Plöntuhornið – Alpafjóla

Cyclamen persicum eða alpafjóla er gamalkunn stofuplanta.
Þetta er hnýðisjurt, laufblöðin eru öfughjartalaga og blómin sitja stök á endum blómstilka, umlukin fimm uppréttum krónublöðum. Í heimkynnum sínum vex og blómstrar alpafjólan á veturna en fer í dvala yfir sumarið þegar hitastig er hátt og þurrt er í veðri.  Alpafjólan er ein af fáum sem blómstrar á veturna, hún er fáanleg nú og eitthvað fram eftir hausti. Blöð alpafjólunnar eru til mikillar prýði, bæði lögun þeirra, litur og mynstur. Blómlitir eru hvítir, bleikir og rauðir.

Staðsetning
Hún þarf bjartan stað til að viðhalda blómguninni, en má ekki standa í sól. Ef hún fær of mikla birtu þá fölna litir blaða og blóma. Gluggakista sem snýr í vestur gæti hentað alpafjólunni vel.

Hitastig
Alpafjóla kýs hitastig sem er þó nokkuð undir stofuhita, hún þrífst best við 13-16°C. Til að verða við þessu getur staðsetning í glugga komið að góðum notum. Það mætti einnig hafa í huga að nota alpafjólu utandyra í lok sumars, hún þolir ekki að frjósa en þolir vel lágt hitastig.

Vökvun og næring
Pottamoldin þarf ávalt að vera rök en varist ofvökvun. Best er að vökva neðanfrá, þar sem hnýðinu hættir til að mygla ef vökvað er ofanfrá. Plantan má að hámarki standa í vatni í 20-30 mínútur, að þeim tíma liðnum er umfram vatni helt frá. Pottamoldin má ekki þorna of mikið á milli vökvana.

Plantan þarf að fá næringu, áburð er hægt að fá á fljótandi formi og er hann blandaður vatni eftir leiðbeiningum á umbúðum. Gott er að gefa áburð í þriðju hverri vökvun yfir vaxtartímann, vökvað er neðan frá.

Annað
Hnýði alpafjólunnar er eitrað, eituráhrifa gætir ef þeirra er neytt í miklu magni. Ef umpotta þarf plöntunni er æskilegt að nota hanska.

Myndin af alpafjóla hér að ofan er birt með leyfi frá floradania.dk.

Samantekt: Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
http://www.ourhouseplants.com/plants/cyclamen-persicum
https://plants.ces.ncsu.edu/plants/all/cyclamen-persicum/
http://floradania.dk/planter/pv/sl/pg/2/data/cyclamen/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið