Í fréttum nýlega kom fram að algeng verkjalyf líkt og íbúfen geta aukið líkurnar á hjartasjúkdómum. Við Íslendingar erum að nota alltof mikið af verkjalyfjum og löngu kominn tími til að reyna að minnka notkunina.
Oft eru verkjapillur ekki lausnin heldur hreyfing og hollt mataræði, en því miður eru of fáir sem leggja á sig að taka þá þætti föstum tökum. Það að taka verkjalyf er oft sambærilegt við að pissa í skóinn sinn, það slekkur á verknum meðan það virkar en vinnur ekki á meininu sem veldur honum. Þetta getur valdið ofnotkun á verkjalyfjum því ekki er unnið á meininu heldur bara sífellt tekið meira af verkjalyfjum til að halda óþægindum í skefjum.
Vert er þó að taka fram, áður en lengra er haldið, að í mörgum tilvikum eiga verkjalyf rétt á sér og þá helst undir handleiðslu lækna.
Í stað verkjalyfja ættum við að snúa okkur meira til náttúrulegra efna sem við finnum í eldhúsinu hjá okkur og duga vel gegn verkjum.
Hér fyrir neðan er upptalning á nokkrum náttúrulegum verkjalyfjum sem við gætum nýtt okkur:
-
- Vatn: Er líklega besta og ódýrasta verkjalyfið. Höfuðverkur t.d. getur oft stafað af vökvaskorti. Við erum að stórum hluta gerð úr vatni (2/3 hlutar) og öll efnahvörf í líkamanum fara fram í vatni. Vatn er lífsins vökvi og án þess þrífst ekkert líf. Stefnum að því að drekka 4-6 vatnsglös á dag og enn meira ef mikið er æft. Þó er með vatnið eins og allt annað, að allt er gott í hófi. Ef vatns- eða vökvadrykkja verður of mikil (+2 L á dag) getur það valdið ójafnvægi á söltum líkamans, með því að útskolun verður á steinefnum.
- Engifer: Engifer hefur lengi verið þekkt sem lækningajurt í Austurlöndum fjær. Vísindamenn hafa m.a. fundið bólguhamlandi efnasambönd í engifer. Það styrkir þá alþýðutrú að hægt sé að nota engifer gegn vöðva- og liðbólgum. Klínískar tilraunir hafa verið gerðar sem staðfesta þetta. Nýleg rannsókn á bandarískum háskólanemum, sem stunduðu miklar líkamsæfingar, sýndi að inntaka á engifer minnkaði vöðvaverki dagana á eftir æfingarnar. Þetta átti bæði við um hrátt og soðið engifer.
- Chillipipar: Chilipipar hefur sýnt virkni í að minnka gigt, harðsperrur og höfuðverk. Virka efnið í chilipipar er capsicin, sem er talið minnka næmni taugaboða sem virkja sársaukataugar. Chillipipar er öflugri ef virka efnið er borið á þau svæði þar sem á að minnka sársauka, í stað þess að borða þennan sterka pipar.
- Piparmynta: Piparmyntan er líklega ein þekktasta verkjastillandi plantan. Virkni piparmyntu til verkjastillingar er aðallega í gegnum mentólið í plöntunni, sem veldur kælingu og linar verki. Piparmyntuolía hefur verið notuð til að lina höfuðverk, með því að bera olíuna á verkjasvæðið.
- Fiskiolía: Við höfum lengi þekkt virki lýsis, ekki bara sem aðal D-vítamíngjafa heldur er það einnig verkjastillir. Í lýsinu eru omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA sem m.a. vinna gegn bólgumyndun í líkamanum og geta dregið úr lið- og gigtarverkjum. Virkni EPA og DHA er fólgin í myndun á bólguhemjandi efnum s.s prostaglandína. Samkvæmt breskri rannsókn dró inntaka á 10 g af lýsi á dag úr þörfinni fyrir verkjalyf um 30%.
Gæta verður að skammtastærðum við notkun á náttúrulegum verkjalyfjum líkt og öðrum lyfjum. Þó vissulega séu þetta flest algengar vörur í eldhúsum okkar er ekki þar með sagt að við getum notað þetta óhóflega, meira er ekki endilega betra. Því það er staðreynd að með rangri notkun getur maður fengið ýmsar aukaverkanir líkt og frá öðrum lyfjum.
Þessari grein er ekki hægt að ljúka án þess að vitna í frumkvöðul Náttúrulækningastefnunnar, sjálfan Jónas Kristjánsson. Árið 1951 í 3 .tbl. Heilsuverndar skrifaði Jónas: ” Suma menn hefir lengi órað fyrir því, og nú fyrst á 20. öld má það teljast sannað og almennt viðurkennt, þótt ekki sé farið eftir því, að heilnæm og náttúrleg og lifandi fæða ræður mestu um heilsu manna, meira en öll lyf veraldarinnar. Fyrir nærfellt hálfum þriðja tug alda voru uppi menn, sem sögðu, að náttúrleg fæða sé ykkar lyf, og ykkar lyf sé náttúrleg og lifandi næring. Læknar vitna í þessi spakmæli, en þeir hvorki lifa né breyta eftir þeim”.
Það verður líklega aldrei nógu oft brýnt fyrir fólki að þörfin fyrir verkjalyf eða mörg önnur lyf væri lítil sem engin ef við huguðum betur að því að neyta náttúrulegrar og lifandi fæðu.
Heimildir:
http://www.naturalnews.com/040739_painkillers_alternatives_pain_relief.html
http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2013/02/23/algeng-en-stundum-haettuleg-bolgu-og-verkjalyf-i-lausasolu-apotekanna/
http://www.ruv.is/frett/ibufen-adeins-gegn-lyfsedli
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21631494
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/17427617
http://lysi.is/Heilsa/Lidirogonaemiskerfi/Nanar/120
https://nlfi.is/hvernig-verda-sjukdomar-umflunir
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjóra Náttúrulækningafélags Íslands.
ritstjori@nlfi.is