Fyrir nokkrum árum var mér boðið að taka þátt í félagsskap sem gengur út á að leiða saman mismunandi starfsgreinar og tengja þannig fólk víðs vegar að úr atvinnulífinu. Ég gekk sem sagt í Rótarýklúbb og komst þar í einstaklega skemmtilegan og fróðlegan félagsskap. Eins og gerist og gengur myndast góð vinatengsl í svona hópi og síðastliðið sumar ákvað nokkurra manna hópur úr klúbbnum að skella sér saman í þriggja daga gönguferð og njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða að sumarlagi.
Hópurinn undirbjó sig vel fyrir gönguferðina og var ferðin þaulskipulögð. Gönguleiðin sem varð fyrir valinu var fremur fáfarin en fjölbreytt og skemmtileg. Daginn sem lagt var af stað var einmuna veðurblíða, sól skein í heiði, örfá snjóhvít ský úti við sjónarrönd og golan hæfilega sterk til að halda mannætuflugunum frá göngugörpunum. Í fyrstu minnti hópurinn dálítið á kýr að vori, gengið var rösklega af stað, allir léttir í spori, brosmildir og fullir kæti, spenntir fyrir verkefninu framundan en jafnframt þakklátir fyrir að komast með. Fararstjórinn gætti þess að stoppa með reglulegu millibili svo hægt væri að sinna vökvun og fóðrun en eins og alþjóð veit er ekkert nesti eins ljúffengt og það sem snætt er undir berum himni, á fallegum stað, í góðum félagsskap.
Þegar dagleiðin var um það bil hálfnuð dró hins vegar til tíðinda og átti eftir að koma á daginn að þarna myndi fjölbreyttur bakgrunnur göngufélaganna koma sér vel. Presturinn í hópnum varð fyrir óhappi þannig að hann gat ekki haldið áfram göngu sinni að óbreyttu. Upphófst þá atburðarás sem hefði verið óhugsandi í einsleitari hópi.
Þegar ljóst var að presturinn kæmist ekki áfram án þess að gripið yrði til aðgerða tóku hjúkrunarforstjórinn og framkvæmdastjóri meðferðarsviðs (báðar hjúkrunarfræðingar með áratuga reynslu af aðhlynningu við ýmsar aðstæður) stjórnina á staðnum og skipuðu göngufólki til verka. Stjórnendurnir byrju á því að kalla eftir skyndihjálparbúnaði hvers konar. Upp úr níu bakpokum komu 10 skyndihjálparpokar með plástrum og grisjum og alls konar búnaði sem eðlilegt er að finna í slíkum pokum. Iðnaðarmennirnir í hópnum, hraustir menn og sterklegir að burðum, voru fengnir til aðstoðar við verklega framkvæmd aðgerða undir leiðsögn hjúkrunarfræðinganna. Annar þeirra studdi við prestinn á meðan hinn sá um að gera að meininu. Örverufræðingurinn í hópnum var settur í að standa á verði og tryggja að örverur úr umhverfinu gætu ekki truflað aðgerðir eða mengað aðgerðasvæðið á neinn hátt. Tannlæknirinn stóð álengdar, tilbúinn að grípa inn í með töngum og handbor, sem við fyrstu sýn er kannski ekki staðalbúnaður í sjúkrapokum en eftir á að hyggja fullkomlega eðlilegt að tannlæknir sé með slíkar græjur innan seilingar, alltaf. Tónlistarkennarinn stóð álengdar og raulaði hughreystandi lög, með vægu kristilegu ívafi og virtist söngurinn, sem var undurfagur, hafa upplífgandi áhrif á prestinn. Presturinn var þó skiljanlega miður sín yfir því að hafa lent í þessu óhappi en ekki síður var ljóst að honum þótti leitt að hafa valdið þeirri fyrirhöfn sem aðgerðirnar kölluðu á. Eini meðlimurinn í hópnum sem ekki fékk úthlutað ákveðnu verkefni í þessari hópaðgerð var garðyrkjufræðingurinn enda virtist engin þörf á ræktunarhæfileikum við þessi skilyrði og ekkert í aðgerðunum kallaði á handklippur og samanbrjótanlega greinasög. Garðyrkjufræðingurinn stóð því til hliðar og fylgdist með aðgerðum af athygli og dáðist að því hversu fumlaust hópurinn vann saman við að leysa þetta vandasama verkefni.
Eftir drykklanga stund stóðu iðnaðarmennirnir á fætur, hjúkrunarfræðingarnir litu yfir framkvæmdina og lýstu því yfir að aðgerðin hefði heppnast fullkomlega, örverufræðingurinn hló hátt og snjallt af gleði, tannlæknirinn skutlaði töngunum og handbornum aftur í bakpokann, tónlistarkennarinn skipti yfir í Óðinn til gleðinnar, presturinn spratt á fætur og garðyrkjufræðingurinn dáðist að því hversu vel iðnaðarmönnunum hafði tekist að plástra skósólann aftur undir gönguskó prestsins, svo vel reyndar að plástraðir skórnir dugðu út gönguferðina.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur í Rótarýklúbbi