Matvara með lífræna vottun er án erfðabreyttra afurða og mengunar af varnarefnum sem notuð eru við hefðbundna ræktun.

Erfðabreyttar lífverur
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að stöðva útiræktun á erfðabreyttum lífverum og hefja undirbúning þess að Ísland verði fyrst nágrannaþjóða lýst land án erfðabreyttra lífvera.
Einnig að tryggja með auknu eftirliti og eftirfylgni að heildsalar og framleiðendur hlíti ákvæðum reglugerðar um merkingar á matvælum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra.

Vímuefni
Landsþing NLFÍ hvetur til aukinnar fræðslu í grunn- og framhaldsskólum um skaðsemi áfengis, tóbaks og ólöglegra vímuefna sem sífellt er auðveldara aðgengi að hér á landi.
Landsþingið hvetur stjórnvöld einnig til að vara við notkun svokallaðra rafrettna, en vísbendingar eru um að efni í þeim séu skaðleg heilsu fólks.

Hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar
Landsþing NLFÍ hvetur til aukinnar samþættingar hefðbundinna lækninga og viðbótar­meðferða. Með viðbótarmeðferð er átt við meðferð sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að nýtist samhliða hefðbundinni meðferð eða sem sjálfstæð meðferð.

Umhverfi
Landsþing NLFÍ minnir á að hreint náttúrulegt umhverfi er mikilvægur þáttur í lífi og heilsu fólks.
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að standa vörð um ósnortin víðerni í náttúru Íslands. Með auknum straumi ferðamanna til landsins en enn frekari ástæða til að fyrirbyggja að mikill ágangur ferðamanna skaði viðkvæma náttúru landsins.

Sjálfbært Ísland
Landsþing NLFÍ vekur athygli á að Heilsustofnun, Hveragerðisbær og Landbúnaðarháskólinn að Reykjum  hafa undirritað viljayfirlýsingu um Sjálfbært Ísland, kannaðir verði möguleikar á að sett verði á stofn upplýsinga- og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun í Hveragerði.
Heilsustofnun hefur í áratugi vakið athygli á heilsusamlegu mataræði og lífrænni ræktun og byggir endurhæfingu dvalargesta m.a. á hreyfingu, mataræði og að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin heilsu. Þá eru sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð hornsteinar Heilsustofnunar.

Ályktanir 36. landsþings NLFÍ á pdf-formi.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands