Til skýringar á því, sem hér er nefnt;lífræn ræktunaraðferð, er lesandinn vinsamlega beðinn að kynna sér það, sem um hana er sagt í grein um heimsókn höfundar til Íslands á öðrum stað hér í heftinu. Ritstj.
Á fyrirlestraferð minni á Íslandi haustið 1964 var mér sagt, að einhver hefði deilt á hinar lífrænu ræktunaraðferðir í ríkisútvarpinu á þann hátt, að bersýnilegt var, að sá er það gerði, hafði ekki kynnt sér, í hverju þær voru fólgnar. Eg vil taka það fram, að á Norðurlöndum eru lærðir efnafræðingar og jarðvegsfræðingar ráðunautar í lífrænum ræktunaraðferðum, og þar er tilbúnum áburði á engan hátt hafnað með öllu. Garðyrkjumönnum okkar er það fyllilega ljóst, að við ræktun aðfluttra matjurta í framandi jarðvegi og loftslagi geta þær þurft aukreitis á vissum steinefnum að halda í einhverri mynd, ef þær eiga að geta gefið fullnægjandi uppskeru. En það sem skilur á milli lífrænu ræktunarinnar og hinnar venjulegu, er aðferðin, sem notuð er til að flytja jurtunum þessi áburðarefni.
Þegar við dreifum tilbúnum áburði yfir tún, akra eða garða, erum við að næra jurtirnar á svipaðan hátt og þegar mönnum er gefin næring í æð í stað þess að láta fæðuna ganga gegnum meltingarfæri þeirra. Þetta er hægt, um stundarsakir. Og séu meltingarfærin biluð eða óstarfhæf, er þetta tilvalin aðferð til bráðabirgða. Eg ætlast ekki til, að allir lærðir jarðræktarfræðingar fallist á mín sjónarmið, og sízt af öllu þeir, sem trúa því, sem haldið var fram í útvarpinu, að "næringarlega séð innihaldi lífrænn áburður ekkert, sem ekki sé hægt að gera jafn vel og betur með tilbúnum áburði. Eg hygg, að þeir sem stunda ræktun í atvinnuskyni og aðrir þeir, er hafa til að bera heilbrigða skynsemi óbrenglaða af fræðilegum kennisetningum, skilji hvað eg á við.
Öll jarðrækt byggist á gerjun, sagði eitt sinn þekktur finnskur jarðyrkjufræðingur. En hvað gerist við gerjun? Tökum alþekkt dæmi, ostinn. Ostagerð hlaut að;uppgötvast, því að mjólkin sækist blátt áfram eftir því að verða að osti. Hún "ystir sjálfkrafa. En þennan eiginleika hennar er hægt að eyðileggja með óheppilegu fóðri. Þannig má ekki fóðra kýrnar með kemiskt sýrðu fóðri, ef framleiða skal fína danska sérosta, og mjólk frá kúm, sem hafa fengið súlfalyf eða penísillín, er ekki hæf til ostagerðar. Osturinn getur orðið að úldnu illa lyktandi mauki. Margar tegundir gerla geta náð yfirhöndinni í mjólk og valdið margvíslegri súrmjólkurgerjun, eins og t.d. þegar hið ljúffenga skyr er búið til. En stundum verður mjólkin blásúr, og stundum myndast í henni edikssýra og jafnvel áfengi við gerjunina, og bóndinn varast eins og heitan eldinn að gefa grísum slíka mjólk, sem getur jafnvel leitt þá til dauða. Menn kunna betur að ala húsdýr sín en börn. Edik getur verið gott til útvortis notkunar, en sem fæða er það skaðlegt.
Ostagerðin er einskonar meltingarstarfsemi utan magans, fólgin í niðurbroti vissra efnasambanda, og auðveldar það hlutverk meltingarfæranna. Við gerjunina geta myndazt fjörefni, m.a. B-fjörefnin. Þetta gerist líka í safnhauginum. Þar fer fram ekki einasta gerjun og niðurbrot, heldur jafnframt uppbygging nýrra efnasambanda, ekki hvað sízt þegar notuð er mykja í safnhauginn. Þessu geta fullkomnustu verksmiðjur ekki líkt eftir, því að lífrænn áburður er annað og meira en nokkur gerviefni. Í safnhauginum fer fram lífrænt starf, þar tímgast milljónir gerla jarðvegi og gróðurmold vinveittir. Skyr er líka meiri háttar gerlarækt. En það inniheldur að sjálfsögðu einnig efni eins og eggjahvítuefni, mjólkursykur og steinefni.
Með hjálp flugvélanna er hægt að snæða morgunverð í Reykjavík, hádegisverð í Kaupmannahöfn og kvöldverð í Kairo. Víst er þetta stórfenglegt. En það þarf ekki að fara út fyrir Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði til að fá allar þessar máltíðir. Það er hægt að framleiða jurtaáburð eins og t.d. köfnunarefnisáburð með flóknum og dýrum vélum. En hvaða ástæða er til þess, ef bóndinn getur aflað allra þessara efna við bæjarvegginn? Það kostar bóndann að vísu meiri vinnu að setja upp safnhaug heldur en að láta bæjarlækinn hirða húsdýraáburðinn. En á móti kemur m.a. vinnusparnaður við útrýmingu sjúkdóma og sníkjudýra, sem sækja líka í lyktsterkan ógerjaðan eða illa gerjaðan áburð.
Safnhaugurinn er lífræn heild, og sé hann þakinn þunnu moldarlagi, myndar það einskonar;húð. Nokkur efnasambönd, sem unnin eru úr ákveðnum lækningajurtum eftir ábendingum frá dr. Rudolf Steiner, eru sett í hauginn í því skyni að örva efnabreytingarnar, sem þar fara fram, m.a. í sambandi við steinefni eins og kalí, fosfór og járn, og mætti líkja áhrifum þessara efnasambanda við verkanir innkirtla mannslíkamans. Virðast þau stuðla að auknum gæðum uppskerunnar miðað við annan safnhaugaáburð.
Með lífrænum ræktunaraðferðum er að því stefnt, að hver búgarður verði sjálfum sér nógur um áburð og fóður. Eftir 30 ára reynslu á Norðurlöndum er hægt að fullyrða, að þrátt fyrir óblítt loftslag er þetta einnig framkvæmanlegt þar. Og árangurinn, sem lýsir sér í heilbrigði jarðvegs, jurta, dýra og manna á þessum stöðum, er veigameiri röksemd en skýrslur og efnagreiningar vísindamanna. Reynslan er ólýgnust. Hún sýnir einnig, að ofangreind efnasambönd, sem sett eru í safnhaugana, hafa þeim mun meiri áhrif sem norðar dregur.
Safnhaugagerð var þekkt löngu áður en dr. Steiner setti fram hugmyndir sínar um lífræna ræktun. Rétt gerður safnhaugaáburður gæðir jarðveginn lífi. Tilbúinn áburður verkar öfugt, nema honum sé áður blandað í safnhaug og látinn taka þátt í því lífræna starfi, sem þar fer fram. Hvítur sykur flytur líkamanum orku, en hann er óheppileg næring til lengdar, þar sem hann er sviptur þeim lífrænu efnasamböndum, sem hann er tengdur í náttúrlegum matvælum.
Öll jarðrækt er gerjun. Maðurinn er afsprengi þessarar gerjunarstarfsemi, og vandinn er sá að örva hana og beina henni inn á réttar brautir í þjónustu mannlífsins og sannrar mannræktar. Tilbúinn áburður er lærdómur, en lífrænn áburður er menning, og það gerir gæfumuninn.