Yfirheyrslan – Kári Steinn Karlsson

Kára Stein Karlsson hlaupara þarf nú ekki að kynna fyrir lesendum en hann tók sér pásu frá hlaupum og svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum um sjálfan sig.
Kári Steinn er án vafa einn besti langhlaupari sem Ísland hefur alið og er hann hvatning fyrir okkur til stefna að markmiðum okkar, hver sem þau eru.

Fyrstu sex í kennitölu?
190586
Fullt nafn?
Kári Steinn Karlsson
Ertu með gælunafn?
Nei, ekkert sem hefur fest við mig.

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Bý með Aldísi Arnardóttur, unnustu.

Hvar ertu fæddur og uppalinn?
Fæddur í Sheffield, Englandi en uppalinn í Vesturbænum og Seltjarnarnesi.

Núverandi búseta?
105 Reykjavík

Menntun?
Bachelor í rekstrarverkfræði og er hálfnaður með meistaranám í fjármálum fyrirtækja og endurskoðun og reikningshaldi.

Atvinna?
Fyrirtækjaráðgjafi hjá KPMG.

Hvert er fyrsta hlaupið þitt?
Það fyrsta sem ég man eftir eru 3km í Reykjalundarhlaupinu árið 1993. Ég man lítið eftir því hlaupi og gerði nú engar rósir en ég komst allavega í mark.

Hver eða/og hvað vakti áhuga þinn á langhlaupum?
Foreldrar mínir voru í skokkhóp á sínum tíma og mér þótti mikið sport að fá að hlaupa smá hring með þeim af og til. Ég fékk síðar að fara með í almenningshlaup í kringum 7-8 ára aldur og fékk verðlaunapening fyrir þátttökuna og þar með var ég seldur. Ég fór upp frá því að safna medalíum og það má segja að það hafi verið aðal drifkrafturinn fyrst um sinn. Það var síðan ekki fyrr en ég var orðinn 15 ára að ég fór að æfa hlaup markvisst.

Hefur þú æft aðrar íþróttir en hlaup og þá hverjar?
Ég æfði körfubolta frá 8 til 16 ára aldurs og fótbolta með hléum frá 6 ára aldri. Eins var ég mikið að æfa mig sjálfur í lyftingum, hlaupum, yoga o.fl.

Persónuleg met eða Íslandsmet:
5 km hlaup(mín:sek):    
14:01 (Íslandsmet)
10 km hlaup:    
29:28 (Íslandsmet)
Hálfmaraþon (21,1 km):    
1:04:55 (Íslandsmet)
Maraþon (42,2 km):    
2:17:12 (Íslandsmet)
Tími upp að Steini á Esju (mín:sek):
Ég hef bara einu sinni tekið tímann á mér upp að steini og þá var ég 20 mín sléttar. Alveg kominn tími á að ég reyni að bæta þann tíma.
Bekkpressa (kg):     Ég hef ekkert reynt fyrir mér í bekknum, hnébeygju eða réttstöðulyftu enda hræddur um að niðurstaðan yrði ekki eitthvað til að vera sérstaklega stoltur af.
Hnébeyjga (kg):    
Réttstöðulyfta (kg):    

Hversu marga km ertu að hlaupa á viku þegar þú ert að æfa fyrir maraþon?
Á bilinu 130 til 200 km á viku.

Snúast æfingar þínar bara um hlaup og meiri hlaup eða leggur þú áherslu á eitthvað annað t.d styrktarþjálfun?
Í grunninn eru þetta hlaup og meiri hlaup en það er misjafnt hvort ég sé að hlaupa stutta eða langa spretti, rólegt, langt, brekkur o.s.frv.  Einnig legg ég mikið upp úr styrktaræfingum og svo á ég til að hjóla og synda aðeins þegar ég finn að líkaminn þarf smá hvíld frá hlaupum.

Hverjir eru þínir styrkleikar sem langhlaupari?
Ég er mikill keppnismaður og legg mig alltaf 110% fram.

En veikleikar?
Ég mætti vera duglegri að gefa mér tíma í hvíld, teygjur og ýmsar aukaæfingar en ég er yfirleitt með ansi mörg járn í eldinum og lítill tími gefst til þess að sinna “litlu” hlutunum sem geta skipt miklu máli til lengri tíma. Eins mætti ég alveg vera agaðri í mataræðinu en ég á það til að vera full duglegur að leyfa mér.

Hversu marga facebook vini áttu?
1.700

Hver var síðasti facebook status þinn?
Það er svo langt síðan ég skrifaði síðast facebook status að ég nenni ekki einu sinni að flétta því upp. Myndi giska á að ég hafi verið að þakka fyrir afmæliskveðjur eða eitthvað álíka óspennandi.

Uppáhaldsmatur?
Alveg vonlaust að velja uppáhalds mat, alltof margt sem kemur upp í kollinn. Burrito, pizza, hamborgari, franskar, lambakjöt, nautakjöt, rif, svona til að nefna eitthvað.

Uppáhaldsdrykkur?
Það fer mikið eftir aðstæðum en ætli maður segi ekki bara vatn svona heilt yfir.

Hvað drekkur þú eða borðar á hlaupum?
Ég er ekki farinn að hlaupa svo langt að ég þurfi að borða á hlaupum. Ég læt það yfirleitt vera að drekka líka nema það sé mjög heitt eða hlaupið taki yfir 90mín að ljúka. Þá drekk ég vatn og kolvetna- og steinefnadrykki.

Uppáhaldslag?
Öfugt við uppáhaldsmat, þá dettur mér ekkert í hug hérna. 

Hlustar þú á tónlist þegar þú ert að hlaupa?
Já, hlusta mikið á tónlist á hlaupum. Ég á það til að hlusta á harðasta euro-techno þegar ég er að hlaupa, eitthvað sem ég gæti ómögulega hlustað á öðruvísi en á hlaupm.

Uppáhaldsbíómynd?
Shawshank Redemption

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ætli það sé ekki einhver af  þeim íþróttastjörnum sem maður hitti á Ólympíuleiknum, Usain Bolt til dæmis.

Markmið í hlaupum?
Keppa á Ólympíuleikunum í Ríó og bæta minn besta árangur.

Markmið í lífinu?
Að verða frábær í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur og njóta lífsins.

Mottó?
Ég spái lítið í mottóum yfir höfuð en ég hugsa stundum “running never takes more than it gives back” þegar ég nenni ekki á æfingu.

Hræðist þú eitthvað?
Já, bara það sem fólk almennt hræðist eins og að vera með ljón á hælunum, fastur í hákarlabúri o.m.fl.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Ég hef einu sinni dottið á hlaupabretti með miklum látum og öll líkamsræktarstöðin leit við þegar ég skall á brettinu. Ég slapp sem betur fer ómeiddur eftir fallið en mig langaði mest að hlaupa út og láta ekki sjá mig aftur. Það var því erfið ákvörðun að halda áfram með æfinguna eins og ekkert hefði í skorist.

Það hafa farið skemmtilegar sögur af þér þegar þú ert að taka æfingar á hlaupabrettum í líkamsræktarstöðvum og stillir hraðann á 18 km/klst og jafnvel meira og hlaupir á þeim hraða tímunum saman. Er þetta satt? (Meðalmaðurinn er ánægður að halda 12 km/klst hraða í einhvern tíma).
Já, það getur passað. Þegar ég er að hita upp og taka hefðbundna hlaupatúra þá hleyp ég á bilinu 14,5-17 km/klst en þegar ég er að taka erfiðari æfingar og spretti þá er ég á 18,5-23 km/klst.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í hlaupum og almennt í lífinu?
Ég á mér ekki einhverja ákveðna fyrirmynd sem stendur eitthvað sérstaklega upp úr. Það eru allir fyrirmyndir á einhverjum sviðum og það er ekki til sá einstaklingur sem maður getur ekki lært eitthvað af. Ég reyni að horfa á það góða í fólki og læra af því sem það gerir vel.

Hvaða góðu og einföldu ráð getur þú gefið fólki sem vill ná langt í langhlaupum?
Stöðugleiki í æfingum er algjör lykill. Það verður enginn meistari á nokkrum vikum og það er lítið gagn í því að vera rosalega duglegur í nokkrar vikur og detta svo alveg úr rútínu inn á milli. Það er mun vænlegra til árangurs að taka skynsamlegri nálgun á æfingarnar og ekki ætla sér um of til að byrja með heldur ná upp góðri rútínu og halda henni.

Hvað er framundan hjá þér?
Ég er að fara hlaupa maraþon næstu helgi í Hamborg (26. apríl). Ég kem svo til með að taka stöðuna og taka ákvörðun um næstu verkefni með tilliti til hvernig gengur í Hamborg.

Eitthvað að lokum?
Ef ykkur langar að byrja að hlaupa og koma ykkur í gott form, byrjið í dag, ekki á morgun.

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND