Náttúrulækningastefnan og landbúnaðurinn


Formælendum náttúrulækningastefnunnar hér á landi hefir verið legið á hálsi fyrir það, að með “bannfæringu” sinni á kjöti væru þeir að stuðla að því að leggja í rúst einn aðalatvinnuveg Íslendinga, landbúnaðinn.

Þessar ásakanir eru mjög orðum auknar og byggjast að verulegu leyti á misskilningi eða mistúlkun, eins og nú skal reynt að gera grein fyrir.

Það er ekki rétt, að náttúrulækningastefnan “bannfæri” matvæli eins og kjöt eða fisk. Aðalinntak hennar er þetta: 1. Rangir lífshættir eru meginorsök sjúkdóma. 2. Réttir lífshættir eru skilyrði fyrir fullkominni heilbrigði og stuðla öðru fremur að útrýmingu sjúkdóma. 3. Vanheilsu og sjúkdóma má oft bæta án lyfja, með breytingu á lífsháttum og ýmsum styrkjandi ráðum. “ Rök fyrir þessum kennisetningum er ekki ætlunin að tilfæra hér, enda ekki rúm til þess.

Mataræðið er aðeins einn þáttur lífsháttanna. Um það, sem og marga aðra þætti, ríkir í ýmsum atriðum ágreiningur meðal náttúrulæknanna sjálfra. Sumir telja, að menn eigi einungis að leggja sér hráa fæðu til munns, m.a. hrátt mjöl. Aðrir borða einvörðungu jurtafæðu, en hafna hverskonar fæðu úr dýraríkinu, þar á meðal mjólk og eggjum. Enn aðrir eru mjólkur- og jurtaneytendur, en borða hvorki kjöt né fisk, og loks halda margir því fram, að hófleg neyzla kjötmatar brjóti ekki í bága við heilsusamlegt líferni.

En allir þessir flokkar leggja á það megináherzlu, að matarins sé neytt í náttúrlegu ástandi, eftir því sem verða má, þ.e. í því formi, sem fæðan hefir frá náttúrunnar hendi. Sérstaklega er það hin geysilega aukning á neyzlu hins hvíta sykurs og hvíta hveitis, sem er þeim þyrnir í augum, sakir þess skorts, sem mikil neyzla þessara einhæfu fæðutegunda veldur í líkamanum á ýmsum lífsnauðsynlegum efnum. Þá eru allir sammála um skaðsemi nautnalyfja og ýmissa efna, sem blandað er í matvæli til að verja þau skemmdum eða fegra þau í augum neytenda. Ennfremur munu þeir allir á einu máli um það, að neyzla eggjahvítu sé of mikil meðal vestrænna menningarþjóða, og þurfi að minnka hana með því að draga úr kjöt- og fiskneyzlu.

Öllum þessum flokkum innan náttúrulækningastefnunnar verður mikið ágengt í viðleitni sinni til heilsubóta, og skal hér ekki reynt að gera upp á milli þeirra.

Þegar Jónas Kristjánsson, þá héraðslæknir á Sauðárkróki, hóf að boða náttúrulækningastefnuna hér á landi fyrir hálfum fimmta tug ára, beindi hann geiri sínum aðallega gegn hvítum sykri, hvítu hveiti og kaffi, auk þess sem hann, í ræðu og riti, brýndi fyrir fólki heilsusamlegt líferni í hvívetna, með útivist, sólböðum o.s.frv. Fyrir þessar tilraunir til að bæta heilsufarið í landinu sætti hann hörðum ákúrum, jafnvel frá mönnum í læknastétt. Sama var uppi á teningnum, þegar fyrsta bók Náttúrulækningafélags Íslands kom út, Sannleikurinn um hvíta sykurinn eftir Are Waerland, og önnur bók eftir sama höfund, Matur og megin. En í þeirri bók eru leidd rök að því, að manninum sé frá skaparans hendi ekki ætlað að lifa á kjöti eða fiski og heilsunni fyrir beztu að sneiða hjá þeim fæðutegundum. Waerland tekur þó ekki dýpra í árinni en svo, að hann segir menn geta haldið góðri heilsu frá vöggu til grafar, þótt þeir borði dálítið af kjöti og fiski, en leggur megináherzlu á að sneiða hjá hvítum sykri og hvítu hveiti í viðurværinu. Í matstofu NLFÍ, sem starfrækt var í Reykjavík árin 1944-52, var kjöt og fiskur á borðum suma daga vikunnar, og innan náttúrulækningasamtakanna hér á landi eru þeir mjög fáir, sem hafna með öllu kjöti og fiski í mataræði sínu.

Í Heilsuhæli NLFÍ hefir kjöt og fiskur ekki verið á borðum af þeim ástæðum, sem nú skal greina.

Hælið tekur aðallega á móti sjúklingum með allskonar gigt, húðsjúkdóma, háan blóðþrýsting og meltingarkvilla. Jónas Kristjánsson, sem var fyrsti læknir hælisins, taldi þessum sjúklingum “ og raunar öðrum dvalargestum einnig “ það fyrir beztu að borða hvorki kjöt né fisk, og byggði þá skoðun m.a. á reynslu erlendra lækna, sem stjórnað hafa slíkum heilsuhælum erlendis; en í nágrannalöndum okkar og í Ameríku er fjöldi slíkra hæla, starfrækt af lærðum læknum. Í kjöti eða fiski eru engin efni, svo vitað sé, sem líkaminn fær ekki í mjólkur- og jurtafæðu. Og af ýmsum öðrum ástæðum var ákveðið að láta í þessu efni eitt yfir alla hælisgesti ganga. M.a. var litið svo á, að þarna væri hentugt tækifæri til að uppræta þann rótgróna misskilning, sem hér virðist ríkjandi, jafnvel meðal lækna, að ekki sé hægt að lifa án kjöts eða fisks. Enda þótt slíkar skoðanir hafi verið marghraktar með tilraunum, og árþúsunda reynsla milljónaþjóða afsanni þær, heyrast hér oft þær mótbárur gegn mjólkur- og jurtafæði, að þar sem Íslendingar hafi í þúsund ár lifað á kjöti og fiski, hljóti þeir að halda því áfram, ef ekki á verra af að hljótast. Slíkar staðhæfingar eiga sér enga stoð, hvorki í reynslu né vísindarannsóknum. Og annar misskilningur er það líka, að kjöt og fiskur sé aðalfæða Íslendinga nú, hvað sem kann að hafa verið fyrr á öldum. Samkvæmt manneldisrannsóknum og öðrum athugunum er kjötneyzla þjóðarinnar ekki nema 5-10% af allri fæðutekju hennar, miðað við hitaeiningar (mjólkurmatur um 20%, sykur og kornmatur um 60%). Á hinn bóginn er eggjahvítuneyzlan um helmingi meiri en talið er hæfilegt magn að dómi háskólalæknisfræðinnar, og að því leyti til ætti það að vera til bóta að draga úr neyzlu kjöt- og fiskmetis, hvað sem öðrum sjónarmiðum líður.

Frá því fyrsta hefir fæðið í Heilsuhæli NLFÍ átt miklum vinsældum að fagna, og mjög sjaldan borið á óánægju út af því að fá ekki kjöt eða fisk. Hinsvegar virðist fólk fremur sakna kaffisins. En því virðast fáir veita eftirtekt, að þar sést aldrei á borðum hvítur sykur eða hvítt hveiti.

Dvalargestum og öðrum, sem koma í heilsuhælið eða heyra um það talað, hættir til að gera sér rangar hugmyndir um náttúrulækningastefnuna. Sumir líta á hana sem eintómt “grasát” eða “grænmetisát”, aðrir sem það eitt að neita sér um kjöt, fisk og kaffi. Hvorttveggja er jafnfráleitt. Allir, sem í hælið koma, geta að vísu séð, að þar er á borðum allur algengur matur nema kjöt og fiskur; en þar eru ekki aðeins kartöflur eða grænmeti, heldur og hverskonar mjólkurmatur, m.a. skyr og ostar, brauð úr rúgmjöli og heilhveitimjöli, haframjöl, byggmjöl, hrísgrjón, allskonar baunir og ávextir, lýsi, söl, fjallagrös. Ef einhverjir geta ekki þrifizt af þessum mat, hljóta til þess að liggja aðrar ástæður en skortur nauðsynlegra næringarefna í fæðinu, svo sem sálrænar orsakir eða sérstakir sjúkdómar. En það sem vekur ekki eins mikla eftirtekt og kjöt- og fiskleysið, en skiptir þó miklu meira máli til heilsubóta, er algjört bann við hvítum sykri og hvítu hveiti á borðum.

Þá liggur það þeim heldur ekki í augum uppi, er þarna matast, að korn í brauð og grauta er malað eftir hendinni í kornmyllu í hælinu sjálfu, þannig að mjölið verður ekki fyrir neinu efnatapi við geymslu og er örugglega ekki blandað neinum skaðlegum geymsluefnum; mestallt grænmeti er ræktað í garðyrkjustöð hælisins, þar sem notaður er einvörðungu náttúrlegur áburður og engin eiturlyf í garða eða á grænmeti; og reynt er að kaupa frá útlöndum korn og aldin, sem ræktað er á sama hátt.

Af framansögðu ætti að vera ljóst, að það er ekki andstaða gegn kjöti og fiski, sem einkennir náttúrulækningastefnuna, eins og hún er boðuð hér á landi, heldur, hvað mataræði snertir, fyrst og fremst andstaðan gegn hvítum sykri og hvítu hveiti, auk margra annarra endurbóta í sambandi við daglegt viðurværi og öflun matvæla.

Ásakanir þær, að náttúrulækningastefnan skaði landbúnaðinn, hafa heldur ekki við rök að styðjast. Landbúnaður Íslendinga hefir tekið miklum breytingum síðustu áratugina. Fyrir hálfri öld byggðist hann aðallega á sauðfjárrækt. Nú er mjólkurframleiðsla orðin veigamesti þáttur hans í fjölmennustu sveitahéruðum landsins. Auk þess hefir framleiðsla korns og garðávaxta aukizt verulega, og er þar um landbúnaðarafurðir að ræða. Allar þessar breytingar styður náttúrulækningastefnan. Og sem betur fer er atvinnulíf okkar það sveigjanlegt, að af hægfara breytingum á eftirspurn eftir einstökum afurðum getur stéttum þjóðfélagsins ekki stafað nein hætta.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 6. tbl. 1964, bls. 170-174

Related posts

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó