Plöntuhornið – Jólastjarna

Euphorbia pulcherrima eða jólastjarna hefur prýtt heimili, fyrirtæki og stofnanir síðustu vikurnar fyrir jól frá árinu 1965 á Íslandi. Jólastjarnan á uppruna sinn að rekja til Mið Ameríku og Mexíkó, þar sem hún verður allt að þriggja metra hár runni. Laufblöðin fagurgræn, egglaga, odddregin og heil. Aðalprýði plöntunnar eru fagurlituð háblöð sem sitja í kringum smáa blómskúfana. Mikill breytileiki er í litum háblaðanna – en vinsælastir eru rauður, hvítur og bleikur.

Staðsetning
Jólastjarna þrífst vel á björtum stað en þolir ekki beina sól.

Hitastig
Stofuhiti (16-20°C) hentar jólastjörnunni vel þegar heim er komið. Jólastjarna er viðkvæm fyrir kulda, þó hafa borist fregnir af því að yrkin (sortir) sem eru í framleiðslu í dag hafi meira kuldaþol en þau sem voru ræktuð fyrir einhverjum árum síðan. Ekki er mælt með að geyma jólastjörnu út í bíl í fimbulkulda.

Vökvun og næring
Pottamold þarf að vera jafnrök en varast skal ofvökvun, hún þolir ekki að þorna. Gott er að vökva jólastjörnu með volgu vatni. Þó nokkur næring fylgir plöntunni frá framleiðanda og er því áburðargjöf óþörf fyrstu vikurnar. Ef halda á lífi í plöntunni fram yfir jól, þarf að gefa henni áburð annað slagið.

Annað
Jólastjarnan tilheyrir mjólkurjurtaættinni Euphorbiaceae. Allar tegundir ættarinnar hafa mjólkursafa. Mjólkursafi Euphorbia sem er ættkvísl jólastjörnunnar er eitraður og getur valdið ofnæmi sem lýsir sér í ertingu ef safinn lendir í augum, munni eða á húð.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
Myndirnar með greininni eru í eigu floradania.dk
http://www.gardeningknowhow.com/ornamental/flowers/poinsettia/poinsettia-care-how-do-you-take-care-of-poinsettias.htm
https://www.landsbjorg.is/assets/slysavarnirheimilid/skadlegar_jurtir.pdf
http://ahb.is/eitradar-og-varasamar-plontur/
http://floradania.dk/planter/pv/sl/pg/4/data/euphorbia-2/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið