Vörn og orsök krabbameins – 5. grein


V. Lækning krabbameins

Næringin
Þá er komið að veigamestu orsök krabbameinsins, en það er röng næring líkamans. Hinir útbreiddu og stórfelldu gallar á mataræði menningarþjóðanna hafa svo oft og ítarlega verið ræddir hér í ritinu og í bókum NLFÍ, að hér verður ekki fjölyrt um það atriði, heldur látið nægja að minna á þá staðreynd, að menningarþjóðirnar búa frá vöggu til grafar við tilfinnanlegan skort ýmissa nauðsynlegra næringarefna, ofneyzlu annarra næringarefna og ofát yfirhöfuð að tala.

Af þessu leiðir veiklun einstakra líffæra og líkamans alls, í senn vegna ofreynslu og efnaskorts. Viðnámsþróttur líkamsfrumanna dvínar, og þær standast ekki árásir sýkla og annarra sjúkdómsafla. Með því er krabbameininu boðið heim, því að það “kemur aldrei í heilbrigt líffæri” (sbr. síðasta hefti). Ennfremur má minna á það, að rangt mataræði veldur tregum hægðum, sem eru, eins og áður hefir verið sýnt, ein helzta orsök innvortis eitrunar og krabbameins, bæði innvortis og útvortis.

Því miður er ekki rúm til að taka upp nema fá sýnishorn af miklum fjölda ummæla í þessa átt eftir þekkta erlenda lækna og sérfræðinga.

Sir William A. Lane, einn þekktasti og reyndasti skurðlæknir Englendinga, nýlega látinn, segir:“Krabbameinið er vöntunarsjúkdómur, óþrifnaðarsjúkdómur og sjálfseitrunarsjúkdómur …. Krabbameinið er lokastigið í heilli keðju meltingartruflana. Það er síðasti kapítulinn í sögu um ófullnægjandi hreinsun ristilsins og meltingarvegarins í heild.”

Dr. med. Robert Bell, varaforseti Alþjóðafélags krabbameinsrannsókna, segir: “Krabbamein er blóðsjúkdómur …. Orsökin er sú, að blóðið er til langframa hlaðið eiturefnum, m.a. frá gömlum, rotnandi saur í ristli. …. Ef unnt væri að haga mat og drykk eftir raunverulegum þörfum líkamans, þannig að engu líffæri væri ofboðið, væri tvennt unnið: langt líf og fullkomin heilbrigði. Mannsævin yrði 100 ára eða meira, og dauðann mundi ekki bera að í mynd sjúkdóma, heldur mundum við líða út af í svefni.
Við megum vera þess viss, að ofneyzla matar og drykkjar, sem ofreynir ýms líffæri líkamans, á sök á öllum tegundum sjúkdóma langt fram yfir það, sem menn grunar.”

Dr. med. Erwin Stribning, þýzkur læknir, segir: “Við verðum að kappkosta að hindra, að við fáum krabbamein, og það mun takast, ef við bara lifum náttúrlegu lífi, og fyrst og fremst á náttúrlegu fæði. …. Orsök krabbameins í ristli er áreiðanlega ofneyzla kjöts og eggja, sem valda mikilli rotnun í ristlinum, eins og bezt má marka af hinni viðbjóðslegu lykt af hægðunum; hinsvegar er lítil lykt af hægðum þeirra manna, sem lifa á mjólkur- og jurtafæði.”

Lækning á krabbameini

Venjulegar aðferðir eru fólgnar í uppskurði eða radíum- og röntgengeislum. Lyf þekkjast ekki við þessum sjúkdómi. Um árangurinn af þessum aðgerðum skiptir umsögnum lækna mjög í tvö horn.

Fyrir nokkrum árum var talið, að við hina frægu Mayo-stofnun í Ameríku tækist með uppskurði að lækna 8,6% sjúklinga með magakrabba. Við útvortis krabbamein er árangurinn oftast meiri. Venjulega er þá miðað við það, að sjúkdómurinn hafi ekki tekið sig upp innan 5 ára frá aðgerðinni. En þótt tekizt hafi í bili að eyða krabbameini með uppskurði eða geislum, er það á einskis manns færi að segja, hvort sjúkdómurinn sé raunverulega læknaður. Í meiri hluta tilfella sýnir reynslan, að hann tekur sig upp aftur eftir nokkra mánuði eða ár.

Sumir læknar hafa litla trú á þessum aðgerðum. Þannig segir James Ewing, formaður krabbameinsfélags í Ameríku, einn þekktasti læknir á sviði krabbameins: “Sennilega nær tala þeirra, sem læknast af magakrabba, ekki 1%”. Fleiri þekktir læknar taka í sama strenginn. Hér eru ummæli tveggja þýzkra lækna:
Dr. med. Friedrich Wolf segir: “Enn í dag er mjög um það deilt, hvort yfirleitt sé hægt að lækna krabbamein. Reynsla mín er sú, að eina ráðið til fullkominnar lækningar séu mataræðisreglur …… Krabbamein er sjúkdómur í öllum líkamanum og getur ekki læknazt til fulls nema með breytingum á mataræði og lifnaðarháttum.”

Dr. med. Bernhard Aschner segir: “Það eitt að skera burtu krabbamein eða lækna það með geislum er ekki fullnægjandi lækningaaðferð, heldur verður líkaminn allur jafnframt að verða aðnjótandi réttrar meðferðar. Hin blinda trú á hnífinn er oft vanhugsuð fordild. Til þess að komast hjá hættulegum uppskurði við krabbameini, eru til ýmsar vægari aðferðir, sem valda ekki truflunum á líffærum líkamans eða starfi þeirra.”

Þá verður að geta þess, að fjöldi sjúklinga deyr af völdum skurðaðgerðarinnar sjálfrar, sjúklingar, sem margir hefðu getað lifað vikur eða mánuði eða ef til vill fengið fullan bata með öðrum aðferðum.

Sumir læknar eru beinlínis á móti skurðaðgerðum og einkum geislalækningum, vegna þess að af þessum aðgerðum stafi sjúklingnum meiri hætta en batavon, og sérstaklega með hliðsjón af því, að hægt sé að ná betri árangri á annan hættuminni máta, sbr. ummæli dr. Aschners hér að ofan. Meðal þessara lækna má nefna dr. Nolfi, sem lesendur Heilsuverndar kannast við.

Sumir telja óheppilegt að skýra frá þessum hlutum, því að það veiki um of trú manna á þá “einu” möguleika, sem sjúklingarnir hafi til bata, hnífinn og geislana. Já, ef þetta væru “einu” hugsanlegu leiðirnar, þá væri ef til vill réttara að láta kyrrt liggja. En nú hefir þegar verið á það bent, og verður gert ítarlegar síðar, að þekktir læknar, sem hafa sízt minni þekkingu og reynslu í þessum efnum en aðrir stéttarbræður þeirra, fullyrða, að til séu aðrar leiðir, sem almenningur hlýtur að eiga heimtingu á að kynnast.

Læknar okkar hafa rætt og ritað allmikið um þessi efni að undanförnu. Er þar mikinn fróðleik að finna, en einnig, því miður, svo miklar mótsagnir, að almenningur er litlu nær um meginatriði málsins: orsakir sjúkdómsins og varnir gegn honum, aðrar en þær að leggjast undir hnífinn. Í öðru orðinu segja læknar, að þeir viti ekkert um orsakir krabbameins. En í hinu orðinu skýra þeir frá orsökum sumra algengustu krabbameina, þeirra á meðal magakrabba, sem er langtíðasta krabbameinið og dr. Halldór Hansen telur stafa m.a. af röngum matar- og drykkjarvenjum, og lungnakrabba, sem fer vaxandi hér sem víðar og er sumstaðar orðinn með tíðustu krabbameinum, og próf. Dungal telur líklegt að stafa muni af reykingum. Þá skýrir próf. Dungal frá því, að hægt sé að framkalla krabbamein í lifur hjá dýrum með smjörlit (sbr. grein í síðasta hefti), en þó því aðeins, að B2-fjörefni vanti í fóðrið. Er þetta í fullu samræmi við þær kenningar, sem skýrt hefir verið frá hér í þessum greinaflokki, að krabbamein stafi aðallega af þessu tvennu: 1) langvarandi verkunum eiturefna og 2) rangri næringu. Þegar læknar þrátt fyrir þessar játningar halda áfram að fullyrða, að mataræðið og lifnaðarhættirnir standi ekki í neinu sambandi við myndun krabbameins, eru það bersýnilega leifar frá þeim tímum, er menn vissu raunverulega ekki betur, en samrýmist enganveginn nútíma þekkingu. Auk þess er slík fræðsla óheppileg og hættuleg fyrir þá sök, að hún elur upp kæruleysi í mönnum gagnvart lífsvenjum sínum og dregur úr viðleitni þeirra til að bæta þær.

Svipað þessu er viðhorf lækna okkar gagnvart hinum “náttúrlegu” lækningaaðferðum svonefndu. Til eru mörg dæmi þess, sum staðfest af læknum, að krabbamein hafi læknazt, annaðhvort sjálfkrafa eða með breyttum lifnaðarháttum. Lesendum Heilsuverndar eru kunn slík dæmi, m.a. hvernig danski læknirinn frú Nolfi læknaði sig af brjóstakrabba með hráfæði, sólböðum, útivist o.s.frv. Að hér var um krabbamein að ræða, en ekki meinlaust æxli, hefir verið sannað með smásjárrannsókn.

Nú munu læknar yfirleitt halda því fram, að engar lífernisreglur geti læknað krabbamein. Auðvitað fá slíkar fullyrðingar ekki staðizt, úr því reynslan hefir sannað hið gagnstæða. Þar að auki mun þessi lækningamöguleiki ekki hafa verið rannsakaður það rækilega af læknum, að heimilt sé að neita honum. Og loks má benda á þá staðreynd, að hér ganga læknar einnig í berhögg við sínar eigin fullyrðingar, þegar þeir t.d. segja sjúklingum sínum, að mataræði hafi engin áhrif á sjúkdóminn, en gefa þeim samtímis tilbúin fjörefni! Eða þeir segja sjúklingnum að styrkja sig með útivist og hreyfingu, en samt á hollt mataræði engin áhrif að hafa!

Engum dettur í hug að halda því fram, að breytt mataræði eða lifnaðarhættir séu örugg leið til bata á krabbameini. Vegna þess að þessi sjúkdómur er afleiðing af langvinnri eitrun og hrörnun líkamans, einskonar “lokastig” líkamlegrar hnignunar, er hann verri viðfangs en flestir aðrir sjúkdómar. En það kemur ekki til mála, að rétt sé að halda leyndum fyrir almenningi þeim möguleika að lækna sig með breyttu mataræði, t.d. samtímis öðrum aðgerðum.

En meginatriði þessa máls er það, að með réttum lifnaðarháttum er hægt að komast hjá því að fá þennan sjúkdóm. Og alvarlegasta yfirsjón lækna er í því falin að vilja ekki viðurkenna þessa staðreynd, og halda áfram að telja almenningi trú um, að lifnaðarhættirnir hafi engin áhrif á myndun krabbameins.

Stundum heyrist sagt, að kenningar náttúrulækningastefnunnar geri ekki annað en vekja ugg og ótta hjá fólki, ótta við krabbamein og aðra sjúkdóma. Þetta stafar af misskilningi eða rangri túlkun. Umtal “náttúrulækningamanna” um sjúkdóma stendur ætíð í sambandi við umræður um orsakir þeirra vegna rangra lifnaðarhátta og ábendingar um að færa lifnaðarhættina í betra horf, til þess í senn að forðast sjúkdóma og lækna þá. Slíkar kenningar eiga aldrei að geta valdið ótta. Og í næsta hefti verður bent á leiðirnar til þess að verjast þessum alvarlega sjúkdómi. 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 1. tbl. 1950, bls. 8-13

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi