Kaffibollinn – Pistill frá Gurrý

Fyrsti kaffibolli dagsins er himneskur. Maður finnur hvernig heitur og ljúffengur vökvinn rennur niður í maga og þaðan streymir ylurinn út í alla afkima líkamans, ásamt meðfylgjandi orkuinnspýtingu.  Heilastarfsemin tekur heldur betur við sér og allir vegir eru færir, ekkert er ómögulegt. Það mætti halda að verið væri að lýsa einhvers konar eiturlyfjanotkun en kaffi er ekki flokkað sem fíkniefni, þótt margir séu örugglega háðir kaffi, meðal annars undirrituð.
Kaffifíkn er tiltölulega sakleysisleg, samanborið við aðrar fíknir. Engar haldbærar sannanir eru til dæmis til fyrir því að kaffi dragi úr hæfni fólks til að stýra ökutæki eða framkvæma flóknar aðgerðir. Þvert á móti er það almennt viðurkennt að kaffi hressi mann við, bæti einbeitingu og hjálpi manni við að halda sér vakandi, þegar mikið liggur við. Vísindalegar sannanir fyrir þessum almannasannleik eru hins vegar misvísandi og sumar þeirra afsanna jafnvel fyrrgreindar fullyrðingar þannig að ég, eins og annað kaffidrykkjufólk, leiði þær algerlega hjá mér.  Hafa skal það sem þægilegra reynist.

Kaffi er ættað frá Afríku og Arabíu og hefur breiðst þaðan út um heiminn. Kaffirunninn getur orðið allt að 5 m hár og er ákaflega blaðfallegur, með stór dökkgræn og gljáandi laufblöð. Blómin eru frekar lítil, hvít og ilma örlítið og þau raða sér upp eftir greinum plöntunnar. Kaffialdinin eru á stærð við vínber, þegar þau hafa náð fullri stærð.  Þau eru græn í fyrstu en þegar þau þroskast verða þau ýmist skærgul eða rauð á litinn. Inni í hverju aldini eru tvær kaffibaunir og eru þær umluktar glærhvítum slímkenndum vef, sem er frekar sætur á bragðið. Ferskar kaffibaunir hafa alls ekkert kaffibragð, bragðið minnir frekar á venjulegar baunir.  Berin þroskast hægt og getur tekið þau á bilinu 6-10 mánuði að ná fullum þroska. Þegar berin eru þroskuð eru þau tínd af runnanum og ýmist þurrkuð eða látin gerjast, til að ná aldinkjötinu utan af kaffibaununum.  Svo eru baunirnar þurrkaðar vel og himna, sem er utan um hverja baun, fjarlægð.  Þá er hægt að fara að rista baunirnar og þar er ekki fyrr en á þessu stigi málsins sem hið eiginlega kaffibragð kemur fram. 

Stundum veltir maður þó fyrir sér hverjum datt það eiginlega í hug að búa til kaffi. Þessi ferill frá aldini á runna í ilmandi kaffidrykk er flókinn og engan veginn augljós.  Sjálfsagt fer mörgum sögum af því hvernig þessi drykkur komst í umferð en ein sagan er sú að arabískur höfðingi í hafnarborginni Mokka í Jemen, Sjeik Ómar, sem var helst frægur fyrir það að geta læknað sjúka með bænum sínum, var gerður útlægur úr borginni og rekinn út í eyðimörkina. Ekki er fyllilega ljóst fyrir hvaða sakir hann var rekinn úr borginni en hann settist að í helli og fljótlega fór hungur að sverfa að.  Í runnaþykkni, ekki langt frá hellinum, fann hann ber á nokkrum runnum og lagði sér þau til munns.  Berin voru beisk á bragðið þannig að hann prófaði rista fræin yfir eldi til að reyna að bæta bragðið. Við ristunina urðu fræin aftur á móti grjóthörð og óþægileg til átu.  Þá skellti hann þeim í pott með vatni og sauð þau til að reyna að mýkja þau. Fræin bötnuðu nú lítið við þessa meðferð en vökvinn sem þau voru soðin í varð dökkleitur og ilmandi.  Ómar drakk vökvann og áttaði sig á því að hann sló á mestu hungurtilfinninguna og hann hresstist til muna. Vegfarendur sem urðu vitni að því hvernig Ómar var hinn hressasti, þrátt fyrir eymdarlega tilveru í hellinum, sögðu frá þessum undrum og stórmerkjum í heimaborg Ómars. Var hann þá snarlega beðinn að flytja heim aftur og jafnframt settur í dýrlingatölu. Hafnarborgin Mokka varð svo meginútflutningshöfn kaffis í heiminum á 15. öld.
Til gamans má geta þess að mokkakaffibaunirnar, sem upprunnar eru frá þessu svæði á Arabíuskaganum, eru taldar hafa dálítinn súkkulaðikeim. Seinna meir fundu framtakssamir drykkjumenn upp á því að blanda dálitlu af súkkulaði saman við venjulegt kaffi og fá þannig fram mokkakaffikeiminn sem margir eru hrifnir af.

Kaffidrykkja Íslendinga er líklega með því mesta sem gerist í heiminum og erum við þar í hópi með Norðurlöndunum og Hollandi.  Kannski er þessi mikla kaffidrykkja að hluta til komin til vegna ýmissa siðvenja sem við höfum komið okkur upp. Það er sjálfsögð kurteisi að bjóða gestum upp á kaffi þegar þá ber að garði og að sama skapi er það sjálfsögð kurteisi að þiggja kaffi þegar manni er boðið það.  Ef gesturinn afþakkar kaffi þarf hann að hafa mjög góða ástæðu fyrir því, ein af þessum viðurkenndu afsökunum er að hann sé nýbúinn að sporðrenna nokkrum kaffibollum annars staðar. Önnur ástæða mikillar kaffidrykkju er svo ávani og ég verð að flokka sjálfa mig í þennan flokk. Ég vil kaffið ómengað og heitt sem gerir það að verkum að ef það kólnar í bollanum missi ég umsvifalaust áhugann á því að drekka það. Þá legg ég bollann frá mér og snýr mér að öðru.  Svo rammt kveður að þessum ósið mínum að finna má kaffibolla, hálffulla af köldu kaffi hér og þar á þeim slóðum sem ég hef farið um. Samstarfsfólk hefur sýnt þessu nokkuð umburðarlyndi, brosað góðlátlega og gert grín að þessu en þó hef ég fengið vinsamlegar ábendingar um að passa betur upp á bollana. Lengi vel hellti ég mér aldrei upp á kaffi heima um helgar og skildi ekkert í því hvers vegna ég var allt í einu farin að fá hausverk um helgar. Góður vinur minn benti mér þá á að þetta væru algengustu fráhvarfseinkenni kaffidrykkju og nú væri tvennt í stöðunni, að hætta alfarið að drekka kaffi eða hella upp á heima við. Ég kaus seinni kostinn, nánast umhugsunarlaust en hef einstaka sinnum velt því fyrir mér hvort fyrri kosturinn hefði ekki verið skynsamlegri, ég hef heyrt um fólk sem lifir góðu lífi kaffilaust.

Miðað við magn kaffidrykkju Íslendinga mætti ætla að hér væru kaffiakrar á hverjum bæ en í raun er kaffiræktun í mjög smáum stíl hérlendis. Hugsanlega er Garðyrkjuskólinn á Reykjum, sem er hluti af Landbúnaðarháskóla Íslands, einn stærsti kaffiframleiðandi landsins en uppskeran í gróðurhúsi okkar var um 5 kg af aldinum árið 2014. Kaffið var sérlega ljúffengt enda er heimaræktað alltaf best. Uppskeran 2015 var óveruleg en það stefnir í meðaluppskeru á næsta ári. Þangað til held ég mig við það búðakeypta og velti því kannski fyrir mér af og til hvort til sé líf eftir kaffi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og kaffidrykkjumanneskja

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur