Hér í uppsveitum Kópavogs er nú yfirleitt ekki mikið að frétta svona dags daglega. Strætó ekur að vísu nokkuð reglulega í gegnum hverfið, einstaka sinnum sést einn og einn lögreglubíll með blikkandi ljós, þyrla Landhelgisgæslunnar flaug hér yfir um daginn, foreldraröltið er fastur liður á föstudagskvöldum og um tíma mátti grilla í eldgos í fjarska. Annars gengur lífið bara sinn vanagang og er fremur tíðindalítið, að minnsta kosti virðast íbúar hér á Kópavogshálendinu almennt löghlýðnir og fara eftir helstu reglum sem settar eru í umgengni við náungann.
Á hrollköldu vetrarkvöldi um miðjan desember, sennilega einu því kaldasta í manna minnum á þessu svæði, sátum við hjónin í rólegheitum við kertaljós og kósíheit og slökuðum á eftir langan vinnudag. Úti var stillt veður og svalt og sérlega fallegt að horfa út um stofugluggann og dást að jólaljósadýrðinni í hverfinu. Skyndilega var þögnin rofin með þungum hvelli. Við hrukkum bæði í kút, áttum ekki vona á svona hávaða en áttuðum okkur fljótt á því að þarna væri sennilega á ferðinni undantekningin frá reglunni, það er að segja ólöghlýðinn nágranni að sprengja flugeld utan löglegs sprengitímabils. Ég rauk þó út í glugga til að sjá flugeldana en var of sein og varð því pirringurinn tvöfaldur, annars vegar yfir hvellinum og hins vegar að missa af sýningunni. Eftir nokkrar róandi öndunaræfingar settist ég aftur niður og hamaðist við að slaka á.
Síðar um kvöldið þegar við hjónin vorum gengin til náða ríður af þessi líka svakalegi hvellur rétt í grennd við húsið og skömmu síðar annar ekki minni. Þessir hvellir hljómuðu eins og alvöru byssuhvellir en slíkt er auðvitað óhugsandi hér í fásinninu. Við litum hvort á annað og höfðum orð á því að þetta hlyti að vera nágranninn í næsta húsi en hann er orðlagður flugeldafíkill og hefur einstaka sinnum orðið uppvís að ótímabærum flugeldaskotum. Við sáum þó engin ljós og þegar hvellirnir urðu ekki fleiri svifum við inn í draumalandið óáreitt.
Um þetta leyti voru ungmeyjarnar okkar önnum kafnar í próflestri enda samviskusamar og metnaðarfullar stúlkur. Próflestur reynir mjög á nemendur og mikilvægt að huga vel að næringu og fóðrun samhliða hæfilegri hreyfingu og góðum svefni. Það er hluti af skyldum foreldra að halda vel utan um ungviðið og skapa því umhverfi við hæfi svo próflesturinn gangi vel. Við höfum reynt að standa okkur vel í þessum málum og séð til þess að helstu nauðsynjar séu til í eldhúsinu því hungraðar ungmeyjar eiga erfitt með einbeitingu. Þegar dæturnar gerðu hlé á lestri prófbókanna og komu fram úr herbergjum sínum greip ég þær glóðvolgar og bað þær að setjast niður með mér til að gera innkaupalista. Á listann rötuðu hin margvíslegustu matvæli, ekki öll af hollara taginu en þó nægilega hátt hlutfall til að friðþægja foreldrana. Ég skrifaði þetta allt samviskusamlega niður á blað til að gleyma nú engu. ,,Viljið þið ekki eiga eitthvað að drekka stelpur mínar?“ spurði ég þær að lokum, vitandi það að þarna væri ég að opna ákveðna ormagryfju. Eins og aðrir unglingar á þeirra aldri drekka þær allt of mikið af orkudrykkjum og ég er alfarið á móti svoleiðis sulli enda ekki ein einasta hitaeining í þessum drykkjum. Það liggur við að ég vilji frekar að þær drekki áfengi en orkudrykki, það eru þó að minnsta kosti kaloríur í því. Ég ákvað því að koma aðeins til móts við þær. ,,Ég gæti til dæmis keypt dósir af appelsíni.“ Dæturnar litu á mig og hristu svo höfuðin í takt. ,,Mamma, það þýðir nú ekki neitt í svona frosti, dósirnar springa allar úti á svölum!“
Leifarnar af gosdósunum hafa nú verið fjarlægðar af svölunum og öllum sönnunargögnum eytt. Við hjónin höfum enn ekki mannað okkur í að biðja nágrannana afsökunar á sprengingunum og erum satt best að segja að vona að enginn hafi tekið eftir þeim. Er það kannski of mikil bjartsýni?
Guðríður Helgadóttir, bjartsýniskona