Lifandi fæða – læknar ekki á einu máli

Til er gamalt latneskt orðtak frá fornöld, sem segir: „Dissentiunt medici“, en það þýðir: „Læknar eru ekki á einu máli“. Svo er það enn í dag innan læknastéttarinnar, jafnvel um ýms atriði, sem augljósust eru allra mála og hver maður með augun opin ætti að sjá.

Einn góður stéttarbróðir minn og vinur um marga áratugi vildi knésetja mig fyrir þá yfirsjón að hafa talað um nauðsyn lifandi fæðu og haldið því fram, að til þess að veita mönnum og dýrum fullkomna heilbrigði og mestan þroska, verði næring þeirra að vera lifandi, náttúrleg. Varð um þetta nokkur orðasenna. Ég sagði, að hann hlyti að hafa veitt því eftirtekt um húsdýr og eiginlega öll dýr, jafnvel þau sem væru orðin dauf og máttlaus eftir vetrarlangt vaneldi, hve fljótt þau lifnuðu við eftir fárra daga beit á lifandi nýgræðingi. Með þessu lifandi fóðri fengju dýrin krafta, nýtt fjör og lífsgleði, sem þau sýndu í leik og látæði. Enginn neitar því, að nýgræðingurinn er lifandi. Menn tala um, að farið sé að lifna á jörð, þegar gróður er að byrja á vorin.

Ég stakk upp á því við þennan stéttarbróður minn, að láta kýrnar skera úr þessu. Þær mundu ekki síður dómbærar um þetta mál en háskólalærðir menn. Hann skyldi reyna að bjóða kúnum nýtt gras af jörðinni og visk af gömlu heyi og sjá til, hvort kýrin veldi til fóðurs.

Þessi orðasenna varð svo til þess, að ég fór að kynna mér þetta betur. Hefi ég aflað mér álits margra lærðra lækna og prófessora, sem allir hafa staðfest skoðun mína.

Lifandi fæða
Í náttúrunnar ríki er það undantekningarlaust, að líf fæðist af lífi. Á sama hátt er það, að aðeins lifandi næring er fullkomin næring. Meðal menningarþjóðanna er þessu lítill gaumur gefinn. Fæðan á matborðum flestra er að mestu leyti dauð fæða, allt að 90% eða meira. Þetta er sóun á matvælum, vegna þess að reynsla og tilraunir hafa sýnt, að af ósoðinni jurta- og ávaxtafæðu þurfa menn miklu minna en af soðinni.

Dr. Bircher-Benner, hinn kunni svissneski læknir og manneldisfræðingur, hélt því fram, að brennslugildi fæðunnar og hitaeiningafjöldi sé ekki réttur mælikvarði á næringargildi hennar, heldur magn þeirrar sólarorku, sem jurtir og ávextir hafa fangað og ofið inn í byggingu sína. Hinn rétti mælikvarði ætti því að vera ljóseiningar fremur en hitaeiningar.

Manneldisfræðingurinn prófessor Friedberger gerði eftirfarandi tilraun. Hann tók 60 rottuunga, alla jafngamla og jafnþunga, 20 grömm hvern, og skipti þeim í 3 flokka, 20 í hverjum. Fyrsta flokkinn nærði hann á ósoðinni jurtafæðu. Annan flokkinn nærði hann á samskonar fæðu, soðinni á venjulegan hátt, en þriðji flokkurinn fékk samskonar mat mauksoðinn miklu lengur en vanalegt er. Rottunum var leyft að borða eins mikið og þær lysti, og átu 2 síðari flokkarnir miklu meira en sá fyrsti. Eftir 2 mánuði voru hráæturnar að meðaltali 102 grömm, rotturnar í 2. flokki 75 gr., en í 3. flokki ekki nema 52 grömm. Auk þess var farið að bera allmikið á vöntunarsjúkdómum í 2 síðari flokkunum, mest þó í þeim síðasta.

Það þarf því miklu minni mat, ef grænmetið er borðað hrátt í stað þess að sjóða það. Og auk þess eru mikil búhyggindi að því að lifa á jurtafæðu, ekki sízt á núverandi tímum hungurs og matarskorts. Það þarf margfalt minna landrými til að framleiða jurtafæðu en dýrafæðu. Telst svo til, að á því landi, sem einn veiðimaður mundi þurfa til umráða sér til næringar, sé með kvikfjárrækt hægt að framleiða fæðu handa 10 manns, handa 100 manns með kornyrkju og handa 250 manns með garðyrkju.

Meðan kornið getur skotið frjóöngum og framleitt nýtt korn, er það lifandi. Í gröfum hinna fornu Egypta hefir fundizt lifandi korn. Svo vel hefir móðir náttúra búið um það líf, sem mönnum og dýrum er ætlað til næringar. Heilt korn geymt á þurrum stað getur þannig lifað um þúsundir ára. Sé því sundrað, deyr það fljótt. Þegar eftir mölun byrja uppleysingaröflin starf sitt, svo að það verður fyrr eða síðar óhæft eða lélegt sem fæða. Þessvegna ætti aldrei að mala kornið, fyrr en rétt áður en þess er neytt.

Ef við hitum eða sjóðum kornið, deyðum við það einnig. En þó verður varla hjá því komizt, vegna þess að kornið þurrt og hart er erfitt að tyggja og melta til fullnustu. Hinsvegar má láta kornið spíra eða skjóta frjóöngum. Myndast þá í því ný fjörefni, C-fjörefni, og það verður lint og mjúkt, með sætum keim og ljúffengt til matar.

Menn geta ekki þrifizt á dauðri fæðu
Mér getur ekki úr minni liðið sú sjón, er ég iðulega sá í barnasjúkrahúsi erlendis laust upp úr síðustu aldamótum. Þar gat að líta fjölda barna, flest mjög ung, með beinkröm á svo háu stigi, að segja mátti, að hægt væri að vefja fótleggjum þeirra um hendur sér, svo kalklausir og beygjanlegir voru þeir. Þessi börn voru og flest yfirkomin af meltingartruflunum, höfðu óstöðvandi niðurgang og voru hin mesta hryggðarsjón. Berklaveiki í kúm hafði um þetta leyti náð talsverðri útbreiðslu, og þótti sannað, að börn hefðu smitazt af mjólk, bæði af innvortis og útvortis berklum. Var því farið að gerilsneyða mjólkina, og til frekara öryggis var það algengt, að mæður suðu þessa mjólk í heimahúsum. Var þannig gert rækilega út af við öll fjörefni í mjólkinni, auk þess sem hin mikla og endurtekna upphitun og suða olli breytingum og röskun á eggjahvítuefnum, steinefnum og fleiri lífrænum og nauðsynlegum efnasamböndum. Þetta var því orðin dauð og ónáttúrleg fæða, og þessir beinkramarvesalingar sýndu árangurinn. Börnin höfðu ekki aðeins beinkröm, heldur sjúkdómseinkenni algerðs fjörefnaskorts.

Monrad læknir fann ráðið til þess að lækna þennan alvarlega vöntunarsjúkdóm, að svo miklu leyti sem hann var læknanlegur. Hann gaf börnunum nýjan, ósoðinn brodd úr nýbærum, en auðvitað hurfu ekki allar afleiðingar beinkramarinnar. Þetta er ein sönnun þess, sem mörgum, læknum ekki síður en öðrum, gengur svo erfiðlega að skilja, að á dauðsoðinni fæðu lifa hvorki menn né dýr.

Dauð fæða á sök á flestum menningarkvillum
Á tveimur síðustu áratugum síðustu aldar varð stórkostleg breyting á matarháttum Íslendinga. Þá hófst innflutningur hvíta, blíkta hveitisins, hvíthefluðu hrísgrjónanna og fleiri tízkumatvæla, sem fylgja hinni vestrænu menningu, að ógleymdum hvíta sykrinum. Jafnframt því lögðust smátt og smátt niður fráfærur og neyzla sauðamjólkur, harðfiskjar og fjallagrasa. Í stað innlendu kjarnfæðunnar kom erlend kúnstfæða, sem svipt var sínum beztu kostum, fjörefnum, steinefnum, grófefnum og öðrum lífefnum. Í kjölfar þessara mataræðisbreytinga kom svo breyting á heilsufarinu. Nú er t.d. svo komið, að heilar tennur í börnum eru jafnfágætar og áður voru skemmdar tennur. Botnlangabólga hefir aukizt hröðum skrefum, og berklaveikin jókst einnig í skjóli hinnar ónáttúrlegu, dauðu fæðu. Áreiðanlega hefir hin kröftuga sauðamjólk verið um aldaraðir líf- og aflgjafi þjóðar vorrar og bjargvættur hennar á tímum harðæris.

Þessi sama saga gerist hvarvetna þar sem frumstæðar þjóðir hafa breytt um lifnaðarhætti og tekið upp matarhætti menningarþjóðanna. Þar koma hrörnunarkvillar, bæði næmir og ónæmir, og verða stöðugt tíðari.

Tilraunir á börnum
Á einu fjölsóttu ungbarnaheimili í Frakklandi voru eitt sinn gerðar rannsóknir á þrifum barnanna eftir því, hvernig mat þau fengu. Börnunum var skipt í 3 flokka af handahófi. Börnin í 1. flokki fengu ósoðna nýmjólk, börn í 2. flokki gerilsneydda mjólk og börn í 3. flokki niðursoðna mjólk, en að öðru leyti var fæði þeirra eins. Eftir nokkra mánuði kom niðurstaðan í ljós. Fyrsti flokkurinn hafði farið vel að, þau höfðu vaxið og þyngzt meira en tíðast gerðist, voru hraustleg og styrk og höfðu þroskazt jafnt og þétt. Í hinum 2 flokkunum voru börnin einnig feit og sælleg, en þeim hafði þó farið minna fram, og var farið að bera á vöntunareinkennum hjá þeim. En lengra var ekki farið í þessari tilraun.

Maðurinn er skapaður sem jurtaæta
Maðurinn er hvorki rándýr né hrææta. Meltingarfæri hans eru svipuð og í þeim dýrum, sem lifa á jurtafæðu, langir þarmar og sérstaklega langur ristill.

Það þykir nú máske ekki fínt, á þessari vísindaöld, sem vér þykjumst svo mjög af, að vitna í Biblíuna, sem hefir þó verið kölluð hin helga bók eða bók bókanna. En hinir vitrustu menn játa, að í henni sé að finna meiri speki og háleitari andans göfgi og sannleika en í nokkurri annarri bók. Og Biblían kennir oss áreiðanlega meiri sannindi um manneldi en flestar aðrar bækur um þau mál.

Í 1. bók Mósesar, 1. kap. 29. versi, þar sem Guð talar til hinna fyrstu manna og gefur þeim reglur um matarhæfi, segir svo: „Sjá, ég gef ykkur allskonar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og allskonar tré, sem bera ávöxt með sæði. Það sé ykkur til fæðu“.

Þarna er kennt, að menn eigi að vera jurtaætur. Og það er líka áreiðanlegt, að meðan menn lifðu samkvæmt þessu, voru menn sælli, lifðu paradísarlífi. Og það er eftirtektarvert, að matarreglur þær, sem Adam og Evu voru gefnar af Höfundi lífsins, og fæðutegundir þær, sem þar eru taldar, eru í fullu samræmi við niðurstöður nútíma vísinda: „Lifandi næring til viðhalds lífinu“. En svo komu sjúkdómarnir yfir menn sem hegning fyrir að brjóta það næringarlögmál, sem mannlífinu er áskapað.

Menn geta lifað á dýrafæðu, ef þeir að hætti Eskimóa éta skepnuna alla, lítið eða ekki soðna. En á kjöti einu getur engin skepna lifað. Auk þess má ekki gleyma því, að Eskimóar eldast og hrörna fljótt og deyja á miðjum aldri. Og ekki hefir tekið betra við hjá þeim en öðrum eftir að þeir tóku upp tízkumatvæli menningarþjóðanna, því að þá urðu þeir að bráð öllum sömu hrörnunar- og menningarsjúkdómum og þær.

Rotnun fæðunnar
Kostir náttúrlegrar fæðu úr jurtaríkinu eru m.a. þeir, að hún rotnar ekki í innýflum manna eins og kjötfæðan. Þar við bætist, að þegar lifað er á svona fæðu, sitja matarleifarnar ekki lengur en einn sólarhring í innýflunum, og úrgangurinn tæmist út úr líkamanum 3 til 4 sinnum á dag, venjulega eftir hverja máltíð. Hægðirnar eru linar og lausar við allan óþef.

Öðru máli er að gegna um þá, sem lifa á venjulegri blandaðri fæðu. Þeir hafa sjaldan hægðir nema einu sinni á dag og ekki það. Fæðuleifarnar sitja dögum saman í ristlinum og rotna þar, svo að hægðirnar verða illa lyktandi og oft harðar. Rotnun í innýflum manna er, eins og annarsstaðar, uppleysingarstarfsemi rotnunargerla. Þegar dýr deyr, byrjar það að rotna. Jurtaleifar leysast líka í sundur, en þær rotna ekki. Í þeim verður gerð eða gerjun, þar sem gerjunarbakteríur eru að verki. Sú ein fæða, sem ekki rotnar, er hæfileg fyrir menn.

Við rotnun eggjahvíturíkra dýralíkama myndast margskonar tegundir eiturefna. Ef við neytum slíkrar fæðu, er óhjákvæmilegt, að þessi eiturefni myndist í ristlinum og berist inn í blóðið. Rándýrin eta aðeins lifandi dýravefi og byrja á innýflum, blóði og brytja beinin, en láta kjötið mæta afgangi. Meltingarfæri þeirra eru stutt, svo að tæming úrgangsefna er fyrir það gerð auðveldari, og auk þess eru rándýrin búin sérstökum varnarefnum gegn skaðlegum áhrifum rotnunarefnanna. En það eru einmitt þessi eiturefni m.a., sem talið er að dragi smátt og smátt á mörgum árum svo mjög úr lífsþrótti líkamsfrumanna, að krabbameinið nái fótfestu. Kjötneyzla gerir menn þreytta og þunglífa. Lifandi jurta- og ávaxtanæring fjörgar menn og gerir þá greindari og hugkvæmari.

Frumskilyrði góðrar heilsu má telja tvö. Í fyrsta lagi er það hreinleiki blóðsins. Við öll efnaskipti og störf líkamans myndast úrgangsefni, sem verka eins og eiturefni og þurfa því að tæmast út úr honum jafnóðum. Til þess að þetta geti gengið fljótt og vel, þurfa hreinsunartæki líkamans að vera í bezta lagi starfhæf. En þau eru: lungu, meltingarfæri, þar á meðal lifrin ekki síður en þarmarnir, nýrun og hörundið eða yfirhúð líkamans. Öll þessi líffæri taka við blóðeitrinu og öðrum ónothæfum efnum og losa líkamann við þau.

Í öðru lagi þarf að sjá líkamanum fyrir næringu, sem flytji honum öll þau efni, sem hann þarf á að halda til starfs og viðhalds, í réttum samböndum og hlutföllum. M.a. þarf að vera rétt hlutfall milli sýrugæfra og lútargæfra matvæla.

Í líkama manna verður að vera hæfilegt hlutfall milli sýru og lútar, ef fullkomin heilsa á að haldast. Til þess að þetta sé tryggt, þurfa 80% af fæðunni að vera lútargæf matvæli, en ekki nema 20% sýrugæf. En lútargæft er þvínær allt grænmeti, rótarávextir og trjáávextir, ber o.s.frv., og svo mjólkin. Hinsvegar eru kjöt, fiskur og egg mjög sýrugæf, baunir að nokkru leyti og kornmatur minna.

Nægilegt magn lútargæfra efna er nauðsynlegt skilyrði fyrir hreinsun eiturefna úr vefjum og blóði. Hin súru úrgangsefni valda m.a. þreytu, en lútargæfu efnin gera þau óvirk, þannig að þreytan hverfur fljótt. Og því er það, að menn sem lifa á rétt samsettri mjólkur- og jurtafæðu, þreytast miklu síður en aðrir, og þurfa styttri tíma til svefns og hvíldar.

Orsakir og afleiðingar
Í stað þess að nota þessi náttúrlegu ráð, reyna menn að eyða þreytunni, eða réttara sagt að fela hana, með neyzlu einhverra eiturtegunda, svo sem með kaffi, tóbaki og áfengi, kóka-kóla o.fl. Auðvitað er þetta bæði heimskulegt og hættulegt heilsu manna. En læknismenntuninni er nú svo háttað á þessari miklu vísindaöld, að flestir læknar láta þetta óátalið, og margir hverjir gera þeir lítið úr skaðsemi ýmissa þessara hættulegu nautnalyfja, sem eiga þó sinn þátt í mörgum menningarkvillum nútíðarinnar.

Læknar verja þriðjungi eða alltað helmingi ævi sinnar í nám og undirbúning undir starf sitt. Sjúkrahús eru byggð, sjúkir menn eru skornir upp, hellt í þá ókjörum af lyfjum. En þarna er aðalstarfinu varið til þess að bæta eða fela afleiðingar orsaka, sem annaðhvort eru óþekktar eða ekki um þær hirt. Með þessu má segja, að frekar séu ræktaðir en læknaðir sjúkdómar.

Fjöldi manna lætur ginnast til að sitja heil kvöld og nætur í drykkjukrám, sjúga og anda að sér eitruðu tóbakslofti og sötra eitraða drykki, auk þess sem þeir neyta dauðrar og kryddaðrar fæðu, sem engin skepna mundi líta við og engri skepnu væri talin boðleg. Lands- og bæjarstjórnir ganga á undan og gefa fordæmið. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“. Þarna er sóað fé, og þó meir því, sem öllu fé er dýrmætara, heilsunni.

„Vér eigum ekki í höggi við sjúkdóma, heldur við rangar lífsvenjur. Útrýmið hinum röngu lífsvenjum, og sjúkdómarnir munu hverfa af sjálfu sér“.

Heilsuleysi menningarþjóðanna og vaxandi hrörnun er engin tilviljun, heldur beinar afleiðingar rangra lifnaðarhátta, rangrar, ónáttúrlegrar og dauðrar fæðu, of lítillar hreyfingar og útilokunar frá hreinu lofti og sól. Allt er þetta í andstöðu við lögmál lífsins, lögmál náttúrunnar, lögmál guðdómsins.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi