Frábært sumar

Loksins! Loksins fengum við hlýtt og gott og notalegt sumar hér á Suðurlandi! Síðustu sumur hafa upp til hópa verið frekar leiðinleg, ýmist köld, blaut eða vindasöm eða sambland af öllum þessum þáttum og þá er útkoman ekki lokkandi. Nú kom sumarið sem Sunnlendingar hafa beðið eftir, hægviðri, hlýindi, lítil úrkoma og einn og einn sólríkur dagur þar sem hægt er að bæta vel á D vítamín tankinn fyrir veturinn. Mannlífið verður með allt öðrum brag þegar veðurguðirnir eru svona rólegir í tíðinni. Ég er ekki frá því að svona rólegt veður virki róandi á andann og geri manni kleift að ná áður óþekktum hæðum í afslöppun í sumarfríinu, maður þarf ekki að hamast við að slappa af í hífandi roki eða slagviðri.

Eins og fjölmargir Íslendingar hef ég verið þeirrar ánægju aðnjótandi að dvelja í sumarbústað í sumarfríinu. Bara það eitt að skipta um umhverfi setur mann í annan gír en venjulega. Þegar maður er svo vakinn við fjölbreyttan söng margvíslegra mófugla á hverjum degi kemst maður ekki hjá því að vakna brosandi. Spóinn á hólnum er í uppáhaldi, hann stendur vaktina meira og minna allan daginn og vellur af innlifun með reglulegu millibili. Ein og ein lóa svarar með hefðbundnu tví-tvíi og hrossagaukar stunda markvissar flugæfingar með tilheyrandi hljóðum. Þessi kór er svo kryddaður tísti smáfugla, maríuerla og skógarþröstur kallast á og einstaka sinnum heyrist aðeins í rjúpu. Maður finnur það svo vel þegar maður gengur um úti í náttúrunni hvað fuglalífið er stór hluti af sumarupplifuninni, punkturinn yfir i-ið á annars frábæru sumri. Það er upphafið á endinum á sumrinu þegar mófuglarnir fara að hópa sig fyrir brottflug haustsins.

Gróður er með fallegasta móti þetta sumarið og er það væntanlega hlýindunum að þakka. Plönturnar í náttúrunni láta sitt ekki eftir liggja. Kremhvítar breiður af blómstrandi mjaðjurt gleðja augað og krossmaðra og gulmaðra lífga upp á móana. Aðeins er farið að bregða fyrir bleikum lit á holtum og í lyngmóum þar sem beitilyngið er að springa út. Allur gróður er mun fyrr á ferðinni en fyrir ári enda var vorið svo milt og gott. Glöggir berjaunnendur telja að árið í ár verði gott berjaár og eru nú þegar farnir að prufukeyra berjatínur og fylgjast daglega með þroskaframvindu berjanna. Vonandi koma allir berjabláir heim, hlaðnir berjabirgðum til vetrarins.

Í görðum landsins hefur garðagróðurinn hreinlega misst sig í stjórnlausan vöxt. Þeir sem hafa þurft að slá grasblettina sína í sumar hafa varla haft undan vextinum grasið æðir upp og virðist ekkert lát vera þar á. Trjágróður hefur heldur betur tekið við sér og eru garðar einhvern veginn miklu loðnari af gróðri en síðustu sumur. Fjölærar plöntur og sumarblóm hafa skartað sínu fegursta í sólarblíðunni og blómstrað þannig að langt er síðan garðar hafa verið jafn litríkir og í ár. Hitt er annað mál að í svona hagvexti eins og hefur verið í görðum landsins þá eru alltaf einhverjir sem telja sig eiga rétt á að fá hlutdeild í gróðanum, hvort sem sú krafa er réttmæt eður ei. Langt er síðan garðagróður hefur verið jafn étinn og á jafn fjölbreyttan hátt og í sumar. Fiðrildalirfur af mörgum tegundum hafa kjamsað á laufblöðum, birkikembur hafa komið sér haganlega fyrir inni í birkiblöðum, rifsþélur hafa séð til þess að rifsrunnar eru orðnir naktir á miðju sumri, asparglyttur éta glufur og göt í laufblöð aspa og víðitegunda og þéttleiki blaðlúsa á sætum og safaríkum blómstönglum er slíkur að ekki sér í stöngulinn sjálfan þar undir. Allt þetta át gerir það að verkum að manni finnst eins og maður heyri kjamsið í þessum óboðnu gestum, þegar maður sest niður úti á palli í logninu og nýtur kyrrðarinnar. Það er huggun harmi gegn að fjölbreytt skordýralíf er á uppáhaldsmatseðli margra fuglategunda sem hafa svo sannarlega haft úr nógu að moða í sumar.

Þrátt fyrir þetta yndislega sumar er maður alltaf einhvern veginn með varann á sér, treystir því ekki fyllilega að blíðan muni endast, að nú hljóti að fara að draga til veðurtíðinda, lognið sé of gott til að vera satt og svo framvegis. Ég held að þetta sé innræting margra kynslóða sem háðu miklu harðari lífsbaráttu þar sem dyntóttir veðurguðir gátu svo sannarlega sett strik í alla lífsreikninga. Fólk vonaði hið besta en bjó sig þó alltaf undir hið versta, að minnsta kosti andlega. Svona andlegir fyrirvarar eru að ég held ekki hollir fyrir mann. Þeir gera það að verkum að maður nær ekki almennilega að njóta stundarinnar og þess sem maður hefur. Það er því markmið mitt það sem eftir lifir sumri að gleðjast yfir hverjum sumardegi, er á meðan er.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið