Íþróttir og ungmennafélagsandinn – Pistill frá Gurrý


Ég er ein af þeim fjölmörgu foreldrum sem reka ferðaþjónustufyrirtæki fyrir börnin sín, eftir að formlegum vinnudegi lýkur. Þá tekur við skutltíminn svokallaði, það þarf að sækja einn og skutla öðrum á milli tómstundastaða ýmiss konar og þannig er tryggt að foreldrar þessa lands kynnist vel gatnakerfi viðkomandi bæjarfélaga og sitja ekki iðjulausir fram að kvöldmat. Að sama skapi hafa íþróttafélög í minni heimabyggð alfarið séð um að skipuleggja frítíma fjölskyldunnar um helgar að vetrarlagi að minnsta kosti.  Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki hvatt mínar dætur til æfa fótbolta, þá væru sumarhelgarnar farnar líka.

Á mínu heimili eru þrjár ungmeyjar sem allar stunda íþróttir af einhverju tagi, enda eru foreldrarnir meðvitaðir um mikilvægi hreyfingar. Lengi vel áttu fimleikar hug stúlknanna allan en í vetur brá svo við að handboltinn greip áhuga tveggja þeirra og hafa þær stundað handboltaæfingar af kappi. Okkur foreldrunum þykir það hið besta mál að þær stundi íþrótt sem þeim finnst skemmtileg, það stuðlar bara enn betur að því að dömurnar sæki æfingar af samviskusemi. Það er þó ekki bara hreyfingarinnar vegna sem við viljum að börn okkar stundi íþróttir. Félagslega hliðin skiptir líka gríðarlega miklu máli. Stór hluti af ánægjunni við íþróttaiðkunina er að æfa með vinum sínum, vera hluti af stærri hópi og læra að taka tillit til styrkleika og veikleika annarra í hópnum. Upplifunin af íþróttaiðkuninni á að vera gleði og samkennd með öðrum. 

Menningin í þessum íþróttum sem dætur mínar hafa stundað er gjörólík. Á fimleikamótum sýna þátttakendur hæfni sína í útfærslu flókinna fimleikaæfinga og allur salurinn klappar þegar einhver nær þreföldu heljarstökki með tvöfaldri skrúfu eða gerir sérstaklega fallegt handahlaup í kjölfarið á splittstökki. Vissulega er keppni milli einstaklinga eða liða en mér hefur fundist að áhorfendur geti fagnað vel framkvæmdum æfingum, burtséð frá því hvaða liði viðkomandi tilheyrir. 

Það var mér því mikil upplifun að fara á fyrsta handboltamót elstu dóttur minnar.  Að sjálfsögðu hefur maður fylgst með handbolta í gegnum tíðina, eins og aðrir landsmenn og ég æfði sjálf handbolta um tíma á unglingsárum, þótt árangur minn á því sviði væri ekki skráður á spjöld sögunnar. Þar sem ég stóð á áhorfendasvæðinu innan um aðra foreldra handboltabarna leið mér eins og ég hefði rétt sem snöggvast skroppið yfir í annan heim, heim þar sem fullorðið fólk sleppir algerlega fram af sér beislinu við að hvetja börnin sín áfram í íþróttaiðkuninni. Mér var brugðið, þetta var ekkert í líkingu við settlegt klappið í fimleikasalnum þegar hópfimleikaliðið gerir tvöfaldan pírúett fullkomlega samtaka. 

Við hlið mér stóð stór og myndarleg móðir ungrar stúlku í liðinu sem dóttir mín var að keppa við. Dóttir konunnar var myndarleg eins og mamma sín, nær höfði hærri en dóttir mín og þó nokkuð meiri ummáls. Móðirin hefur greinilega tekið að sér hlutverk aðstoðarþjálfara hjá viðkomandi liði því hún hrópaði margvíslegar leiðbeiningar til liðsins um það sem betur mætti fara í leiknum. Hún hikaði heldur ekki við að láta tilfinningar sínar í ljós þegar illa gekk hjá liðsmönnum sínum og ég má til með að hrósa konunni fyrir fjölskrúðugt val á kjarngóðum íslenskum blótsyrðum. Kolbeinn kafteinn hefði bliknað við hliðina á þessari konu. Ég játa það fúslega að um stund gat ég ekki annað en horft á konuna og fylgst með atferli hennar, hún lifði sig algerlega inn í leikinn og var orðið heitt í hamsi.

Skyndilega færðist hún öll í aukana og öskraði af lífs og sálarkröftum ,,í‘ana, farðu í‘ana, rústaðu henni!“. Ég hrökk í kút og leit með hraði inn á íþróttavöllinn og sá að þar var dóttir konunnar í vörn og dóttir mín með boltann í sókn, beint fyrir framan hina. Þessi kona var sem sagt kinnroðalaust að hvetja dóttur sína til að rústa dóttur minni, tólf ára gamalli. Mér var ekki skemmt. Mig langaði mest að fara í konuna og rústa henni sjálf þarna á áhorfendapallinum enda er engin móðir hrifin af því þegar börnum hennar er ógnað. Ég er hins vegar frekar góð í stærðfræði og reiknaði það snarlega út að miðað við stærðarmuninn á okkur mæðrunum (sem var álíka og stærðarmunurinn á dætrunum) þá færi ég sennilega ekki vel út úr þeirri viðureign. Ég sá það líka í hendi mér að slagsmál mæðra á áhorfendapöllum væru ekki til fyrirmyndar.  Þess í stað lét ég duga að hvessa augun illilega á konuna og senda henni neikvæðar hugsanir og vona að hún hafi að minnsta kosti fengið hiksta. Sem betur fer lauk leiknum skömmu síðar og við mæðgurnar héldum heim á leið. 

Þess ber að geta að ég hef nú sótt fleiri handboltaleiki hjá dætrum mínum og þessi skringilega upplifun af fyrsta leiknum hefur ekki endurtekið sig. Á hinn bóginn vekur þessi reynsla upp spurningu um það hvaða væntingar foreldrar hafi til íþróttaiðkunar barna sinna. Á mínu heimili eru börn ekki hvött til íþróttaiðkunar í þeim tilgangi að þau verði afreksfólk á íþróttasviðinu heldur að þau læri hvað það geri þeim gott að stunda reglulega hreyfingu. Íþrótta- og tómstundastarf tekur líka við af skólastarfinu á daginn og það er ekki síður mikilvægt að börn séu í skipulögðu tómstundastarfi eftir skóla, annars eru það tölvan og sjónvarpið sem glepja.

Síðast en ekki síst tel ég að við þurfum að standa vörð um ungmennafélagsandann í íþróttunum. Einungis lítið brot þeirra barna sem stunda íþróttir á Íslandi mun ná því að verða afreksfólk í íþróttum.  Allir hinir, sem æfa af samviskusemi og hafa gaman af, þurfa að upplifa það að þeir séu jafn réttháir og afreksfólkið, að þeirra íþróttaiðkun sé jafn mikilvæg og að gildi íþrótta sé ekki mælt í fjölda bikara og verðlaunapeninga heldur í góðri heilsu og heilbrigðum lífsháttum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!