Skafrenningur

,,Algengasti skafrenningur á Íslandi er lágarenningur“ fullyrti maður nokkur við nemendur í garðyrkju fyrir nokkrum árum. Þessi maður hafði verið fenginn til að flytja erindi um garðyrkjutengt efni sem hann var sérfróður um en einhverra hluta vegna leiddist umræðan út í snjókomu, skafrenning og almenna vetrarfærð á vegum.  Mér detta stundum í hug orð þessa manns þegar ég ek yfir Hellisheiðina að vetrarlagi og lágarenningurinn gleður mig með nærveru sinni, allt um kring.

Skafrenningur er frábært orð, svo lýsandi fyrir snjó á hraðferð, snjó sem kýs að bíða ekki ævina af sér í skafli heldur leggur af stað á vit ævintýranna, ferðast langar leiðir um fjölbreytt landslag, veldur kannski ófærð, hefur áhrif á líf fólks um lengri eða skemmri tíma, sest svo að í skjóli og verður á endanum sól og hita að bráð.  Kannski eru það heppnu snjókornin sem komast á skrið, ná að ferðast um, eru ekki nógu þung á sér til að lenda strax í skaflinum, hin snjókornin sem féllu til jarðar á endanlegan áfangastað og sameinuðust öðrum kornum í skafli voru kannski ekki eins lánsöm, fengu aldrei að skoða heiminn, sátu föst, breyttust í svellbunka, ofurseld örlögum sínum.

Það að til sé orð yfir lágarenning gefur í skyn að til séu margar gerðir af skafrenningi, hver og ein með ákveðin sérkenni.  Þó kann ég ekki að nefna fleiri gerðir en hef kannski heyrt þær nefndar einhvern tíma.  Á daglegum ferðum mínum yfir Hellisheiði hef ég kynnst ýmsum útgáfum af skafrenningi, misskemmtilegum.  Leiðinlegasti skafrenningurinn er án efa sá sem byrgir alla sýn, nær langt upp fyrir bílinn, lokar fyrir allt útsýni og ruglar mann alveg í rýminu.  Við slík skilyrði missir maður alveg áttir og heldur jafnvel að bíllinn standi kyrr eða færist aftur á bak, það eina sem gefur til kynna að maður sé á leið áfram er staðsetning gírstangar og hugsanlega jákvæðar tölur á kílómetramælinum.  Það hefur jafnvel komið fyrir að fólk hafi stigið út úr bíl á ferð í svona skafrenningi, til þess eins að uppgötva skyndilega að kyrrstaðan var ofmetin.

Vegstikur eru lífnauðsynlegar við vetrarakstur á Íslandi.  Þessi guli heiðursvörður vegarins stendur vaktina nótt sem dag, allt árið, hvernig sem viðrar, í þráðbeinni röð með hnífjöfnu millibili, ávallt viðbúinn að vísa manni leiðina heim, lýsist upp í endurskini bílljósanna og minnir þannig á sig.  Þegar maður ferðast mikið um þjóðvegi landsins þróar maður með sér ákveðið tilfinningasamband við stikurnar, þær hafa svo trygga og góða nærveru og eru á stundum mjög vanmetnar. Þeim til heiðurs myndi ég til dæmis frekar vilja tala um skyggni í fjölda stika frekar en hundruðum metra.  Þannig var einungis um þriggja stiku skyggni þegar ég renndi yfir heiðina í blindhríð og skafrenningi um daginn og fór jafnvel niður í eina og hálfa stiku þegar verst lét (það er þegar maður sér eina stiku nokkuð greinilega og telur sig hugsanlega geta grillt í þá næstu, skrifast kannski á ímyndunaraflið).  Þegar skyggnið er komið niður fyrir eina stiku er illt í efni, þá er eins gott að hægja ferðina og fara varlega, við svoleiðis skilyrði hafa menn jafnvel ruglast og tekið beygju í átt að næstu stiku sem birtist og enda jafnvel út af veginum, fastir í skafli með óheppnu snjókornunum.  Verst er þegar stóru snjóskafararnir ráða sér ekki fyrir kæti í snjómokstrinum, sést ekki fyrir og hrífa með sér stiku og stiku á stangli, brjóta þær af undirstöðunni, þeyta þeim út í móa.  Þá minnir heiðursvörðurinn frekar á krakka á tanntökualdrinum, með skörð í röðunum.  Endurskinsmerki fallinna félaga glitra úti í móanum og geta sett óaðgætna ökumenn út af sporinu, ekki síst í skafrenningi.

Þegar þessi pistill er skrifaður er ég nýkomin heim eftir hressilega heiðarferð, skafrenningur af ýmsum gerðum alla leiðina, gul stormviðvörun í kortunum og allt útlit fyrir að heiðinni verði lokað fljótlega.  Ég lagði tímanlega af stað til að sleppa við að sitja föst í skafli á leiðinni, ók varlega í 2-3 stika skyggni og komst heilu og höldnu heim.  Hér og þar var þæfingur á veginum og greinilegt að skafararnir höfðu í nógu að snúast.  Á stöku stað voru bílar í vegkantinum, einhverjir höfðu greinilega staðið þar um hríð því skaflar höfðu safnast við þá hlémegin, einn bíll var töluvert langt fyrir utan veg, nokkuð laskaður á hliðinni en gulur lögregluborði utan um hann benti til þess að búið væri að sinna þessu óhappi, vonandi urðu ekki slys á fólki.  Eftir að heim var komið sannfærðist ég í þeirri trú minni að langskemmtilegasti skafrenningurinn er sá sem maður horfir á út um gluggann heima hjá sér, inni í hlýjunni, vitandi það að allir í fjölskyldunni eru komnir í hús og enginn þarf að fara út í veðrið.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur

1 Ummæli

Björg 26. janúar, 2018 - 14:35

Óborganlega skemmtilegar greinarnar hennar Gurrýjar.
Frábær uppástunga hjá henni að leggja til að talað verði um vegstiku sem mælieining á veðurfari á vegum í stað metra.
Sem dæmi, þriggja stika skyggni o.svo.frv. Þetta geta flestir séð fyrir sér.

Comments are closed.

Add Comment