Draumurinn um heilsulind

 

Náttúrulækningafélag Akureyrar (NLFA) var stofnað í ágúst 1944 sem deild í Náttúrulækningafélagi Íslands. Frá upphafi var tilgangur félagsins að efla þekkingu á heilsusamlegum lifnaðarháttum, fræða og síðast en ekki síst vinna að því að koma upp heilsuhæli eins og það var þá nefnt.

Félagar NLFA áttu sér snemma þann draum að stofna heilsulind á Norðurlandi. Með mikilli eljusemi og ómældri vinnu félagsmanna og miklum stuðningi einstaklinga félagasamtaka og fyrirtækja tókst að reisa glæsilegt hús á fallegum stað í Kjarnaskógi. Stjórnvöld höfðu gefið loforð um þjónustusamning, en þegar til kastanna kom voru þau loforð svikin og húsið var selt.

Söluandvirðið var að mestu notað til byggingar baðhúss í Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði (HNLFÍ). Baðhúsið er flaggskip stofnunarinnar og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í því starfi sem fram fer á Heilsustofnun.

Stór hluti dvalargesta HNLFÍ kemur af Norðurlandi, þar sem þeir njóta endurhæfingar og koma til baka endurnærðir og hæfari til að takast á við daglegt amstur.

Á fjárlögum fyrir árið 2014 er lagt til að Heilsustofnun taki ein á sig allan niðurskurð sambærilegra stofnana. Gangi það eftir blasir við mikill samdráttur og skert þjónusta við dvalargesti.

Á næsta ári fagnar NLFA 70 ára afmæli sínu. Allan þann tíma hefur félagið unnið ötullega að því að félagsmenn og aðrir geti átt kost á meðferð og endurhæfingu í anda náttúrlækningastefnunnar.

Draumurinn um heilsulind í Kjarnaskógi varð ekki að veruleika vegna vanefnda ríkisvaldsins. Nú er enn og aftur reitt til höggs með því að leggja til í frumvarpi til fjárlaga 2014 að fjármagn til HNLFÍ vegna þjónustusamninga verði skorið verulega niður. Það eru kaldar kveðjur á afmælisári.

Sigrún Daðadóttir, formaður NLFA

Related posts

Köld böð og sjósund – heilsuefling eða öfgar? Málþing á Akureyri 2.febrúar

Aðventufundur NLFA