Að vökva lífsblómið

Frænka mín er sérlega natin og ræktarsöm við ættingja sína, hvort sem þeir eru lifandi eða liðnir. Ef eitthvað er á döfinni, hvort sem það eru stórviðburðir eins og fermingarveislur, útskriftarhátíðir, afmælispartý eða brúðkaup er hún mætt á staðinn og er ráðagóð og útsjónarsöm með eindæmum. Bjáti eitthvað á er hún fyrst til að bjóða fram aðstoð sína og þar fylgja svo sannarlega aðgerðir orðum. Þurfi einhver á skutli að halda í eða úr veislum er hún líka sú sem er beðin um greiðann enda hefur hún lítinn áhuga á áfengisdrykkju. Þetta er kona með hjarta úr gulli og er fjölskyldan rík að eiga svona hauk í sínu horni. Hins vegar er hún stundum dálítið óheppin.

Hjálpsemin einskorðast ekki einungis við okkur sem enn erum ofar moldu. Frænkan fer á hverju ári í kirkjugarðinn og hreinsar og snyrtir leiði látinna ástvina og gerir það af miklum myndarskap. Þegar illgresið hefur verið fjarlægt plantar hún yndisfögrum sumarblómum sem prýða síðasta garðinn allt sumarið og heiðra minningu framliðinna ættingja á fallegan hátt.

Á sólríkum vordegi tók frænkan sig til og ákvað að nota veðurblíðuna til að sinna kirkjugarðsverkefnum ársins. Hún hafði með sér flest allt sem þarf til garðverkanna og hreinsaði leiðin sín vel og vandlega. Fjölæru plönturnar á leiðunum fengu áburðarskammtinn sinn eftir að búið var að hreinsa frá þeim visnaða stöngla og laufblöð síðasta árs þannig að þær skörtuðu sínu fegursta. Eftir vorhreingerninguna var svo röðin komin að sumarblómunum sem var plantað eftir kúnstarinnar reglum og meðfæddri smekkvísi þar sem mismunandi hæð og breidd plantnanna var tekin með í reikninginn, sem og blómlitur og áætlaður endingartími blómanna en hann getur verið nokkuð misjafn. Gróðursetningarverkefnum er hins vegar ekki lokið fyrr en búið er að vökva blómin, eins og allt alvöru garðyrkjufólk getur vitnað um. Í kirkjugörðum landsins hefur löngum verið hægt að fá lánaðar vökvunarkönnur til að vökva á leiðum en nú greip frænkan í tómt. Engar vökvunarkönnur voru til staðar og það sem verra var, ekkert vatn kom heldur úr krananum á staðnum. Nú voru góð ráð dýr enda sólríkt og heldur farið að hitna í kolunum og sumarblómin þyrst.

Ráðagóða frænkan dó ekki ráðalaus. Hún brunaði rakleiðis heim til sín en þar vissi hún af nokkrum stórum gosflöskum úr plasti sem hún sá fyrir sér að fylla af vatni heima við og flytja svo með sér í garðinn. Þegar heim kom var hins vegar búið var að fara með allar plastflöskur í endurvinnslu og staðan því orðin grafalvarleg. Eftir dálitla leit að heppilegum vatnsílátum rakst frænkan á sönnunargögn úr síðasta saumaklúbbi, tvær tómar hvítvínsflöskur með skrúfuðum tappa og þar með var málinu reddað. Hún skolaði þær vel, fyllti af köldu og svalandi vatni, setti þær svo í poka og dreif sig aftur í kirkjugarðinn. Nú var hitastigið utanhúss komið í drjúga tveggja stafa tölu og þegar frænkan hafði gengið með glamrandi vínflöskurnar í poka nokkurn spöl að leiðunum sínum var hún orðin verulega þyrst. Hún tyllti sér því á lágan vegg við leiðin sín, dró aðra flöskuna upp úr pússi sínu og fékk sér drjúgan sopa af vatninu.

,,Má þetta bara, detta í‘ða í kirkjugarðinum?“ var skyndilega sagt stundarhátt á bak við frænkuna. Það lá við að vatnið frussaðist í fallegum boga út úr frænkunni þegar hún áttaði sig á að á bak við hana voru nokkrir unglingar í sumarvinnu að fylgjast með henni. Drógu unglingarnir eðlilega ályktun af því sem þau sáu. Frænkan varð mjög vandræðaleg, spratt á fætur og tók umsvifalaust til við að vökva sumarblómin með vatninu úr hvítvínsflöskunum. Eitt augnablik hvarflaði að henni að útskýra fyrir unglingunum að hún væri nú með vatn í flöskunum en svo sá hún fram á að það yrði einfaldlega of ótrúlegt. Þegar dálítil lögg var eftir í seinni flöskunni, bar hún hana að vörum sér, kláraði síðasta sopann og lyfti svo flöskunni upp og sagði ,,Skál krakkar!“ og hélt sína leið. Vonandi hafa blessuð börnin ekki misst trúna á mannkynið.

Guðríður Helgadóttir, fagmaður í vökvun

Related posts

Til bágborinnar skammar!

Músagangur

Gráni greyið