Vetrardekk

Gamli trausti gulllitaði citroen bíllinn minn, kallaður gullbíllinn af fjölskyldumeðlimum, hefur nú fengið hvíld eftir 12 ára dygga þjónustu.  Hann flutti mig og eftir atvikum fjölskylduna milli staða í alls konar veðrum og fjölbreyttri færð, rúmgóður og bjartur, klassísk frönsk hönnun, eðalbíll í alla staði.  Á tólfta ári fór þó gullbíllinn að daprast. Einn daginn fann ég til dæmis að kúplingin var orðin eitthvað losaraleg, svo var farþegahurðin að framan frekar stíf og erfitt að opna hana auk þess sem ýmiss konar ljós áttu það til að kvikna í mælaborðinu, með tilviljanakenndum hætti. Ég er almennt mjög hrifin af ljósadýrð og vil gjarnan hafa ljós í fjölbreyttum litum í umhverfinu, sérstaklega þegar nær dregur jólum en mér skilst að ljós í mælaborðum bíla þurfi að taka alvarlega.  Þannig vakti gula vélarljósið, ásamt textanum ,,engine failure“ til dæmis nokkra skelfingu, auk þess sem rautt olíuljós kviknaði með sífellt minnkandi millibili.  Gullbíllinn fékk yfirleitt viðeigandi aðhlynningu í kjölfar þessara ljósaæfinga en enginn sigrar elli kerlingu, ekki einu sinni franskir eðalbílar.

Við hjónin ákváðum því að kaupa okkur nýjan bíl í stað gamla gullbílsins.  Aftur varð franskur eðalbíll fyrir valinu, nú hárauður að lit.  Það tók nokkra daga að venjast nýja bílnum og allri þeirri tækni sem hefur litið dagsins ljós síðan gamli gullbíllinn var framleiddur.  Sjálfvirku rúðuþurrkurnar eru algjör draumur, að ekki sé talað um handfrjálsa símabúnaðinn sem notaður er óspart á lengri ferðalögum.  Lyktin í nýja bílnum hefur verið flokkuð sem nýjubílalykt á mínu heimili, sjálfsagt vita flestir hvað við er átt því nefið er nú einu sinni eitt sterkasta skynfærið okkar.  Mesti munurinn er þó að nýi bíllinn er nýr, gullbíllinn var orðinn frekar lúinn og þreyttur.

Á hverjum degi sæki ég vinnu yfir Hellisheiði og þá skiptir máli að vera vel búinn allt árið.  Ég hef því verið á leiðinni það sem af lifir hausti að fá mér almennileg vetrardekk.  Sem betur fer hefur haustið verið milt og gott en þó fór svo að lokum að veturinn mætti til leiks áður en dekkin náðu undir nýja bílinn.  Fyrsta hálkudaginn fór ég að heiman og áttaði mig á því að nú væri sniðugt að skella sér á dekkjaverkstæði og fá ný dekk.  Ég renndi því í nærliggjandi hverfi þar sem fjöldi bílaverkstæða er starfræktur og uppgötvaði þá að fleiri voru í sömu spörum og ég.  Reyndar fannst mér eins og allt höfuðborgarsvæðið væri í sömu sporum því fleiri tugir bíla voru í óskipulögðum biðröðum fyrir framan hvert einasta dekkjaverkstæði hverfisins.  Ég ákvað því að bíða með dekkjaskiptin þann daginn því vinnan kallaði.  Næsta dag fór allt á sömu leið enda færðist nú vetrarharkan í aukana með verulega hvetjandi áhrifum á hálku í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins.  Þá var næst í stöðunni að kanna hvort ekki væri hægt að leita til sunnlenskra dekkjaverkstæða í þeirri von að þar væru biðraðirnar eitthvað styttri.  Ég náði sambandi við elskulegan mann á einu slíku og hann ráðlagði mér að koma eldsnemma næsta morgun, þá gæti hann bjargað málum fyrir mig.

Dekkjaskiptadagurinn rann upp með alhvítri jörð og sannkallaðri jólastemningu í hverfinu hjá mér, allur trjágróður í hvítum jólabúningi og snjóþekja á götum.  Mér leist nú ekki meira en svo á að halda á fjallveg á sumardekkjunum en beit á jaxlinn og ók af stað og tók þann pól í hæðina að ef ég laumaðist hægt og rólega yfir heiðina myndi hálkan hreinlega ekki taka eftir mér.  Vel fyrir klukkan átta renndi ég svo í hlað á dekkjaverkstæðinu, bæði ég og bíllinn heil á húfi eftir ferðalagið.  Ég lagði bílnum og gekk í áttina að afgreiðslunni.  Í því bar að útfararstjóra á líkbíl, hann snaraði sér inn bakdyramegin enda er hann örugglega með forgangshrað á þjónustu við sinn bíl, það gengur varla að sitja fastur í hálku í síðasta bíltúrnum hérna megin.  Við innganginn stóð þó nokkur hópur fólks og barði sér til hita.  Ég bauð fólkinu góðan dag og spurði vinalegan náunga hvort hann væri búinn að bíða lengi. ,,Já, ég kom hingað í gærkvöld, var bara að pakka saman tjaldinu rétt í þessu“ svaraði maðurinn og glotti við tönn.  Upp úr þessu létta spjalli skapaðist ákaflega notaleg stemning og mikil samkennd í þessum sundurleita hópi sem átti kannski það eitt sameiginlegt að hafa látið veturinn grípa sig í bólinu.  Loks opnaði verkstæðið og þreytulegur afgreiðslumaður afgreiddi hvern og einn í röðinni með því að spyrja hvort hann vildi bíða eða fara.  Ég kaus að bíða og var þá vísað í notalega setustofu með funheitu kaffi og glænýjum dagblöðum.  Því miður náði ég ekki að renna yfir nema hálft dagblað áður en röðin kom að mér.  Ungur maður sá svo um að skella glænýju vetrardekkjunum undir nýja bílinn minn.

Nú ek ég yfir fjallvegi eins og ekkert sé, vel búin til vetrarferða, á glænýjum bíl og á glænýjum dekkjum.  Nú eru mér allir vegir færir.

Guðríður Helgadóttir, ökuþór

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur