Skyggni og skafarar

Þegar fram líða stundir munu sagnfræðingar horfa til ársins 2018 og undrast að Sunnlendingar á Íslandi hafi ekki orðið fyrir meiri skaða en raun ber vitni af langvarandi ömurlega leiðinlegu veðurfari.  Rok og rigning nánast allt árið og þessir sárafáu sólardagar sem brutu upp grámóskuna og drungann voru yfirleitt mánudagar, þegar fólk þarf að fara til vinnu, getur ekki verið úti í sólbaði, enda hefur hitastigið þessa daga örugglega ekki náð tveggja stafa tölu.  Pollagallasala hefur örugglega gengið jafn vel og salan á hallagölluðu pönnukökupönnunum um daginn, stígvél orðin hátískuvara, hárgreiðslan ,,blautur köttur” í miklu meira framboði en eftirspurn, rauð jól og rósarunnar farnir að bruma í hlýindunum.

Loks rann upp nýtt ár, 2019 og ég verð að viðurkenna að mér leist ekki á blikuna.  Fyrstu dagar ársins einkenndust af mildu rigningarveðri og svartaþoku á Hellisheiði, reyndar svo mikilli þoku að hún skákaði harðsvírasta skafrenningi hvað skyggni varðar, svo þykk þoka að tvo morgna í röð taldi ég að Hveragerði hefði hreinlega verið numin brott af geimverum eða verið tekin úr sambandi við dreifikerfi rafmagns því það örlaði ekki á bjarma frá bænum fyrr en ég var komin alveg upp að gróðurhúsunum við Suðurlandsveginn.  Rétt er að taka fram að ég á nokkuð reglulega leið yfir í Ölfusið og tel mig þekkja leiðina frekar vel.  Það var því mjög skringileg upplifun að sjá ekki hlýlegan bjarmann af gróðurhúsalýsingunni í Hveragerði bjóða mann velkominn yfir heiðina, ylja um hjartarætur, gefa fyrirheit um glænýtt grænmeti eða ís í sjoppunni.  Sem betur fer var allt á sínum stað enda höfðu ljósastaurarnir við gatnamótin staðið vörð um bæinn sinn, lýst upp þokuna, vísað veginn á réttan stað, kannski vonað að einhver ætti leið hjá og sæi hvað þeir hefðu staðið sig vel.  Nokkrum dögum síðar er eins og veðurguðirnir hafi farið í tiltekt heima hjá sér, komist að þeirri niðurstöðu að farið sé að slá í þetta óendanlega haust og ákveðið að skella á almennilegum vetri.  Þannig fórum við úr langvarandi rigningu og roki yfir í brunagadd og alhvíta jörð.

Loksins er komin árstíð á nokkurn veginn réttum tíma, vetur á fyrirfram skilgreindum vetrarmánuðum.  Honum fylgja hinir venjulegu góðkunningjar, snjókoma, jafnvel fannfergi, blindbylur og skafrenningur og síðast en alls ekki síst, skafararnir.  Skafararnir eru hetjur vetrarfærðarinnar, snillingarnir sem sjá um að halda Hellisheiðinni og öðrum torfærum vegum á hálendi og láglendi opnum með öllum tiltækum ráðum, svo sem því að salta, skafa, moka, ryðja, hreinsa og almennt að redda málum.  Ég velti því stundum fyrir mér hvar skafararnir eru geymdir á greiðfærari árstíðum.  Er Vegagerðin  með stóra skápa fulla af sköfurum og hleypir þeim út þegar syrtir í álinn, þegar skefur í skafla, þegar fennir í öll skjól?  Sama hvar þeir bíða af sér blíðuna, þeir eru alltaf jafn velkomnir til starfa þegar skyldan kallar.

Í fyrravetur var nokkuð snjóþungt á Hellisheiði og ærin verkefni fyrir iðna skafara dögum saman.  Á sólríkum og frostköldum vetrarmorgni átti ég leið einu sinni sem oftast austur í Ölfusið.  Snjórinn var svo hvítur, himininn svo blár, sólin svo skær, vegurinn svo greiðfær að ég fann að mig verkjaði aðeins í kinnarnar af brosinu sem var sem límt á andlitið á mér.  Dýrðardagur og hann átti bara eftir að batna.  Á miðri heiðinni tók ég eftir því að verið var að hreinsa snjó úr vegkantinum og ég fylltist djúpstæðri aðdáun yfir því hversu liðlega stýrimaðurinn á snjóhreinsitækinu vann vinnuna sína.  Hann vatt risastórri vélinni lipurlega inn á milli örmjórra vegstikanna, straukst hreinlega upp við þær án þess að koma þó við þær og hreinsaði frá þeim snjó með sams konar nákvæmni og natni og garðyrkjumaður með priklupinna eða skurðlæknir með hníf.  Rétt um það leyti sem ég ók hjá hvörfluðu augu mín upp að stýrishúsi vélarinnar og þá sá ég að maðurinn var ber að ofan.  Um hábjartan vetrardag á miðri Hellisheiðinni, í ríflega 350 m hæð yfir sjávarmáli, í fimbulkulda.  Mér varð svo hverft við að ég var nærri búin að kynna nýja rauða bílinn minn fyrir víravirkinu á miðjum veginum en tókst að afstýra þeirri kynningu  með eldsnöggum og hárréttum viðbrögðum.  Svo flugu alls konar hugsanir í gegnum kollinn á mér. Ætli maðurinn hafi ekki efni á að kaupa sér vetrargalla?  Ætli vinnufélagar hans hafi falið skyrtuna hans í hádegishléinu og hann því orðið að mæta ber að ofan í vinnuna?  Ætli hann hafi gleymt fötunum sínum í skafaraskápnum þegar hann mætti í vetrarvinnuna? Ætli honum hafi kannski bara verið mjög heitt?  Þá rifjaðist upp fyrir mér sagan af bóndanum sem kom arkandi í stígvélunum sínum yfir rennandi blautt drullusvað, gekk rakleiðis upp að nýja traktornum sínum, steig upp úr stígvélunum og inn í stýrishúsið (sem minnir helst á stjórnklefa geimskips eða brú í meðalstóru flutningaskipi) og ók af stað.  Eftir stóðu áhorfendur og stígvélin í forundran.  Ætli fáklæddi skafarinn hafi líka verið berfættur?

Eins og margar aðrar konur tel ég mig hafa mjög næmt og listrænt auga fyrir karlmannlegri fegurð og hef ég nú fengið það staðfest að þetta næma auga virkar fullkomlega á um 70 km hraða á klukkustund.  Það sem eftir lifði síðasta vetrar var þessu næma auga beint að öllum skaftækjum Hellisheiðarinnar án árangurs.  Svo hvarf snjórinn, rigningin tók við og skafararnir skruppu frá allt þar til veturinn skall á snemma í janúar.  Nú hef ég ekið í vinnuna daglega í mánuð og grandskoðað hvert einasta vegavinnutæki og niðurstaðan er á einn veg:  Allir skafararnir eru kappklæddir.

 

 

 

 

 

 

 

 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og listunnandi

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur