Hellishönnun

Ég hef áður nefnt það í forbífarten að uppeldishæfileikar mínir hafi náð hátindi sínum um það bil þremur árum áður en ég eignaðist mín eigin börn, vinkonum mínum til takmarkaðrar gleði enda var ákaflega dugleg við að leyfa þeim að njóta yfirburðaþekkingar minnar á því hvernig væri skynsamlegast að taka á agavandamálum hjá ungviðinu. Nú þegar ungmeyjarnar mínar eru um það bil korter í að verða fullorðnar konur staldra ég einstaka sinnum við og horfi til baka og velti fyrir mér á hvaða tímapunkti ég áttaði mig á því að börn, sem eiga þrautseiga og ákveðna foreldra, eru líkleg til að hafa fengið sömu eiginleika í vöggugjöf. Þessir eiginleikar munu svo sannarlega standa með ungmeyjunum í framtíðinni en eru uppalendum uppspretta ótal áskorana, jafnvel svona  náttúrutalenti í uppeldismálum eins og mér.

Útlit, litaval og uppröðun í barnaherbergi er greinilega sjálfstæð listgrein og margir foreldrar sem leggja mikið upp úr því að téð barnaherbergi séu í mjúkum og fallegum pastellitum, allt á sínum stað, tuskudýr í stafrófsröð í hillu og handmáluð framandi dýr á veggjum. Frá sérhönnuðum lömpum slær hlýleg birta töfraljóma á dúkkusafnið sem kúrir uppi á antíkkommóðunni, sem húsráðandi keypti notaða og dundaði sér við að gera upp frá grunni. Raunveruleiki barnaherbergja ungmeyjanna minna er dálítið frábrugðinn þessari mynd. Fyrir það fyrsta völdu stúlkurnar sjálfar liti á veggi herbergja sinna og mjúkir pastellitir komu einfaldlega aldrei til greina. Að vísu höfðu þær aðgang að lampa og  kommóðum en þessi húsgögn voru auðfengin í IKEA og sett saman á örskotsstundu. Vissulega voru handmálaðar myndir á veggjum, eða öllu heldur handteiknaðar myndir eftir ungmeyjarnar, með frjálsri aðferð og fjölbreyttu efni, þær voru mikið að vinna með akrýlliti og túss á þessum árum, en hafa í dag snúið sér að annars konar listsköpun. Jú, það er rétt að í einhverjum tilfellum hafi orðið ágreiningur milli listakvennanna og formlegra eigenda húsnæðisins um staðsetningu og umfang listaverkanna en oftast var komist að niðurstöðu sem allir aðilar gátu unað við, að minnsta kosti tímabundið.

Í ljósi áherslna okkar foreldranna í innanhússhönnun (við höfum aðallega verið að vinna með svokallaðan sentimentalisma á heimilinu, sá stíll gengur út á að prýða hýbýlin með fjölbreyttu úrvali bóka, pottaplantna og ýmiss konar muna sem hafa verið föndraðir af áðurnefndum listakonum á mismunandi æviskeiðum þeirra) kom það okkur algerlega í opna skjöldu þegar yngsta yngismeyjan réðist í það verkefni að endurskipuleggja herbergið sitt. Um tíma héldum við hreinlega að mættur væri umskiptingur á heimilið. Í stað litríkrar paradísar í stíl við skínandi persónuleika sinn ákvað daman að mála herbergið sitt steingrátt, alla veggina. Að auki fór hún fram á gardínur og rúmföt í sama lit. Þessi umbreyting gerir það að verkum að þegar gengið er inn í herbergi stúlkunnar er eins og komið sé inn í helli. Hellisbúinn okkar hefur þó sem betur fer ekki reynst niðurdreginn eða illa staddur andlega þannig að grámóskan í hellinum virðist ekki endurspegla erfiðleika í sálarlífinu. Þvert á móti gengur daman glöð til allra verka, nema uppvasks og tiltektar en þeim verkefnum finnst henni betra að aðrir sinni.

Grái hellirinn er líka sérlega vel heppnuð móttökustöð fyrir aðra unglinga á svipuðum aldri. Þrátt fyrir takmarkaðan fermetrafjölda virðast engin efri mörk í þeim fjölda unglinga sem hægt er að koma fyrir í herberginu. Það er líka áhugavert að fylgjast með hegðun og atferli þessara unglinga því stundum held ég að þeir séu af einhverri annarri tegund en annað fólk. Að minnsta kosti veit ég engan annan hóp sem getur dregið fram lífið við jafn loftfirrðar aðstæður og hópur unglinga í gráum helli. Best virðist þeim líða þegar glugginn er lokaður og loftljósin slökkt og eina birtan sem lýsir upp umhverfið er flöktandi ljóstýran frá farsímum, sem þó eru á myrkurstillingu til að eyðileggja ekki stemninguna. Ég bíð bara spennt eftir því að umráðandi hellisins rifji upp gamla takti og skreyti hellisveggina sína með frumlegum teikningum.

Guðríður Helgadóttir, sentimentalisti

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur