Lífrænar ræktunaraðferðir


Fyrir nokkrum árum birtust hér í ritinu allítarlegar lýsingar á ræktunaraðferðum, sem fólgnar eru í því, að notaður er eingöngu safnhaugaáburður í garða, á akra eða tún. Í safnhaugana er notaður húsdýraáburður, ef til er, hálmur, moð, allskonar úrgangur innanhúss og utan, svo sem kál, kartöflugras, einnig mold og jafnvel hey. Það hitnar í haugnum fyrir starfsemi gerla, og sé rétt að farið, verður hann á nokkrum vikum eða mánuðum að fínni, ilmandi mylsnu. Sumir leggja mikið upp úr því að setja ákveðin efni í hauginn til að örva efnabreytingar, en aðrir telja það ekki skipta máli.

Þessar aðferðir þykja gefa betri raun en notkun tilbúins áburðar, eða húsdýraáburður notaður á venjulegan hátt. Áburðurinn nýtist til fulls, enginn úrgangur eða afrakstur verður, og auk þess verður uppskeran öruggari. En aðalkosturinn við þessa aðferð er sá, að gróðurinn, sem upp af honum vex, öðlast mikla mótstöðu gegn sjúkdómum. Gildir það jafnt um sjúkdóma, sem stafa af veirum, bakteríum, möðkum eða öðrum sníkjudýrum, eða af efnaskorti. Auk þess er talið, að jurtir, sem upp af þessum áburði vaxa, hafi meira næringargildi en ella. Í Heilsuvernd hefir verið skýrt frá hinum stórmerku tilraunum Howards í Indlandi, frá danska félagsskapnum, sem telur mörg hundruð bændur og garðyrkjumenn og notar þessar aðferðir, frá útbreiðslu þeirra á Norðurlöndum og í Englandi og frá félagsskapnum Soil Association í Englandi. Ættu þeir sem vilja kynna sér þetta nánar, að afla sér eldri hefta Heilsuverndar, því að í stuttu máli er ekki hægt að rifja þær greinar upp, svo að gagn sé að. Hinsvegar verður reynt að láta lesendur Heilsuverndar fylgjast með því markverðasta, sem gerist í þessum efnum.

Félagið Soil Association í Englandi fékk til umráða allstórt land í fylkinu Suffolk nálægt London kringum 1940 og hóf þar tilraunir með þessar svonefndu lífrænu ræktunaraðferðir. Nokkrum árum síðar var svo byrjað á samanburðartilraunum, sem voru í því fólgnar, að landinu var skipt í 3 hluta, sem hver fyrir sig er afgirtur. Á einum hlutanum, sem er 30 hektarar að stærð, er eingöngu notaður safnhaugaáburður. Á öðrum skika jafnstórum er auk safnhaugaáburðar notaður tilbúinn áburður. Á báðum þessum tilraunaskikum eru kýr og alifuglar, og eru skepnurnar fóðraðar einvörðungu á afurðum hins ræktaða lands og áburðurinn notaður í safnhaugana. Þriðji tilraunareiturinn er 13 hektarar, og eru þar engar skepnur og enginn húsdýraáburður notaður, heldur tilbúinn áburður einvörðungu.

Árið 1952 hófust nákvæmar samanburðartilraunir á þessum 3 reitum. Tekin voru með reglulegu millibili sýnishorn af jarðvegi, af afurðum landsins, af mjólk og eggjum, og framkvæmd rækileg efnarannsókn, m.a. rannsókn á fjörefnainnihaldi afurðanna. Ennfremur var fylgzt með ástandi kvikfjárins.

Ennþá hafa ekki verið birtar neinar fullnaðarskýrslur um árangurinn af þessum rannsóknum. En bráðabirgðaathuganir hafa sýnt (1) að jarðvegurinn í fyrsta reitnum hefir farið batnandi þessi ár, en í hinum reitunum báðum hefir honum hrakað, (2) að þurrefni afurða af fyrsta reit eru meiri en hinna reitanna, (3) að kýrnar á fyrsta reitnum mjólka betur en á öðrum reit, og mjólkin auk þess þurrefna-auðugri, og skepnurnar þrífast betur, (4) að afurðir af fyrsta reit eru fjörefnaauðugri en af hinum reitunum.

Svo er að sjá, sem garðyrkjufræðingar og búfræðingar hafi ekki gefið þessum ræktunaraðferðum almennt mikinn gaum. Einhverjar tilraunir munu hafa farið fram til að prófa þær. En þær tilraunir munu hafa verið gerðar á litlum tilraunareitum, og ekki á sama reitnum ár eftir ár. Slíkar tilraunir eru marklausar. Lífræni áburðurinn sýnir yfirleitt ekki kosti sína á fyrsta ári, sérstaklega ef jarðvegurinn hefir áður fengið tilbúinn áburð. Það tekur nokkur ár að umbreyta gróðurmoldinni, og til þess að fullur árangur komi í ljós, mega reitirnir heldur ekki vera of litlir, því að þá er hættara við, að áhrifa frá nærliggjandi reitum gæti að einhverju leyti. Tilraunir Soil Association í Suffolk mun vera fyrsta rannsókn af þessu tagi, gerð í stórum mælikvarða og með fyllstu vísindalegri nákvæmni og aðbúnaði.

En þrátt fyrir það sem að framan er sagt, geta smærri tilraunir á litlum reitum sýnt furðu mikinn árangur þegar á fyrsta ári, og verður sagt frá innlendri reynslu annarsstaðar hér í heftinu.

Í Heilsuvernd og öðrum ritum hefir þráfaldlega verið á það bent, að flest matvæli, sem við leggjum okkur til munns, svo sem mjólk, grænmeti, rótarávextir, aldin og kornmatur, eru framleidd með tilbúnum áburði. Næringargildi þessara matvæla verður því minna en vera mundi, ef náttúrlegur lífrænn áburður væri notaður. Þar við bætist, að jurtir, sem vaxa upp af tilbúnum áburði, hafa svo litla mótstöðu gegn sýklum og sníkjudýrum, að nauðsynlegt er að verja þær gegn þessum sjúkdómsvöldum, og er það gert með meira og minna eitruðum lyfjum, sem hljóta að menga fóðrið og matjurtirnar. Uppskeruna þarf svo iðulega að verja skemmdum með öðrum lyfjum, sem einnig eru meira og minna skaðleg. Þannig er það m.a. með ávexti, bæði nýja, þurrkaða og niðursoðna, mjölvöru o.fl. Með núverandi ræktunaraðferðum verður þannig ekki hjá því komizt að leggja sér til munns fæðu mengaða skaðlegum efnum, sem veikla líkamann á löngum tíma og gera hann móttækilegan fyrir sjúkdóma. Úr þessari hættu drögum við eftir megni með því að velja þær fæðutegundir, sem við vitum að eru hollastar og næringarríkastar, svo sem nýtt ósigtað mjöl, mjólkurmat og grænmeti, en forðast léleg matvæli eins og hvíta mjölvöru eða gamalt mjöl, sykur, skaðlega drykki o.s.frv. Með þessu er stórt skref stigið í þá átt að efla heilbrigðina og bægja sjúkdómum á brott. Auðvitað verða sjúkdómar aldrei umflúnir til fulls, því hefir enginn haldið fram. En með réttum lifnaðarháttum má komast langt í þá átt, það sýnir margföld reynsla, forn og ný. Og eitt mikilvægt skref í þeirri viðleitni er ræktun heilbrigðra fóður- og matjurta.

Í 4. hefti Heilsuverndar 1948 er sagt frá heimsókn undirritaðs til danska bóndans Peters Madsen í Oldhöjgården á Norður-Sjálandi. Hann hefir búið þar síðan árið 1941 og notar eingöngu safnhaugaáburð. Þegar hann keypti þennan búgarð, var jarðvegurinn sýktur, og þurfti að verja allan gróður með lyfjum gegn sjúkdómum á sama hátt og á nágrannabýlunum. Eftir fá ár hafði Madsen tekizt að útrýma þessum sjúkdómum, án þess að nota nokkur lyf, þar á meðal stöngulsýki og kartöflumyglu. Nýlega hafa undirrituðum borizt upplýsingar, sem staðfesta enn betur yfirburði hinna lífrænu ræktunaraðferða. Uppskeran hjá Madsen er stöðugt jafngóð og heilbrigð, þó að allskonar sjúkdómar herji á akra og garða nágrannanna. Kýrnar skila hinum bezta arði og verða aldrei veikar. Erfið fæðing eða óeðlileg hefir ekki sézt öll þessi ár hjá kúm eða kindum. Kýrnar eru nytháar, og mjólkin fiturík. Hjá nágrönnum Madsens hefir gin- og klaufaveikin, sem eins og allir vita er bráðsmitandi, gert vart við sig. Madsen hefir ekki einu sinni haft fyrir því að bólusetja sínar kýr, svo viss er hann í sinni sök. Og kýr hans hafa heldur aldrei sýkzt, og er þó kúakyn hans, Jersey-kynið, talið viðkvæmt fyrir þessari veiki.

Það má vera að safnhaugaaðferðin sé vinnufrekari en notkun tilbúins áburðar. En það er ekki lítið, sem hún gefur í aðra hönd. Hún sparar kaup á tilbúnum áburði, á lyfjum, læknishjálp til handa bústofninum; uppskeran verður tryggari og að minnsta kosti sízt minni en ella, og betra fóður dýrum eða mönnum. Madsen kaupir engan fóðurbæti handa kúm sínum, fóðrar þær á heyi, hálmi og fóðurjurtum, sem hann ræktar sjálfur.

Þeir sem vildu kynna sér þessi mál nánar, ættu að fletta upp í Heilsuvernd árin 1948-1953. Í þeim árgöngum öllum, flestum heftunum, er eitthvað um þetta ritað; m.a. er sagt allrækilega frá hinum stórmerkilegu tilraunum enska vísindamannsins Alberts Howard í Indlandi; þar er því lýst, hvernig safnhaugur er búinn til; ennfremur er þar að finna ritgerðir eftir tvo Íslendinga, sem unnið hafa á erlendum búgörðum, þar sem safnhaugaáburður er notaður.

Allt virðist benda í þá átt, að sömu lögmál gildi um jurtir og dýr Rétt meðhöndlun jarðvegsins og rétt næring jurtanna er bezta vörnin gegn jurtasjúkdómum og bezta tryggingin fyrir heilbrigðum gróðri. Auk þess er þar hyrningarsteinninn að heilbrigði dýra og manna.

B.L.J.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 4. tbl. 1958, bls. 103-107

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur