Til bágborinnar skammar!

,,Þetta er til bágborinnar skammar!“ hrópaði maðurinn fullur vandlætingar og reiðilegur á svip, um leið og hann steytti hnefann í áttina að áheyrendum til að leggja enn frekari áherslu á mál sitt. Það kom honum því verulega í opna skjöldu að í stað þess að uppskera hluttekningu og jákvæðar undirtektir við yfirlýsingunni brast áheyrendahópurinn í skellihlátur með bakföllum og andköfum enda meginuppistaða hópsins af pabbabrandarakynslóðinni sem elskar ambögur hvers konar og útúrsnúninga í orðfæri. Hvor skömmin ætli sé þó verri, sú háborna eða sú bágborna? Mér kemur þetta atvik oft í hug og aðallega þegar síst skyldi og nú síðast þegar ég stóð við stofugluggann heima hjá mér í Kópavogi og fylgdist með mann- og dýralífi í uppsveitum Kópavogs.

Krakkinn, sem er alltaf einn að róla sér í rólu á leikvelli í brekkunni fyrir neðan húsið, var mættur á sinn stað eins og ævinlega á þessum tíma. Ég er farin að hafa áhyggjur af því að hann eigi enga vini og sendi honum því hlýja strauma í hvert skipti sem ég sé til hans í rólunni. Nokkur börn voru mætt á trampólínið í næsta húsi, marrið og ískrið í trampólíngormunum er samofið sumrinu og ekki síðri vorboði en lóan. Þau hoppuðu án afláts og sennilega væri hægt að knýja nokkur bæjarfélög ef einhver fyndi leið til að virkja þá orku sem fer í allt þetta hopp. Smávaxin og nett kona með risastóran hund stöldruðu við hjá steinahrúgu og á meðan hundurinn sinnti kalli náttúrunnar gerði konan nokkrar teygjuæfingar sem gáfu til kynna að þarna væri fimleikadrottning eða jógagúrú á ferð. Þetta var nú allt saman frekar hefðbundið en það sem fangaði athyglina að lokum var svartur köttur.

Svarti kötturinn var með litríka ól um hálsinn og með því að leggja við eyrun mátti heyra klukknahljóm þegar kötturinn hreyfði sig. Kötturinn virtist ekkert sérlega ánægður með þetta skrautlega hálstau þótt ekki væri hægt að merkja á honum að hann kippti sér upp við það að hljóma eins og jólaauglýsing. Hann hristi höfuðið ákveðið af og til, eins og hann væri að reyna að hrista óskapnaðinn af sér en án árangurs, ólin haggaðist ekki. Þá tók kisi það til bragðs að leggja höfuðið niður við jörðu og spyrna sér niður litla brekku með höfuðið á undan. Eftir nokkrar tilraunir af þessu tagi var greinilegt að þessi aðferð skilaði ekki árangri. Hann fór því efst í litlu brekkuna, lagði höfuðið aftur við jörðina og fór niður brekkuna en nú með búkinn á undan og dró höfuðið á eftir sér. Þvílík hugvitsemi! Þetta hlýtur að vera ljóngáfaður köttur þótt ekki væru aðfarirnar eins þokkafullar og hjá fimleikadrottningunni ofar í pistlinum. Ólin færðist upp undir kjálka og upp að eyrum en sá sem festi ólina hefur augljóslega verið fagmaður því ekki tókst kettinum að smeygja ólinni upp yfir höfuð sér í þessari atrennu. Að lokum gafst hann upp á æfingunum og hvarf á braut.

Nokkrum dögum síðar mætti ég kisa þar sem hann gekk niðurlútur og dapur á svip meðfram húsinu, enn með ólina um hálsinn. Úr augum hans las ég að þarna væri hámarki niðurlægingarinnar náð. Eða ætli lágmark niðurlægingarinnar sé enn neðar?

Guðríður Helgadóttir, atferlisáhugamaður

Related posts

Að vökva lífsblómið

Músagangur

Gráni greyið